Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

GRECO, ríkjahópur Evrópuráðsins gegn spillingu, fjallar um eftirfylgni tilmæla til Íslands í nýútkominni skýrslu

GRECO, ríkjahópur Evrópuráðsins gegn spillingu, hefur birt skýrslu um það hvernig tilmælum hópsins, sem fram komu í 3. úttekt hans um Ísland, hafi verið framfylgt af hálfu íslenskra stjórnvalda.

GRECO, ríkjahópur Evrópuráðsins gegn spillingu, hefur birt skýrslu um það hvernig tilmælum hópsins, sem fram komu í 3. úttekt hans um Ísland, hafi verið framfylgt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Tilmælin, sem sett voru fram árið 2008, varða annars vegar innleiðingu á mútuákvæðum Evrópuráðssamnings gegn spillingu á sviði refsiréttar og hins vegar gagnsæi fjármögnunar stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Niðurstaða ríkjahópsins er sú að Ísland hafi ekki uppfyllt nema ein tilmæli hópsins af fimmtán að fullu og sé það almennt óviðunandi.

Af framangreindum tilmælum GRECO teljast ein tilmæli að auki uppfyllt að hluta til en þrettán töldust ekki hafa verið uppfyllt. Íslensk stjórnvöld hafa með hliðsjón af þessari niðurstöðu m.a. falið refsiréttarnefnd að vinna frumvarp sem miði að því að uppfylla þau tilmæli sem fram koma og varða ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Hefur nefndinni verið falið að tryggja að ákvæði um mútubrot í almennum hegningarlögum nái einnig til alþingismanna, meðlima erlendra fulltrúaþinga sem hafa stjórnsýslu með höndum og erlendra gerðardómsmanna og kviðdómenda. Þá var nefndinni falið að taka til sérstakrar skoðunar þann refsiramma sem mælt er fyrir um í 264. gr. a laganna og varðar mútur í almennri atvinnustarfsemi.  

Jafnframt hefur verið sent erindi til embættis ríkislögreglustjóra og þess óskað að embættið sjái um, í samvinnu við Lögregluskóla ríkisins, að skipuleggja námskeið um meðferð spillingarbrota, með stuðningi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Þá er miðað við að þegar endanlega verður gengið frá siðareglum fyrir ráðherra og stjórnsýslu ríkisins, sbr. fyrirliggjandi frumvarp forsætisráðherra þar sem lagður er lagalegur grundvöllur að slíkum reglum, verði tilmæli GRECO höfð í huga varðandi reglur um viðeigandi og óviðeigandi gjafir til opinberra aðila.

Auk þess hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, en frumvarpið er flutt sameiginlega af forystumönnum þeirra stjórnmálasamtaka sem fulltrúa eiga á Alþingi, að Hreyfingunni frátalinni. Er frumvarpið afrakstur endurskoðunar af hálfu nefndar sem forsætisráðherra, skipaði í maí 2009 þar sem sæti áttu fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, auk fulltrúa Frjálslynda flokksins. Við endurskoðun laganna var höfð hliðsjón af og brugðist við þeim tilmælum GRECO sem lúta að gagnsæi fjárframlaga til stjórnmálasamtaka hér á landi.

Hefur íslenskum stjórnvöldum verið boðið að veita frekari upplýsingar um eftirfylgni tilmælanna fyrir 30. september 2010.

Skýrsla um eftirfylgni tilmæla til Íslands á vef GRECO (pdf-skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira