Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 7/2010. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 22. júní 2010

í máli nr. 7/2010:

Iceland Express

gegn

fjármálaráðuneytinu

Með bréfi, dags. 15. apríl 2010, kærir Iceland Express fjármálaráðuneytið fyrir að sniðganga skyldu til að bjóða út farmiðakaup í samræmi við ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

1. Að kærunefnd útboðsmála beini því til kærða að bjóða út umrædd innkaup heildstætt í gegnum miðlægt innkaupakerfi og mæta þar með útboðsskyldu allra þeirra opinberu aðila sem eru aðilar að slíku miðlægu innkaupakerfi, sbr. XIII. kafla laga nr. 84/2007.

2. Til vara er þess krafist að kærunefnd útboðsmála beini því til kærða að bjóða út umrædd innkaup kærða.

3. Í öllum tilfellum krefst kærandi þess að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

4. Ennfremur krefst kærandi þess að nefndin ákveði að kærði greiði kæranda kostnað hans við að hafa kæruna uppi, alls 480.000 krónur.

Kærði, fjármálaráðuneytið, skilaði athugasemdum vegna kröfu kæranda, dags. 17. maí 2010, þar sem hann krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða eru dagsettar 28. maí 2010.

I.

Eftir útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar um opinber innkaup frá febrúar 2010 hefur Félag atvinnurekenda skoðað stöðu útboðsmála á ákveðnum mörkuðum. Meðal þeirra eru millilandaflug til og frá Íslandi. Við þá eftirgrennslan kom í ljós að farmiðakaup hafi ekki verið boðin út þrátt fyrir að þau séu nokkuð umfangsmikil. Þess í stað hafi kærði gert samning fyrir hönd hins opinbera við flugfélagið Icelandair ehf. án þess að útboð færi fram. Í svari skrifstofustjóra kærða frá 9. mars 2010 kom jafnframt fram að enginn samningur væri við kæranda.

       Í framhaldi var forsvarsmönnum kæranda kynnt þessi niðurstaða. Eftir athugun þeirra á staðreyndum málsins taldi kærandi ljóst að lögboðin útboðsskylda hefði verið sniðgengin til tjóns fyrir félagið og var því ákveðið að leggja fram kæru þessa.

       Í svari kærða kemur fram að í dag sé í gildi milli kærða og Icelandair ehf. samningur um afslátt frá flugfargjöldum og önnur sérkjör frá 29. maí 2009. Í viðauka 1 með samningnum komi fram tilgreining á ýmsum ráðuneytum og opinberum aðilum, ásamt ferðakóða sem hver og einn þessara aðila skuli nota við bókun flugmiða. Ekki sé litið svo á að um rammasamning sé að ræða í skilningi laga nr. nr. 84/2007 eða einkakaupasamning, heldur sé einungis um afsláttarsamning að ræða. Þá hafi utanríkisráðuneytið gert samning við kæranda um stórnotendaverð við innkaup á flugmiðum 30. desember 2009. Sá samningur sé heldur ekki rammasamningur eða einkakaupasamningur heldur afsláttarsamningur. Séu engar hömlur á vali opinberra aðila af hverjum þeir kaupi flugmiða, en hins vegar njóti opinberir aðilar eftir atvikum afslátta í samræmi við framangreinda samninga.

           

II.

Kærandi bendir á að kærði sé opinber aðili í skilningi 3. gr. laga nr. 84/2007. Þá séu umrædd innkaup umfram þau viðmið sem sett séu í reglugerð nr. 229/2010 um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa. Innkaupin séu því útboðsskyld og skuli því haga þeim í samræmi við ákvæði laga nr. 84/2007.

       Kærandi telur að kærði hafi sniðgengið þessa útboðsskyldu. Innkaup á umræddri þjónustu hafi ekki farið fram í samræmi við ákvæði laga nr. 84/2007 og þar með hafi verið brotið gegn þeim. Kærandi bendir á að Evrópudómstóllinn hafi margsinnnis tekið afstöðu til sambærilegra mála og komist að þeirri niðurstöðu að slík sniðganga á útboðsskyldu sé ólögmæt. Þá telur hann að samningar sem gerðir hafa verið við einstaka aðila án útboðs geti ekki leyst kærða undan útboðsskyldu, auk þess sem slíkir samningar geti ekki talist bindandi samningar í skilningi 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007.

       Kærandi telur að hann eigi mjög raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda ef útboð á umræddum innkaupum færi fram með lögmætum hætti. Um kærurétt vísar kærandi til XIV. kafla laga nr. 84/2007, þar sem gert sé ráð fyrir að fyrirtæki, sem ekki hafi verið aðili að formlegu innkaupaferli, geti átt aðild að málum fyrir kærunefnd útboðsmála, til dæmis við þær aðstæður að skylda til útboðs hafi alfarið verið sniðgengin.

       Kærandi leggur áherslu á að opinberir aðilar eyði á ári hverju tugum milljóna króna í flugþjónustu milli landa. Því til stuðnings bendir hann á frétt sem byggð sé á upplýsingum frá fjárlagaskrifstofu, þar sem fram komi að kostnaður af ferðum ráðherra og starfsmanna ráðuneyta fyrstu fjóra mánuði ársins 2008 hafi verið 460 milljónir króna. Árið 2010 hafi kostnaðurinn á sama tíma verið 284 milljónir króna. Telur kærandi að gera megi ráð fyrir að töluverður hluti þessa kostnaðar sé vegna flugmiðakaupa. Kærandi hafi ekki nákvæmar tölur yfir þá veltu sem um sé að ræða en ljóst sé að bæði almennt og hvað varði kærða sérstaklega sé sú upphæð umfram það lágmark sem kveðið sé á um í reglugerð nr. 229/2010. Kærandi telur að þar skipti engu hvort beitt sé útreikningsaðferð a. eða b. liðar 1. mgr. 28. gr. laga nr. 84/2007, það er hvort miðað sé við veltu umræddra viðskipta á síðstliðnum 12 mánuðum eða áætlaða veltu næstu 12 mánaða.

       Kærandi óskar eftir því, verði talin frekari þörf á að staðfesta umfang þeirra innkaupa sem um ræði, að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærða að leggja fram slík gögn á grundvelli 5. mgr. 95. gr. laga nr. 84/2007. Í því samhendi bendir kærandi á að um meðferð mála hjá nefndinni gildi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

       Kærandi vísar til 1. mgr. 97. gr. og 84. gr. laga nr. 84/2007 til stuðnings aðalkröfu og varakröfu sinni um að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærða að bjóða út umrædd innkaup. Kröfu sína um álit nefndarinnar á skaðabótaskyldu kærða byggir kærandi á 2. mgr. 97. gr. sömu laga. Telur hann að í ljósi þess að hann sé annar tveggja leiðandi aðila á umræddum markaði sé ljóst að hann ætti mjög raunhæfa möguleika á að verða hlutskarpastur ef umrædd innkaup færu fram með lögmætum hætti, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007. Leggur kærandi því áherslu á að á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar hafi stofnast skaðabótaskylda hjá kærða gagnvart kæranda og sé því gerð krafa um staðfestingu kærunefndar þess efnis. Loks styður kærandi kröfu sína um greiðslu málskostnaðar við 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

       Í síðari athugasemdum sínum ítrekar kærandi að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 84/2007 með því að ganga til samninga við eitt tiltekið fyrirtæki án undangengins útboðs. Með þeirri háttsemi hafi sjónarmið um jafnræði og gagnsæi verið fyrir borð borin. Þá hafi umrædd háttsemi leitt til verulegs tjóns fyrir kæranda. Þar með séu uppfyllt öll skilyrði fyrir því að ganga að kröfum hans.

       Kærandi bendir á að lagður hafi verið fram rammasamningur milli kærða og Icelandair ehf., sem nái til nokkurs fjölda opinberra aðila. Telur hann ljóst að samningurinn sé umfangsmikill og umræddar fjárhæðir verulegar. Hér sé því um útboðsskylda framkvæmd að ræða, sem hafi verið sniðgengin. Þá telur hann fjarstæðu að halda því fram að umræddur samningur sé ekki rammasamningur. Vísar hann í því sambandi til skilgreiningar í 16. tölulið 2. gr. laga nr. 84/2007 og þess að það sé ekki hugtaksskilyrði rammasamnings að kaupendur séu skuldbundnir til þess að skipta eingöngu við aðila rammasamnings um þau innkaup sem samningur taki til.

       Kærandi leggur áherslu á að hann eigi í harðri samkeppni við það fyrirtæki sem kærði hafi ákveðið að gera rammasamning við án undangengis útboðs. Sú samkeppni sé mjög hörð, sér í lagi sökum þess að Icelandair ehf. sé markaðsráðandi aðili. Kærandi hefði því mikinn áhuga á að taka þátt í útboði á flugmiðakaupum. Í ljósi þess að hann hafi markað sér stöðu sem lággjaldaflugfélag sé ljóst að möguleikar hans í slíku útboði hefðu verið góðir. Af þeim sökum hafi það í för með sér verulegt tjón fyrir hann að kærði skuli, með ólögmætum hætti, beina verulegum hluta af viðskiptum ríkisins til samkeppnisaðila kæranda.

       Kærandi telur mikilvægt að kærunefnd útboðsmála skoði sérstaklega lögmæti umrædds samnings og hugsanlega skaðabótaskyldu gagnvart kæranda.

       Kærandi leggur áherslu á að 7. apríl 2010 hafi Félag atvinnurekenda kynnt kæranda niðurstöðu úr könnun félagsins á framkvæmd innkaupa ríkisins á flugmiðum. Þann sama dag hafi forsvarsmönnum kæranda verið tilkynnt um hinn ólögmæta samning og þær lagareglur sem gilda um slík innkaup og skyldur hins opinbera í þeim efnum. Telur hann því tímamörk þess máls ótvíræð, það er að kærufrestur hafi farið að líða 7. apríl 2010. Kærandi hafi lagt fram kæru í máli þessu 15. apríl 2010 eða vel innan kærufrests.

       Kærandi mótmælir túlkun kærða á því að umrædd innkaup séu ekki útboðsskyld, þar sem hver og einn flugmiði sé sjálfstæður samningur og nái því ekki því lágmarki sem kveðið sé á um í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 84/2007 og reglugerð nr. 229/2010. Telur hann að með þessum rökum næðu líklega engin lausafjár- eða þjónustukaup því að verða útboðsskyld. Sú niðurstaða sé í andstöðu við allar réttarheimildir og réttarframkvæmd á umræddu sviði.

       Þá telur kærandi að ekki verði litið framhjá því að við gerð hins ólögmæta rammasamnings við Icelandair ehf. hafi kærða borið að fara eftir ákvæðum laga nr. 84/2007. Þegar kærði hafi ákveðið að gera umræddan samning hafi honum ekki verið í sjálfsvald sett hvort hann færi eftir ákvæðum laga nr. 84/2007 eða ekki.

       Kærandi telur það engum vafa undirorpið að samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 geti nefndin beint því til kærða að bjóða út þau innkaup á flugmiðum sem kærði sjálfur framkvæmir enda séu þau langt umfram það lágmark sem framkalli útboðsskyldu.

 

III.

Kærði leggur áherslu á að kæra þessi varði athafnaleysi í skilningi 94. gr. laga nr. 84/2007. Hins vegar liggi fyrir að kæranda hafi verið kunnugt um það um árabil að þessi innkaup hafi ekki verið boðin út, sbr. til dæmis bréf kæranda til kærða 23. apríl 2003. Sé kærufrestur því löngu liðinn og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum kæranda. Þá bendir kærði á að í kæru sé því haldið fram að við athugun málsins hafi komið í ljós að fjármálaráðuneytið hafi gert samning án útboðs við Icelandair ehf. og sé vísað í tölvupóst kærða frá 9. mars 2010. Telur kærði að jafnvel þótt kæruefnið hefði verið sá samningur hefði tímafrestur til að kæra þann samning verið runninn á enda þegar kæra barst 15. apríl 2010. Engu máli geti skipt hvort kærandi átti sig á meintu broti á lögum nr. 84/2007 seint og um síðir, lögin byggi á því tímamarki þegar kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, atvik eða athafnaleysi.

       Kærði upplýsir að því hafi þegar verið beint til Ríkiskaupa að taka til athugunar útboð á innkaupum á flugmiðum. Telur hann þó rétt að taka fram að í þeirri málaleitan felist ekki sú afstaða kærða að um útboðsskyld innkaup sé að ræða, þar sem lögin mæli ekki fyrir um skyldu til að gera rammasamninga heldur einungis heimild til slíks.

       Kærði bendir á að kærandi leggi til grundvallar kröfu sinni að innkaup á flugmiðum allra opinberra aðila séu á forræði kærða, þar sem ráðuneytið hafi yfirumsjón með opinberum innkaupum samkvæmt 84. gr. laga nr. 84/2007. Kærði andmælir skilningi kæranda á þessu ákvæði. Í því felist að stjórnsýsla vegna laga nr. 84/2007 heyri undir fjármálaráðherra, en ekki að fjármálaráðuneytið sjái um öll opinber innkaup. Kærði bendir ennfremur á 1. mgr. 85. gr. laganna, þar sem fram komi að Ríkiskaup annist innkaup fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki. Telur kærði því að það myndi ekki samrýmast lögum nr. 84/2007 að leggja fyrir kærða að bjóða út umrædd innkaup heildstætt í gegnum miðlægt innkaupakerfi. Telur kærði því að þegar af þessum ástæðum beri að hafna fyrstu kröfu kæranda.

       Þá telur kærði rétt að benda á að kærandi leggi til grundvallar að innkaup opinberra aðila séu yfir viðmiðunarfjárhæðum vegna opinberra innkaupa. Eins og þegar hafi verið bent á hafi kærði ekki umsjón með innkaupum opinberra aðila á flugmiðum, heldur séu þessi innkaup á hendi hvers opinbers aðila um sig. Í lögum nr. 84/2007 sé hvergi að finna ákvæði, sem styðji þá aðferðarfræði kæranda að leggja öll innkaup íslenska ríkisins á flugmiðum saman, óháð því hvaða opinberi aðili kaupi í raun flugmiðana. Þvert á móti komi skýrlega fram í lögum nr. 84/2007 að þau taki til innkaupa einstakra kaupenda, sbr. til dæmis 1. mgr. 23. gr. laganna. Í þessu felist að kæran og sá rökstuðningur sem settur sé fram í henni byggi á rangri forsendu. Þannig skipti ákvæði 28. gr. laganna engu máli um kærunefnið.

       Kærði bendir á að hann hafi þegar falið Ríkiskaupum að kanna grundvöll útboðs og að ætlunin sé að slíkt útboð taki til kærða. Telur hann því þegar af þeirri ástæðu enga ástæðu til að taka til efnismeðferðar kröfu kæranda um að kærunefndin beini því til kærða að bjóða út innkaup kærða á flugmiðum.

       Kærði hafnar því að hann beri skaðabótaskyldu gagnvart kæranda þegar af þeirri ástæðu að hann hafi ekki brotið gegn lögum nr. 84/2007. Þá standi heimild kærunefndar útboðsmála til að tjá sig um skaðabótaskyldu einungis til þess að tjá sig um skaðabótaskyldu vegna kostnaðar við að undirbúa tilboð og taka þátt í tilboði og þar sem ekkert útboð hafi farið fram eigi það ekki við.

       Loks mótmælir kærði því að honum verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, þar sem ekki hafi verið framið neitt brot gegn lögum nr. 84/2007.

 

IV.

Kærunefnd útboðsmála fellst á röksemdir kæranda um að kærufrestur hafi byrjað að líða 7. apríl 2010 og því hafi kæra hans borist innan fjögurra vikna kærufrests, sbr. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007.

       Deila aðila lýtur að því hvort útboðsskylda sé til staðar við kaup hins opinbera á farmiðum í millilandaflugi til og frá Íslandi. Telur kærandi að slík skylda sé til staðar og kærði hafi virt þá skyldu að vettugi, ekki síst með samningi sínum við Icelandair ehf. um afslátt frá flugfargjöldum og önnur sérkjör frá 29. maí 2009. Er það mat kæranda að umræddur samningur sé í raun rammasamningur. Kærði ber því hins vegar við að hann hafi ekki umsjón með innkaupum opinberra aðila á flugmiðum heldur séu þessi innkaup á forræði hvers opinbers aðila um sig.

Útboðsskylda ræðst annars vegar af tegund samnings og hins vegar af áætlaðri fjárhæð hans. Ljóst er að kaup á farmiðum í millilandaflugi teljast til þjónustusamninga, enda er hvorki um verk- eða vörusamninga að ræða. Samkvæmt auglýsingu nr. 230/2010 um breytingar á viðmiðunarfjárhæðum fyrir útboðsskyld kaup á vörum, þjónustu og verkum teljast kaup á þjónustu útboðsskyld ef viðmiðunarfjárhæðin fer yfir 12.400.000 krónur. Sambærileg fjárhæð vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu er 16.750.000 krónur, sbr. reglugerð nr. 229/2010 um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup.

Í 26. gr. laga nr. 84/2007 er fjallað um útreikning virðis þjónustusamninga. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins ber að miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði þegar um er að ræða samninga þar sem heildafjárhæð er ótilgreind. Þá segir í 28. gr. sömu laga að þegar um sé að ræða viðvarandi samninga eða samninga sem endurnýja eigi innan tiltekins tíma skuli reikna út áætlað virði þeirra annaðhvort með hliðsjón af heildarfjárhæð áþekkra samninga á undangengnu fjárhagsári eða síðustu 12 mánuðum að teknu tilliti til breytinga á magni og verði fyrir næstkomandi 12 mánuði eða með hliðsjón af áætluðum kostnaði fyrir næstu 12 mánuði eða lengra tímabil ef því er að skipta frá því vara eða þjónusta er fyrst innt af hendi.

Ef kaup opinberra aðila á vegum ríkisins á flugmiðum í millilandaflugi eru tekin saman telur kærunefnd útboðsmála næsta öruggt að þau nái fljótt framangreindum viðmiðunarfjárhæðum, þótt engar haldbærar tölur hafi verið lagðar fram í þessu samhengi. Kærði telur á hinn bóginn ekki rétt að leggja til grundvallar að innkaup opinberra aðila á flugmiðum séu yfir viðmiðunarfjárhæðum vegna opinberra innkaupa, þar sem þessi innkaup séu á hendi hvers opinbers aðila um sig. Þá sé í lögum nr. 84/2007 hvergi að finna ákvæði til stuðnings því að leggja öll innkaup íslenska ríkisins á flugmiðum saman, óháð því hvaða opinberi aðili kaupi í raun flugmiðana. Lög nr. 84/2007 taki þess í stað til einstakra kaupenda. Þá leggur kærði ennfremur áherslu á að hann hafi ekki umsjón með kaupum opinberra aðila á flugmiðum.

Samkvæmt 84. gr. laga nr. 84/2007 heyra opinber innkaup undir fjármálaráðherra. Ákvæði þetta er fyrsta greinin í kafla XIII. laganna, sem ber yfirskriftina: „Yfirstjórn opinberra innkaupa og starfsemi innkaupastofnunar.“ Verður því að draga þá ályktun að stjórnsýsla þess málaflokks sé í höndum fjármálaráðherra en ekki dagleg framkvæmd opinberra innkaupa. Þeirri framkvæmd ber miðlægri innkaupastofnun, Ríkiskaupum, að sinna. Samkvæmt 1. mgr. 85. gr. laga nr. 84/2007 skal stofnunin annast innkaup fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, rannsaka sameiginlegar þarfir á vörum og þjónustu og beita sér fyrir samræmdum innkaupum til þarfa ríkisins. Einnig skal stofnunin láta í té aðstoð og leiðbeiningar um útboð og innkaup eftir því sem þörf krefur.

Þrátt fyrir framangreint verður ekki hjá því litið að kærði hefur lagt fram samning við Icelandair ehf. um afslátt frá flugfargjöldum og önnur sérkjör, sem í gildi er. Hefur kærði gert samning fyrir hönd fjölmargra annarra ráðuneyta og opinberra stofnana um afslátt af fargjöldum. Er það mat kærunefndar útboðsmála að samningur þessi beri flest einkenni rammasamnings, enda þótt aðilum sé heimilt að haga kaupum sínum á flugmiðum með öðrum hætti. Þannig segir í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 84/2007 að heimilt sé í rammasamningi að ákveða að kaupendur séu ekki skuldbundnir til að skipta eingöngu við aðila rammasamnings við þau innkaup sem samningur tekur til enda séu slík frávik tilgreind í útboðsgögnum.

Kærunefnd útboðsmála telur sig ekki hafa forsendur til að meta hvort raunhæft sé að leggja öll innkaup íslenska ríkisins á flugmiðum saman, óháð því hvaða opinberi aðili kaupi í raun flugmiðana. Kærði hefur hins vegar gert samning fyrir hönd fjölmargra annarra ráðuneyta og stofnana um afsláttarkjör á flugmiðum og því ljóst að hann hefur sjálfur metið svo að samlegð felist í kaupum þessara aðila á flugmiðum. Bendir það því til þess að um útboðsskyldu sé að ræða og kærða hafi borið að bjóða þessi innkaup út áður en gengið var til samninga við Icelandair ehf. í umrætt sinn. Er það ennfremur í samræmi við jafnræðisreglu 14. gr. laga nr. 84/2007.

Kærði hefur lagt á það áherslu að hann hafi þegar beint þeim tilmælum til Ríkiskaupa að skoða möguleika á því að bjóða umrædd innkaup heildstætt út. Verður því að telja að hann hafi þegar orðið við aðal- og varakröfu kæranda eins og kostur er, enda er slíkt útboð ekki í verkahring kærða. Eru því ekki frekari efni til að kærunefnd útboðsmála beini þeim tilmælum til kærða að bjóða út umrædd innkaup kærða. Verður þessum kröfum kæranda því hafnað.

  Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 eru sett tvenns konar skilyrði fyrir skaðabótaskyldu. Annars vegar þarf að vera um að ræða brot á lögum eða reglum um opinber innkaup. Hins vegar þarf bjóðandi að sanna að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brotið.

Af framansögðu er ljóst að bjóða bar út umrædd flugfargjöld og því hafi útboðsskyldu ekki verið sinnt. Að mati kærunefndar útboðsmála hefur kærða á hinn bóginn ekki tekist að sýna fram á með nægilegum hætti að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brotið. Er það því álit kærunefndar útboðsmála að kærði sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda.

Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Slík ákvörðun kemur að jafnaði aðeins til greina þegar kærði tapar máli fyrir nefndinni í verulegum atriðum. Fyrrnefnt ákvæði ber þó að skilja svo að þegar sérstaklega stendur á og rík sanngirnisrök mæla með því megi bregða út frá meginreglunni og úrskurða kæranda hluta málskostnaðar hafi hann haft ærna ástæðu til þess að reyna á rétt sinn með kæru til nefndarinnar. Nefndin telur að eins og hér stendur á sé rétt að úrskurða kæranda hluta málskostnaðar síns, þannig að kærða verði gert að greiða honum 250.000 krónur í málskostnað.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Iceland Express, um að kærunefnd útboðsmála beini því til kærða, fjármálaráðuneytisins, að bjóða út umrædd innkaup heildstætt í gegnum miðlægt innkaupakerfi.

                             

Hafnað er kröfu kæranda, Iceland Express, um að kærunefnd útboðsmála beini því til kærða, fjármálaráðuneytisins, að bjóða út umrædd innkaup kærða.

 

Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði, fjármálaráðuneytið, sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Iceland Express.

 

Kærði, fjármálaráðuneytið, greiði kæranda, Iceland Express, 250.000 krónur vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi.

                  

              Reykjavík, 22. júní 2010.

 

 Páll Sigurðsson,

          Auður Finnbogadóttir,

 Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 22. júní 2010.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn