Hoppa yfir valmynd
4. júní 2010 Innviðaráðuneytið

Morgunverðarfundur um strandsiglingar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gengst næstkomandi miðvikudag fyrir morgunverðarfundi þar sem kynntar verða niðurstöður um mat á hagkvæmni strandsiglinga. Fundurinn verður á Grand hóteli í Reykjavík og stendur milli kl. 8.15 og 10.45.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, setur fundinn með ávarpi og í framhaldinu mun Thomas Möller, formaður starfshóps sem lagði mat á hagkvæmni strandflutninga, skýra frá helstu niðurstöðum starfshópsins. Þá munu fulltrúar ýmissa fyrirtækja og hagsmunaaðila viðra sjónarmið sín, meðal annars frá skipafélögunum, frá fyrirtækjum sem kaupa flutningaþjónustu og fleiri aðilum. Einnig er gert ráð fyrir tíma til  umræðna og fyrirspurna og í lokin verða helstu atriði dregin saman. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, verður fundarstjóri.

Fundurinn er haldinn til að kynna efni skýrslunnar og fá umræður og ábendingar frá hagsmunaaðilum og er opinn öllum. Skráning óskast tilkynnt á netfangið [email protected], eigi síðar en um hádegi þriðjudaginn 8. júní og er óskað eftir að menn skrái nafn og vinnustað.

Í skýrslunni, sem ráðherra kynnti fjölmiðlum í dag, er stutt samantekt úr nokkrum fyrri skýrslum um innanlandsflutninga og settar eru fram áætlanir um flutningsmagn og mögulega viðskiptavini. Þá er sett upp kostnaðaráætlun, fjallað um umhverfisáhrif, skipategundir og stillt upp þremur valkostum um siglingaáætlun:

  • Kostur 1 gerir ráð fyrir siglingu kringum landið sem tæki fimm daga.
  • Kostur 2 snýst um siglingu milli Reykjavíkur og Akureyrar viðkomu á Ísafirði. Hugsanlega væri einnig komið við á Sauðárkróki og Patreksfirði og tæki þessi hringur einnig vinnuviku miðað við að skipið hefði helgarbið á Akureyri sem væri heimahöfn þess.
  • Kostur 3 gerir ráð fyrir áætlun milli Reykjavíkur og Ísafjarðar sem unnt væri að sigla tvisvar í viku.

Af þessum kostum telur starfshópurinn kost 2 álitlegastan miðað við flutninga og þjónustu en gert er ráð fyrir að notað verði skip sem tekur 180 til 230 tuttugu feta gámaeiningar. Heildarkostnaður skips og reksturs sem tengist því er ráðgerður 884 milljónir króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum