Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2010 Innviðaráðuneytið

Víðtæk vöktun og viðbrögð vegna flugumferðar

Að gefnu tilefni telur samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið rétt að gera stutta grein fyrir skipulagi og viðbrögð við stjórnun flugumferðar við aðstæður eins og þær sem skapast hafa við eldgosið úr Eyjafjallajökli.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um hættu sem flugvélum getur stafað af ösku frá eldgosum. Þessi hætta hefur verið þekkt hér við land um áratugi. Við stjórnun flugumferðar á íslenska flugstjórnarsvæðinu hefur flugumferð því verði haldið fjarri virkum eldstöðvum og svæðum þar sem ösku hefur verið að finna í andrúmslofti.

Frumkvæði Íslendinga

Flugmálastjórn Íslands og dótturfélagið Flugkerfi hafa lengi unnið að rannsóknum á dreifingu eldfjallaösku og unnið spálíkön. Hófust þær rannsóknir skömmu fyrir aldamótin og má segja að reynt hafi fyrst á líkanið í Heklugosinu árið 2000. Í kjölfar rannsókna voru að frumkvæði Íslendinga,  í samstarfi við bresk flugmálayfirvöld, unnar víðtækar viðbragðsáætlanir vegna flugumferðar yfir Norður-Atlantshafið vegna hættu af virkum eldgosum á Norður Atlantshafi.

Þessi viðbrögð voru síðan felld inn í skipulag Alþjóða flugmálastjórnarinnar (ICAO) í gegnum starfsemi Skipulagsnefndar flugs um Norður Atlantshaf (North Atlantic System Planning Group NATS-SPG) en aðild að NAT-SPG eiga öll lönd sem liggja að Norður-Atlantshafi. Þetta skipulag hefur síðan verðið notað sem fyrirmynd að svipuðu skipulagi á meginlandi Evrópu og koma því verki flugstjórnarmiðstöðvar á viðkomandi svæðum og Alþjóða flugmálastofnunin. Þessi viðbrögð eru æfð að minnsta kosti tvisvar á ári og hér á landi eru þau þannig hluti af reglubundinni starfsemi flugleiðsöguþjónustunnar.  

Þá hefur í verið komið á fót sérstakri eldfjallaöskuvakt til að fylgjast með hreyfingu á eldfjallaösku í háloftunum enda eru alltaf einhversstaðar í heiminum eldfjöll að gjósa. Alls eru 9 vöktunar- og viðbragðsstöðvar í heiminum. Stöðvarnar á hverju svæði gefa út upplýsingar eða spá um framvindu á dreifingu ösku á sex tíma fresti og á grundvelli þeirra spáa eru teknar ákvarðanir um hvaða svæðum skuli lokað. Ein eldfjallaöskustöð er starfrækt í London og sér hún um miðlun upplýsinga um hugsanlega dreifingu ösku á Norður-Atlantshafi og Norður-Evrópu.

Víðtækt viðbragðskerfi vegna áhrifa eldfjallaösku á flugumferð fer af stað við eldgos eins og það sem nú stendur yfir í Eyjafjallajökli. Spáð er fyrir um dreifingu öskunnar á 6 tíma fresti sem miðar að því að halda flugumferð frá svæðum þar sem hætta er á að ösku sé að finna. Þeirri spá er dreift til flugumferðaþjónustudeilda og flugrekenda. Á grundvelli upplýsinga frá eldfjallaöskustöðinni eru teknar ákvarðanir um lokun einstakra svæða á Norður-Atlantshafi og Norður-Evrópu eða hluta þeirra. Á grundvelli þessara spáa eru nú stór svæði á Norðurlöndunum og norðurhluta Evrópu nú lokuð fyrir flugumferð.

Flugstoðir hafa umsjón með viðbragðskerfinu á íslenska flugumsjónarsvæðinu og eru í nánu samstarfi við Veðurstofu Íslands og Eldfjallaöskuvaktina í London. Flugstjórnarmiðstöðvar hvers lands geta leyft flug um sín svæði jafnvel þótt eldfjallavaktin hafi takmarkað umferð en ekki hefur reynt á slíkt.

Viðbrögðum skipt í þrjú stig

Viðbrögðum við eldfjallaösku er skipt í nokkur stig. Fyrst er viðbúnaðarstig sem yfirleitt er virkjað þegar fyrstu fréttir berast af eldgosi og áður en vitað er nánar um hvort eða hver áhrif þess verða. Þannig var til dæmis við fyrstu fregnir af gosinu á Fimmvörðuhálsi bannað að fljúga í 120 mílna radíus um svæðið en um leið og ljóst var að ekki var um öskugos að ræða var unnt að falla frá því.

Næst koma tvenns konar viðbragðsstig sem gripið er til þegar aska tekur að berast frá eldgosi. Það getur þýtt lokun ákveðinna svæða og fylgst er með vindáttum á sex tíma fresti og upplýsingar gefnar út til allra flugstjórnarsvæða um lokanir og framvindu mála. Hálftíma eftir hverja spá geta síðan flugrekendur og þeir sem sjá um þjónustuna á flugstjórnarsvæðum rætt á símafundi við fulltrúa eldfjallavaktarinnar.

Með þessum viðbrögðum er leitast við að tryggja til hins ýtrasta að flugvélar fljúgi ekki um svæði þar sem gosaska hefur dreifst og haft getur þau áhrif að þotuhreyflar hreinlega stöðvast. Þessi áhrif hafa berlega komið í ljós í allmörgum atvikum allt frá níunda áratug síðustu aldar þegar flugvélar hafa flogið gegnum gosöskuský og verið í sumum tilvikum hætt komnar.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum