Hoppa yfir valmynd
3. ágúst 2010 Innviðaráðuneytið

Varðandi umfjöllun um úttekt EuroTAP á öryggismálum í Hvalfjarðargöngum

Ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála hefur kynnt sér efni úttektar samtakanna Euro TAP á öryggsmálum í Hvalfjarðargöngum. Þess ber þó að geta að engin kynning hefur farið fram á niðurstöðum skýrslunnar né heldur hefur hún verið send ráðuneytinu eða Vegagerðinni með formlegum hætti.

Ráðuneytið hefur jafnframt kynnt sér þá gagnrýni sem fram hefur komið hjá fyrirtækinu Speli á niðurstöðum skýrslunnar og framkvæmd úttektarinnar. Þar er því meðal annars haldið fram að slaklega hafi verið staðið að gerð úttektarinnar og að úttekt á vettvangi hafi einungis staðið í klukkustund.

Ráðuneytið telur það mjög alvarlegt hve margar aðfinnslur koma fram í skýrslunni um ástand öryggismála í Hvalfjarðargöngum og mun yfirfara vandlega þau sjónarmið sem þar koma fram. Ráðuneytið telur afar mikilvægt að þeir aðilar, sem um þessi mál fjalla, vandi til verka og byggi mat sitt á eins áreiðanlegum forsendum og gögnum og mögulegt er. Það verður að vera hafið yfir allan vafa að Hvalfjarðargöng uppfylli allar þær öryggiskröfur sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu um slík jarðgöng.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kristján L. Möller, átti í morgun fund með Hreini Haraldssyni, vegamálastjóra, um málið. Þar kom fram að þegar liggur fyrir úttekt Vegagerðarinnar á öryggismálum jarðganga sem eru í notkun hér á landi og samanburður við þær öryggiskröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 992/2007 um öryggiskröfur fyrir jarðgöng, sem undirrituð var þann 27. október 2007. Reglugerðin byggir á þeim kröfum sem settar eru í tilskipun Evrópusambandsins um öryggiskröfur fyrir jarðgöng í evrópska vegakerfinu.

Á fundinum kom einnig fram að Vegagerðin gerði í kjölfar setningar reglugerðarinnar áætlun um endurbætur varðandi öryggismál jarðganga í vegakerfinu og undirbjó aðgerðaáætlun fram til ársins 2014 um það sem bæta þarf til að tryggja að öryggismál í jarðgöngum hér á landi séu að öllu leyti í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Jafnframt liggur fyrir að Spölur vinnur eftir áætlun um úrbætur í öryggismálum fyrir Hvalfjarðargöng.

Vegagerðin mun á næstu dögum yfirfara allar ábendingar sem fram komu í skýrslu samtakanna um öryggismál í Hvalfjarðargöngum og meta gildi þeirra með hliðsjón af þeim öryggiskröfum sem gilda eiga um mannvirkið. Ráðuneytið mun í kjölfar þeirrar vinnu meta þörf fyrir frekari aðgerðir.

Rétt er að vekja athygli á því að öll jarðgöng, sem tekin hafa verið eða verða tekin í notkun eftir gildistöku ofangreindrar reglugerðar, eru hönnuð með hliðsjón af þeim öryggiskröfum sem þar eru skilgreindar.

Að endingu vill ráðuneytið vekja athygli á drögum að reglugerð sem birt hafa verið til umsagnar á heimasíðu ráðuneytis um flutning á hættulegum farmi á landi. Frestur til að koma á framfæri athugasemdum við drögin er til 11. ágúst næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum