Hoppa yfir valmynd
7. maí 2010 Innviðaráðuneytið

Aldarafmæli varnargarða við Markarfljót

Hundrað ár voru í gær liðin frá því fyrstu varnargarðarnir við Markarfljót voru reistir. Var þess minnst með opnun sýningar í Heimalandi og afmælishátíð. Aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra afhjúpaði einnig upplýsingaskilti um garðana við þjóðveginn í Þórsmörk.

Minnst er um þessar mundir aldarafmælis varnargarða við Markarfljót.
Minnst er um þessar mundir aldarafmælis varnargarða við Markarfljót.

Búnaðarsamband Suðurlands, Landgræðslan, Rangárþing eystra, ungmennafélögin Trausti og Þórsmörk og Vegagerðin stóðu fyrir afmælisathöfn og uppsetningu mynda- og spjaldasýningar auk upplýsingaskiltis við vegamót Hringvegar og Þórsmerkurvegar. Þar koma fram fjölmargar upplýsingar um byggingu varnargarðanna sem hófust árið 1910 og forgöngumenn verksins. Einnig eru þar margar gamlar og nýjar myndir sem sýna glöggt umfang verksins en alls eru garðarnir um 40.

Ingvar Sverrisson, aðstoðarmaður Kristjáns L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, afhjúpaði upplýsingaskiltið og flutti viðstöddum kveðju ráðherra. Í afmælishófi í Heimalandi sagði aðstoðarmaðurinn meðal annars í ávarpi að bygging varnargarðanna hefði verið þrekvirki á sínum tíma og bæri vott um mikla framsýni bænda og annarra forgöngumanna um verkið. Hann sagði brýnt að halda áfram að verja verðmætt landið og styrkja garðana. Væri í því skyni unnið samkvæmt áætlun sem Landgræðslan, Vegagerðin og sveitarstjórnir á svæðinu hefðu unnið.

Í afmælishófinu fluttu einnig ávörp vegamálastjóri, fulltrúar ungmennahreyfingarinnar, sveitarstjóri Rangárþings eystra og fleiri og Karlakór Rangæinga skemmti viðstöddum með söng sínum.

Séra Sváfnir Sveinbjarnarson var meðal þeirra sem fluttu ávarp í afmælishófinu og sést hann hér virða fyrir sér skiltið ásamt Ingvari Sverrissyni og fleiri gestum.

Minnst er um þessar mundir aldarafmælis varnargarða við Markarfljót.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum