Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Niðurstöður dómnefndar um hönnun hjúkrunarheimilis í Fjarðabyggð

Einrúm Arkitektar - yfirlitsmynd verðlaunatillögu
Yfirlitsmynd---1.-verdlaun

Úrslit hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð voru kynnt á Eskifirði í dag þar sem heimilið mun rísa. Alls bárust 36 tillögur í samkeppnina sem var opin öllum sem uppfylltu skilyrði samkeppnislýsingar. Við val sitt lagði dómnefndin áherslu á lausnir með góðu innra skipulagi, heimilislegu yfirbragði og að heildarásýnd byggingar og lóðar tæki mið af sérstöðu svæðisins. Þrjár tillögur hlutu verðlaun og níu tillögur að auki fengu viðurkenningu þar sem dómnefnd taldi að þar kæmu fram ýmsar áhugaverðar lausnir og atriði sem hún vildi vekja á sérstaka athygli. 

„Kröftug, listræn og spennandi hönnun “

Arkitektastofan Einrúm arkitektar hlaut fyrstu verðlaun keppninnar, 3,5 milljónir króna, fyrir tillögu sína sem dómnefnd sagði í niðurstöðu sinni að væri hnitmiðuð og í senn „kröftug, listræn og spennandi og með skemmtilega heimilislega vísun í eskfirsk sérkenni“. Önnur verðlaun, 2,5 milljónir króna, hlaut Studio Strik arkitektar og þriðju verðlaun, 1 milljón króna, fengu Arkitektar Hjördís & Dennis ehf.

„Þetta er fyrsta heimilið sem hannað er frá grunni samkvæmt nýjum viðmiðum félags- og tryggingamálaráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila og markar því tímamót í byggingasögu stofnana fyrir aldraða hér á landi,“ sagði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, þegar hann ávarpaði vinningshafa samkeppninnar og aðra gesti við verðlaunaafhendinguna í dag. „Á þeim grunni sem hér hefur verið lagður munum við byggja heimili framtíðarinnar með mannréttindi og virðingu að leiðarljósi.“

Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Fjarðabyggð efndu til samkeppninnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands en umsjón með keppninni var í höndum Framkvæmdasýslu ríkisins. Formaður dómnefndar var Ásmundur Ásmundsson verkfræðingur. Aðrir nefndarmenn voru Vilborg Ingólfsdóttir, Jóhann E. Benediktsson, Einar Ólafsson og Þorsteinn Helgason. Ritari dómnefndar og verkefnisstjóri var Bergljót S. Einarsdóttir.

Nýja hjúkrunarheimilið er ætlað 20 íbúum og mun leysa af hólmi núverandi dvalar- og hjúkrunarheimili á Eskifirði. Húsið skiptist í þrjár einingar, hver um sig skipulögð sem heimili þeirra sem þar búa og ein sérstaklega ætluð fólki með heilabilun. Áætlað er að bygging hússins verði boðin út fyrri hluta næsta árs og að það verði tekið í notkun vorið 2013. 

Dómnefndarálit, júní 2010

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum