Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2010 Innviðaráðuneytið

Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála skipuð

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur skipað kærunefnd greiðsluaðlögunarmála til næstu fjögurra ára í samræmi við lög um greiðsluaðlögun einstaklinga. Heimilt er að skjóta til nefndarinnar ákvörðunum í samræmi við ákvæði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 og laga um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, nr. 103/2010. Úrskurðir kærunefndar greiðsluaðlögunarmála eru endanlegir á stjórnsýslustigi.

Kærunefndina skipa Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir.

Ákvarðanir sem unnt er að kæra til kærunefndarinnar

Umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun um afgreiðslu á umsókn einstaklinga sem sækja um heimild til að leita eignaráðstöfunar á grundvelli laga um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Ef umboðsmaður synjar umsækjanda um slíka heimild getur hann kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að honum berst tilkynning um ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Sæki einstaklingur um heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga en umboðsmaður synjar um hana getur viðkomandi kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að honum berst tilkynning um ákvörðunina.

Ef fram koma upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil skal umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Ákveði umboðsmaður að greiðsluaðlögunarumleitan skuli felld niður getur skuldarinn kært ákvörðun hans til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að honum berst tilkynning um ákvörðunina.

Fari svo að ekki takast samningar um greiðsluaðlögum eftir ákvæðum IV. kafla laga um greiðsluaðlögun einstaklinga getur skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings í því skyni og eftir atvikum greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Umsjónarmaður skal þá taka rökstudda afstöðu til þess hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á. Mæli umsjónarmaður gegn þessu getur skuldari skotið þeirri ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að ákvörðun var tekin.

Skuldari getur krafist þess að gerðar verði breytingar á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun ef upp koma ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum. Ekki er unnt að krefjast breytinga fyrr en skuldari hefur fullreynt að ná þeim fram með samningum við alla lánardrottna. Náist slíkt samkomulag skal það lagt fyrir umboðsmann skuldara og taka breytingarnar ekki gildi fyrr en umboðsmaður skuldara hefur samþykkt þær. Telji umboðsmaður skuldara breytingarnar vera ósanngjarnar eða óhæfilegar skal hann hafna þeim. Ákvörðun umboðsmanns skuldara þess efnis getur skuldari eða lánardrottnar kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að ákvörðun umboðsmanns berst þeim.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum