Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 5/2010. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. mars 2010

í máli nr. 5/2010:

Logaland ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 23. febrúar 2010, kærir Logaland ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 14818 – „Automated and manual micro column technique system, service contract and supplies for blood grouping, phenotyping, screening and identification of blood group antibodies.“ Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

1.  Að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað innkaupaferli á grundvelli ofangreinds útboðs þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru þessari.

2.  Að kærunefndin leggi fyrir kaupanda að auglýsa útboðið á nýjan leik. Sé ekki fallist á kröfuna er þess krafist til vara að nefndin leggi fyrir kaupanda að fella niður nánar tilgreinda skilmála útboðslýsingar.

3.  Að nefndin ákveði að kaupandi og/eða kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærandi sendi síðan greinargerð með bréfi, dags. 3. mars 2010. Kærða var kynnt kæran og greinargerð kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis. Með bréfi, dags. 22. mars 2010, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað og að kæranda yrði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva innkaupaferli á grundvelli útboðs kærða nr. 14818. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

 

I.

Útboð kærða nr. 14818 var auglýst á heimasíðu hans 27. janúar 2010 eða tæpu ári eftir að kærði hafnaði öllum tilboðum í útboð nr. 14451 – „Blóðflokkunarvélar fyrir Blóðbanka Landspítala háskólasjúkrahús“, felldi útboðið niður og tilkynnt að nýtt útboðsferli yrði hafið.

            Útboðið nú felur í öllum meginatriðum í sér sömu innkaup og ætlunin var að færu fram á grundvelli fyrra útboðsins. Sú grundvallarbreyting hefur hins vegar verið gerð samkvæmt gr. 1.2.8 í útboðsskilmálum að tilboð sem berast verða eingöngu metin á grundvelli verðs en fyrra útboðið gerði ráð fyrir að fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið yrði valið.

            Opnunartími tilboða átti að vera 4. mars 2010, en hefur verið frestað til 31. sama mánaðar. Tilboðum er ætlað að gilda í sex mánuði frá opnun þeirra.

 

II.

Kærandi telur að kærði hafi nýtt upplýsingar úr tilboðum sem bárust í fyrra útboðinu til að breyta útboðsskilmálum þannig að einungis skuli litið til verðs í því útboði sem nú hefur verið kært, en slíkt sé óheimilt samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga nr. 84/2007. Af þessu leiði að skilyrði 1. mgr. 96. gr. sömu laga séu uppfyllt og kærunefnd útboðsmála því heimilt að stöðva innkaupaferlið þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

            Þá telur kærandi að forsendur í útboðslýsingu séu engan veginn nægilega skýrar og fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 45. gr. laga nr. 84/2007, þar sem tilboð, sem kærði metur gild, verða eingöngu valin á grundvelli verðs, sbr. gr. 1.2.8 í útboðsskilmálum.

            Loks er það mat kæranda að ýmis ákvæði útboðslýsingar brjóti í bága við 14. gr. laga nr. 84/2007 um gagnsæi og jafnræði bjóðenda.

 

III.

Kærði telur að að sú ákvörðun kaupanda að taka nú mið af fyrri úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli nr. 25/2008 raski ekki jafnræði bjóðenda enda séu matsforsendur í þessu útboði eins skýrar og hnitmiðaðar eins og frekast getur orðið, enda kaupanda fyllilega heimilt að ákveða hvað verði lagt til grundvallar mati á tilboðum svo fremi hann tilgreini með eins nákvæmum hætti og unnt sé hvaða forsendur það séu og hvaða upplýsinga sé krafist, sbr. 38. og 45. gr. laga nr. 84/2007.

            Þá leggur kærði áherslu á að í útboðsgögnum sé afar skýrt kveðið á um á hvaða forsendum tilboð verði valin, einvörðungu verði valið á grundvelli verðs milli þeirra bjóðenda sem uppfylla svokallaðar „skal“ kröfur.

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. er kominn á verður hann þó ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.

Miðað við fyrirliggjandi gögn og rökstuðning telur kærunefnd útboðsmála ekki vera efni til að fallast á kröfu kæranda um að stöðva innkaupaferli um stundasakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, enda þurfa veruleg líkindi að vera fyrir hendi sem bendi til þess að um brot á lögunum sé að ræða. Verður því kröfu kæranda um stöðvun hafnað.

Kærunefnd útboðsmála telur, eins og mál þetta liggur fyrir, að ekki sé að svo búnu máli tilefni til að mæla fyrir um breytingu á útboðsgögnum áður en opnun tilboða fer fram. Kærandi hefur óskað eftir að leggja fram frekari rökstuðning fyrir viðbótarkröfum sínum og munu þær verða kynntar kærða og honum gefinn kostur á að svara þeim. Kærunefnd mun í framhaldinu taka málið til endanlegs úrskurðar.

 

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Logalands ehf., um að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað innkaupaferli á grundvelli útboðs kærða, Ríkiskaupa, nr. 14818 –  „Automated and manual micro column technique system, service contract and supplies for blood grouping, phenotyping, screening and identification of blood group antibodies.“ þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru þessari.

 

Reykjavík, 24. mars 2010.

 

 

Páll Sigurðsson

         Auður Finnbogadóttir

 Stanley Pálsson

 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 24. mars 2010.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum