Hoppa yfir valmynd
9. júní 2010 Innviðaráðuneytið

Rökrætt um hagkvæmni strandsiglinga

Eru strandsiglingar hagkvæmar? var yfirskrift morgunverðarfundar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í dag þar sem kynnt var niðurstaða starfshóps um mat á hagkvæmni strandflutninga. Í framhaldi af kynningunni töluðu nokkrir fulltrúar hagsmunaaðila og komu fram mörg sjónarhorn á málið.

Frá morgunverðarfundi um strandsiglingar.
Frá morgunverðarfundi um strandsiglingar.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði niðurstöður starfshópsins ótvíræðar: Strandsiglingar væru álitlegur kostur, flutningar virðist nægjanlegir, áhugi meðal kaupenda flutningaþjónustu væri fyrir hendi og hægt væri að bjóða samkeppnishæf flutningsgjöld. Ráðherra sagðist telja að leita ætti allra leiða til að hefja á ný strandflutninga og hvatti hann forráðamenn skipafélaga til að skoða málið vel.

Thomas Möller, formaður starfshóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, kynnti síðan nánar helstu niðurstöður skýrslunnar – sjá má kynninguna hér. Fram kemur í skýrslunni að flutningsgjald 40 feta gáms með skipinu sé kringum 139 þúsund krónur en að flutningur landleiðina kosti um 240 þúsund krónur milli Reykjavíkur og Ísafjarðar og 180 milli Reykjavíkur og Akureyrar. Telja skýrsluhöfundar að vikuleg sigling milli Reykjavíkur og Akureyrar með viðkomu á Ísafirði og hugsanlega einnig á Bíldudal og Sauðárkróki sé hagkvæmasta áætlunin.

Frá morgunverðarfundi um strandsiglingar.

Í framhaldinu viðruðu fulltrúar hagsmunaaðila sjónarmið sín. Fulltrúar Eimskips og Samskips telja skýrsluna sýna of mikinn mun á flutningsgjöldum sjóleiðina og landleiðina, ekki sé allur kostnaður reiknaður í sjóflutningana. Þá komu einnig fram sjónarmið frá fyrirtækjum sem kaupa flutningaþjónustu, svo sem Samherji og Vífilfell, og frá fulltrúum Hafnasambandsins og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Frá morgunverðarfundi um strandsiglingar.

Í lok fundar sagði ráðherra næstu skref verða mörg og sagði hann að skýrslugerðum ætti að vera lokið og framkvæmdir að taka við. Sagði hann málið áfram til umfjöllunar hjá ráðuneytinu og að Thomas Möller yrði fenginn til aðstoðar. Þá bauð ráðherra fulltrúum þeirra hafna sem staddir voru á fundinum að koma til viðræðna við sig í ráðuneytinu. Á fundi þar var farið yfir ýmis atriði um strandflutninga og mögulegan þátt hafnanna til að laða að slíka þjónustu. Er ráðgert að ræða málið á stjórnarfundi Hafnasambandsins á næstunni.

 Ráðherra ræðir við fulltrúa nokkurra hafna um strandsiglingar.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ásamt aðstoðarmanni og ráðuneytisstjóra ræðir við fulltrúa nokkurra hafna landsins um strandsiglingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum