Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 25. mars 2010

Mál nr. 18/2010                   Eiginnafn:     Lundi

 

Hinn 25. mars 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 18/2010:

Eiginnafnið Lundi (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Lunda og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Lundi (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 19/2010                    Eiginnafn:     Alexsandra

  

Hinn 25. mars 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 19/2010:

Sá rökstuðningur fylgir beiðni um eiginnafnið Alexsandra (kvk.) að nafnið sé fallegra þegar það er samsett úr Alex og Sandra. Hér er rétt að taka fram að bæði nöfnin, Alex og Sandra, eiga sér sama uppruna. Nafnið Alex er stytting úr karlmannsnafninu Alexander og Sandra er upphaflega ítölsk stytting á kvenmannsnafninu Alessandra sem barst frá Ítalíu til annarra Evrópulanda. Alessandra er ítölsk mynd nafnsins Alexandra, sem er leitt af karlmannsnafninu Alexander. Að mati mannanafnanefndar verður því að líta svo á að Alexsandra, samsett úr Alex og Sandra, sé í reynd sama nafn og Alexandra. Það eina sem skilur á milli er annar ritháttur.

Nokkur önnur mannanöfn af sama toga og Alexandra eru til í málinu og á mannanafnaskrá, Alexa, Alexandría, Alexía og Alexíus. Öllum þessum nöfnum er það sameiginlegt að þau eru rituð með  bókstafnum x. Sá stafur stendur fyrir gómhljóð og s-hljóð. Í eðlilegum framburði yrði Alexsandra borið eins fram og nafnið Alexandra.

Kvenmannsnafnið Alexandra hefur þróast á ýmsa vegu í tungumálum heims. Má þar nefna Alajandra, Alaxandra, Alaxandria, Alecsandra, Alejandra, Aleksandra, Alesandra, Alessandra, Alessandria, Alexandera, Alexandere, Alexanderia, Alexandra, Alexandrea, Alexandria, Alexandrie, Alexendria, Alexxandra, Alexzandra, Alissandre, Alixandra, Alixandrea, Allessandra, Alysandra, Alyxandra.Alexsandra er ekki algengt afbrigði nafnsins en það þekkist þó, t.d. í Búlgaríu.

Rithátturinn Alexsandra er ekki í samræmi við venjulegan íslenskan framburð nafnsins Alexandra eða íslenska hefð í ritun þess og telst því ekki vera í samræmi við almennar ritreglur, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1996.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Alexsandra (kvk.) er hafnað. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn