Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2010 Forsætisráðuneytið

Helstu niðurstöður nefndar um fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins

Nefnd um fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins kynnti skýrslu sína 8. apríl 2010. Samandregnar niðurstöður nefndarinnar eru eftirfarandi:

 • Verkefni nefndarinnar nær til vatnsréttinda í eigu ríkisins sjálfs og lögaðila sem alfarið eru í ríkiseigu, en þó til slíkra réttinda í víðtækasta skilningi, þ.m.t. til jarðhita, grunnvatns og yfirborðsvatns, jafnt rennandi sem kyrrstæðs.
 • Vægi orkunýtingar vatnsréttinda er í forgrunni þeirrar löggjafar sem til grundvallar tillögugerðinni liggur þó svo að tillögurnar taki til allra mögulegra vatnsnota, þ.m.t. vatnsöflunar til manneldis, landbúnaðar, iðnaðar o.s.frv.
 • Nefndin byggir á og er sammála um nokkrar grundvallarforsendur:
 1. Að þeim réttindum sem um ræðir verður ekki ráðstafað nema með tímabundnum hætti.
 2. Að ríkið eigi undantekningarlaust að taka gjald fyrir rétt til nýtingar þessara auðlinda.
 3. Að liðka eigi eftir föngum fyrir því að hin tímabundna ráðstöfun til tiltekins aðila verði framlengd hafi viðkomandi staðið við þau skilyrði sem sett voru og nýtt auðlindina með ábyrgum hætti.
 4. Að það sé grundvallaratriði að þegar ríkið býður tímabundinn afnotarétt af tilteknum auðlindakosti sé það gert með gegnsæjum hætti og með jafnræðissjónarmið að leiðarljósi.
 5. Að reynt sé eftir föngum að binda með formlegri hætti en gert hefur verið réttarstöðuna vegna afnota þeirra auðlindakosta ríkisins sem þegar eru nýttir af hálfu opinberra aðila og fá þá jafnframt gjald fyrir nýtingu þeirra.
 • Að í stað þess að smíða frá grunni nýtt lagakerfi utan um tillögur nefndarinnar telur nefndin að best færi á því að miðla tillögum hennar í gegnum það kerfi sem nú þegar er unnið eftir á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998.
 • Nefndin telur að ráðstafa eigi nýjum orkukostum með leyfi sem úthlutað er á grundvelli tveggja þrepa útboðs, þar sem að á síðara þrepinu verði valið á milli umsækjenda með uppboði séu þeir tveir eða fleiri.
 • Nefndin telur að almennt sé rétt að miða við styttri leyfistíma en hinu lögbundna hámarki nemur og að hann verði að jafnaði á bilinu 40-50 ár, óháð þeirri nýtingu sem um ræðir.
 • Þá er lagt til að sé ætlunin á annað borð sú að nýta tiltekinn auðlindakost áfram með sambærilegum hætti og skv. upphaflegu leyfi verði það meginregla að leyfi verði á ný veitt þeim aðila sem þegar fer með réttindin.
 • Heimild leyfishafa til þess að óska viðræðna um mögulega framlengingu leyfis hefjist að hálfnuðum leyfistíma en sé undir öllum kringumstæðum lokið þegar tvö ár eru eftir af leyfistímanum.
 • Hvað varðar mannvirki og framkvæmdir leyfishafa þegar nýtingu af hans hálfu lýkur vegast þar á tvenn sjónarmið, þ.e. að endurgjaldslaus yfirtaka ríkisins (hjemfall) leiði til hins margnefnda „leigjendavanda“ en að á hinn bóginn hefur við gjaldtöku verið tekið fullt tillit til fjárfestingar afnotahafans í mannvirkjum og framkvæmdum. Því er lagt til að lagt verði á sérstakt tryggingagjald, nokkurs konar skilagjald, sem næmi um 10% af árlegu leigugjaldi. Þetta gjald verði greitt afnotahafa við lok leyfistíma að frádregnum kostnaði vegna vanrækslu viðhalds á mannvirkjum og/eða tjóns á auðlindinni vegna ástæðna sem hann varða.
 • Nefndin telur að gjaldtaka gæti komið til með eftirfarandi hætti:
 1. Ákveðið grunngjald sem ríkið ákveður í tengslum við útboð sem ávallt yrði að greiða og svarar að lágmarki til þess umhverfiskostnaðar sem talið er að fórnað sé með nýtingunni og auk þess eftir atvikum rannsóknar- og öðrum undirbúningskostnaði.
 2. Viðbótarendurgjald sækist fleiri en einn aðili eftir viðkomandi kosti og til uppboðs kemur.
 3. Hluta af auðlindarentunni þegar verkefnið er farið að skila slíkum umframarði.
 • Nefndin leggur til að grunngjald og eftir atvikum uppboðsgjald verði umreiknað í ótímabundið leigugjald. Rentugjald kemur síðan til viðbótar leigugjaldi eftir að rekstrarhagnaður hefur greitt allan fjárfestingarkostnað. Nefndin telur að grunngjaldið eigi ekki að koma til frádráttar við útreikning rentugjalds. Hins vegar telur nefndin að uppboðsgjaldið geti komið til frádráttar rentugjaldi komi til greiðslu þess.
 • Afar mikilvægt er að mati nefndarinnar að vinna sú sem nú fer fram á öðrum vettvangi við skilgreiningar á sjálfbærri nýtingu beri árangur og ljúki hið fyrsta. Til þess að unnt sé að krefjast þess af afnotahafa að nýting hans á auðlind sé sjálfbær er nauðsynlegt að sjálfbærni sé með einhverjum hætti mælanleg og ákvæði um slík viðmið lögfest. Viðmið eða skilyrði af þessum toga verða þá til framtíðar litið hluti af útboðsskilmálum sem og skilyrðum þess leyfis sem veitt verður.
 • Nefndin leggur til að vatnsréttindi ríkisins verði vistuð á einni hendi, t.d. hjá einhverju tilteknu ráðuneyti, þó hugsa megi sér sérstaka stofnun. Öll vatnsréttindi heyri þá undir einn og sama aðila hvort sem þau er að finna á ríkisjörðum, í þjóðlendum eða ein og sér. Á þessum vettvangi verði efnislegar ákvarðanir um ráðstöfun tiltekins auðlindakosts teknar, ákvörðun grunngjalds og eftir atvikum aðrir efnislegir þættir þótt ýmsar leyfisveitingar verði eftir sem áður hjá viðkomandi leyfisveitanda.
 • Hvað þau tilvik varðar þegar orkufyrirtæki ríkisins nýta vatnsréttindi á grundvelli sérstakra heimilda án þess að varanlegar heimildir að eignarrétti hafi verið yfirfærðar frá ríkinu til þeirra er lagt til að gengið verði frá formlegum leyfum, innan ákveðinna tímamarka.
 • Í þeim tilvikum kemur til gjaldtöku að því leyti sem reglur um auðlindarentu virkja greiðsluskyldu en eðli málsins samkvæmt kemur ekki til greiðslu sérstaks grunngjalds eða uppboðsgjalds. Að öðru leyti eiga við öll þau sömu sjónarmið og gilda um ónýtta kosti. ? Í þeim tilvikum þar sem að vatns- og landsréttindi eru að fullu og öllu á hendi viðkomandi orkufyrirtækis ríkisins er lagt til að þeim ásamt tilheyrandi fasteignaréttindum, verði ráðstafað inn í sérstakt dótturfélag viðkomandi orkufyrirtækis innan ákveðinna tímamarka.
 • Loks er lagt til í þeim tilvikum þar sem ríkið hefur, yfirleitt með samningum, ráðstafað auðlindum af þessum vettvangi til annarra og óskyldra aðila, svo sem sveitarfélaga, annarra félaga, sem ekki eru þá alfarið í ríkiseigu, eða einstaklinga að slíkir samningar vari út líftíma sinn í samræmi við efni sitt en eftir atvikum verði þeim samningum sem uppsegjanlegir eru sagt upp og auðlindinni síðan ráðstafað í samræmi við „líkan“ nefndarinnar. Eftir atvikum mætti bjóða einstökum afnotahöfum að fá útgefið leyfi í samræmi við hið nýja kerfi.

Sjá nánar:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira