Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 20/2010. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. ágúst 2010

í máli nr. 20/2010:

Studio Strik ehf.

gegn

Framkvæmdasýslu ríkisins

Með bréfi, dags. 6. ágúst 2010, kærir Studio Strik ehf. ákvörðun Framkvæmdasýslu ríkisins, fyrir hönd félags- og tryggingamálaráðuneytis og Fjarðabyggðar, um að veita Einrúmi ehf. fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð, sbr. útboð nr. 14838, og í kjölfarið að ganga til samningaviðræðna við Einrúm ehf. á grundvelli útboðsins.

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:

1.       Að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað samningsferli á grundvelli ofangreindrar hönnunarsamkeppni með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda.

2.      Að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða þess efnis að semja við Einrúm ehf., sbr. heimild í 1. málslið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

3.      Að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. heimild í 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

4.      Ennfremur krefst kærandi þess að nefndin ákveði að kærði greiði kæranda kostnað hans við að hafa kæruna uppi, alls 300.000 krónur, sbr. heimild í 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

Viðbótarathugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 10. ágúst 2010.

Kærða var kynnt kæran og greinargerð kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2010, krefst kærði þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Einrúm ehf., höfundar tillögu þeirrar sem hlaut fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð, sbr. útboð nr. 14838, óskaði eftir því 10. ágúst 2010 að koma á framfæri athugasemdum við kæruna, þar á meðal sérstökum athugasemdum við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2010, krefst Einrúm ehf. þess að kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar á grundvelli hinnar kærðu hönnunarsamkeppni verði hafnað.

       Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

 

I.

Kærði, fyrir hönd félags- og tryggingamálaráðuneytis og Fjarðabyggðar, auglýsti í mars 2010 hönnunarsamkeppni um nýbyggingu hjúkrunarheimilis í Fjarðabyggð, nánar tiltekið Hulduhlíð að Dalbraut Eskifirði. Var samkeppnin auglýst sem opið útboð og áttu þátttakendur að skila tillögum sínum fyrir 7. júní 2010.

       Í grein 4.2 í samkeppnislýsingu hönnunarsamkeppninnar kemur fram að verkkaupi stefni að því að ganga til samninga við höfunda þeirrar tillögu sem dómnefnd mælir með til áframhaldandi hönnunar á húsinu. Ef ekki næst samkomulag um hönnunarþóknun er verkkaupa heimilt að leita til þeirra aðila sem fengu önnur verðlaun í samkeppninni og semja við þá um útfærslu á tillögu sinni.

       Samkeppnin fór fram í samræmi við samkeppnislýsingu sem byggir á drögum að leiðbeiningum fjármálaráðuneytisins um hönnunarsamkeppni 27. nóvember 2007. Í samkeppnislýsingu er sérstaklega tekið fram að samkeppnin sé framkvæmdasamkeppni, opin öllum sem uppfylla skilyrði verkkaupa og ákvæða samkeppnislýsingarinnar. Grein 2.1 ber yfirskriftina „þátttökuréttur“ og kemur þar fram hverjum sé óheimil þátttaka í samkeppninni. Þar segir ennfremur að meginreglan varðandi hæfi þátttakenda sé sú að þeir sjálfir beri ábyrgð á hæfi sínu.

       Fimm manna dómnefnd hafði það hlutverk að meta tillögur sem bárust í samkeppnina. Í samkeppnisferlinu gilti nafnleynd og gat dómnefnd ekki vitað hverjir væru höfundar að einstökum tillögum. Samskipti dómnefndar og keppenda fóru fram með milligöngu trúnaðar- og umsjónarmanns. Þar sem nafnleynd var viðhöfð í samkeppninni hvíldi sú skylda á keppendum að vekja athygli trúnaðarmanns á hugsanlegu vanhæfi einstakra dómnefndarfulltrúa. Slík fyrirspurn barst frá nokkrum þátttakendum vegna verkefnis sem þessir aðilar höfðu unnið með fyrirtækinu Arkiteó ehf., sem er í eigu dómnefndarmannsins Einars Ólafssonar arkitekts. Í svari trúnaðarmanns segir að fyrirtækinu Arkiteó ehf. sé ekki heimilt að taka þátt í keppninni en hinum fyrirtækjunum sé það heimilt í sitthvoru lagi svo fremi að tryggt sé að ekkert samstarf (í þessari samkeppni) sé milli þeirra fyrirtækja og Arkiteó ehf. Að öðru leyti vísar trúnaðarmaður í svari sínu til greinar 2.1 í samkeppnislýsingu.

       Niðurstaðan í hönnunarsamkeppninni var kynnt 9. júlí 2010. Einrúm ehf. hlaut þar fyrstu verðlaun, en önnur verðlaun komu í hlut kæranda.

       Arkitektafélag Íslands sendi 15. júlí 2010 kærða bréf, þar sem fram kemur að félagið hafi fengið athugasemdir frá þátttakendum í samkeppninni um hæfi þeirra aðila sem fengu fyrstu verðlaun. Er þar bent á tengsl eins dómnefndarmanns við aðila í hópnum.

       Þá liggur fyrir að 3. maí 2010 auglýsti Garðabær útboð vegna leikskóla að Línakri 2. Tillaga sem Einrúm ehf. og Arkiteó ehf. lögðu fram, ásamt stofunum Suðaustanátta, Eflu hf. og Verkís hf. undir stjórn verkfræðistofunnar Ferils ehf., varð þar hlutskörpust.

       Í framhaldinu óskaði kærði eftir lögfræðiáliti um hvort fyrir hendi kynni að vera vanhæfi þátttakenda í framangreindri hönnunarsamkeppni er hefði áhrif á gildi samkeppninnar og niðurstöðu dómnefndar á hlutskörpustu lausn. Er í álitinu komist að þeirri niðurstöðu að samstarfsverkefni eins dómnefndarmanns og þeirra er fengu fyrstu verðlaun gætu talist hafa áhrif á árangur viðkomandi í samkeppninni og því teljist vinningshafinn hafa verið vanhæfur til þátttöku í samkeppninni. Einrúm ehf. mótmælti niðurstöðu álitsins, en fyrirtækinu hafði verið gefinn kostur á að koma með athugasemdir. Keppnisréttur fyrirtækisins hafi verið til staðar samkvæmt grein 2.1 í samkeppnislýsingunni.

       Lögmaður kæranda sendi kærða bréf 6. ágúst 2010, þar sem því er haldið fram að kærða sé óheimilt að semja við Einrúm ehf. um hönnunarvinnu við hjúkrunarheimilið. Sama dag kærði kærandi þá ákvörðun kærða að veita Einrúmi ehf. fyrstu verðlaun og að ganga til samninga við fyrirtækið.

 

II.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 7. mgr. 37. gr. laga nr. 84/2007 skuli dómnefnd eingöngu skipuð einstaklingum sem séu óháðir þátttakendum í samkeppni. Samkvæmt 103. gr. laganna eigi hæfisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við um hæfi þeirra sem taki ákvarðanir samkvæmt lögum nr. 84/2007. Kærandi bendir á að samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga teljist nefndarmaður vanhæfur ef hann eigi sjálfur sérstakra hagsmuna að gæta eða fyrir hendi séu aðrar aðstæður sem séu fallnar til að draga óhlutdrægni hans í efa. Kærandi vísar einkum til samstarfs Einrúms ehf. og viðkomandi dómnefndarmanns um tillögu að leikskóla að Línakri í Garðabæ, auk þess sem það liggi fyrir að þessir aðilar hafi unnið töluvert saman undanfarið. Telur kærandi því líkur á því að dómarinn hafi verulega hagsmuni af því að samstarfsaðili sinn fái verkið. Þannig geti verið bein tenging við það að dómarinn fái sjálfur meira að gera, til dæmis í verkefninu að Línakri á sama tíma. Þá sé samstarfið sérstaklega til þess fallið að draga óhlutdrægni dómarans í efa þrátt fyrir að komist væri að því að hann hefði ekki fjárhagslega hagsmuni af úrlausninni.

       Kærandi telur að kærða hafi borið að beita greinum 3.2.4 og 3.2.5 í leiðbeiningum að hönnunarsamkeppnum og svipta Einrúm ehf. verðlaununum, þar sem fram hafi komið að tillöguhöfundar hafi ekki haft rétt til þátttöku í samkeppninni. Bendir hann á að Einrúm ehf. hafi ekki orðið við þeirri skyldu sinni að vekja athygli á hugsanlegu vanhæfi sínu eða dómnefndarmannsins. Ekki hafi komið fram fyrirspurn frá fyrirtækinu um það hvort tengsl þess við dómnefndarmanninn, meðal annars vegna Línakursverkefnisins, ylli vanhæfi hans sem dómara eða fyrirtækisins sem bjóðanda.

       Þá telur kærandi að kærða hafi borið að beita grein 3.3.5 í leiðbeiningum um hönnunarsamkeppni, þar sem segir að verkkaupi sé ekki bundinn af niðurstöðu dómnefndar heldur sé hún honum eingöngu til ráðuneytis.

       Kærandi leggur áherslu á að hvort sem litið sé til laga nr. 84/2007, stjórnsýslulaga, samkeppnislýsingar eða almennra reglna um hönnunarsamkeppnir, sem séu hluti útboðsgagna, sé ólögmætt af hálfu kærða að semja við Einrúm ehf. um hönnunarvinnu á hjúkrunarheimilinu.

       Kærandi byggir kröfu um stöðvun innkaupaferlis eða gerð samnings á 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007. Telur hann af framangreindum ástæðum ljóst að verulegar líkur séu á að brotið hafi verið gegn reglum settum samkvæmt lögum nr. 84/2007. Því sé rétt að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða hönnunarferlis þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

III.

Kærði telur að hin stranga nafnleynd sem viðhöfð var í hönnunarsamkeppni þeirri sem hér er til skoðunar hafi haft því hlutverki að gegna að tryggja að nefndarmenn sem kæmu að meðferð og úrlausn málsins væru óhlutdrægir. Dómnefnd hafi þannig ekki vitað hverjir stóðu á bak við einstakar tillögur. Þá hafi í útboðsgögnum verið ítarleg ákvæði um hvernig staðið skyldi að merkingu tillagna til að tryggja nafnleynd og tekið fram að dómnefnd myndi vísa frá tillögum sem ekki fullnægðu kröfum um nafnleynd, sbr. grein 1.4 í samkeppnislýsingu.

       Kærði bendir á að við mat á vanhæfi viðkomandi dómnefndarmanns, Einars Ólafssonar, verði að skoða hvort hann hafi átt einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta af því hvaða aðili ynni hönnunarsamkeppnina. Sérstaklega þurfi að skoða hvort sameiginlegt tilboð Arkiteó ehf. og Einrúmis ehf. í leikskólann á Línakri í Garðabæ valdi því að Einar teljist vanhæfur til meðferðar málsins. Leggur kærði áherslu á að niðurstaða útboðsins um leikskólann að Línakri hafi verið ljós áður en skiladagur tillagna í hönnunarsamkeppni sem mál þetta snýst um rann út. Það sé því vandséð hvernig úrslit hönnunarsamkeppninnar hefðu geta haft áhrif á niðurstöðu útboðsins um leikskólann að Línakri. Samkvæmt samkeppnislýsingu hafi átt að skila fullbúnum tillögum undir nafnleynd en fyrri reynsla, verk, verðlaun eða viðurkenningar höfunda hafi ekki verið þáttur í mati á tillögum Verkefnið um leikskólann að Línakri hafi þannig heldur ekki haft áhrif á niðurstöðu dómnefndar í hönnunarsamkeppni þeirri er mál þetta snýst um.

Kærði telur vandséð hvaða hagsmuni Einar hefði átt að hafa af því að Einrúm ehf. ynni hönnunarsamkeppnina. Í öllu falli fáist ekki séð að slíkir hagsmunir hafi verið einstaklegir og verulegir. Þá bendir kærði á að þótt Arkiteó ehf. og Einrúm ehf. muni mögulega í framtíðinni bjóða í eitthvað verk, þar sem það kunni að koma sér vel að Einrúm ehf. hafi unnið framangreinda hönnunarsamkeppni hafi það ekki áhrif við mat á vanhæfi Einars.

Kærði telur ennfremur að jafnvel þótt kærunefnd útboðsmála kæmist að þeirri niðurstöðu að Einar hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins leiði það ekki til þeirrar niðurstöðu að ógilda skuli niðurstöðu dómnefndar. Af fundargerð dómnefndar 23. júní 2010 megi ráða að fjórir af fimm nefndarmönnum hafi verið einróma um að tillaga nr. 3, sem síðar kom í ljós að var tillaga Einrúms ehf., hafi átt að hljóta fyrstu verðlaun.

Kærði leggur áherslu á að skýra verði grein 2.1 í samkeppnislýsingu þröngt, það er allan vafa skuli skýra þátttakendum í hag. Þannig verði að vera skýrt að samstarf aðila sé þess eðlis að það muni hafa áhrif á árangur viðkomandi í keppninni.

Kærði bendir á að í grein 3.2.4 í leiðbeiningum um hönnunarsamkeppni segi að komi í ljós eftir að nafnleynd hafi verið aflétt að keppandi hafi ekki orðið við þeirri skyldu að vekja athygli trúnaðarmanns á hugsanlegu vanhæfi einstakra dómnefndarmanna geti dómnefnd ákveðið í samráði við verkkaupa að hann missi verðlaunasæti. Samkvæmt ákvæðinu sé dómnefnd, í samráði við verkkaupa, þetta heimilt en ekki skylt. Þá bendir kærði ennfremur á að til þess að beita grein 3.2.5 og svipta aðila verðlaunum þurfi að liggja fyrir að aðili uppfylli ekki kröfur sem gerðar hafi verið um þátttöku í samkeppnislýsingu en um það snúist þetta mál.

Kærði telur ljóst að flest rök hnígi að því að Einrúm ehf. hafi uppfyllt grein 2.1 í samkeppnislýsingunni og því verið heimil þátttaka í keppninni. Þá verði ekki séð að Einar hafi verið vanhæfur til setu í dómnefndinni en hafi hann verið það þá leiði það hins vegar ekki til þeirrar niðurstöðu að ógilda skuli niðurstöðu dómnefndar. Með vísan til þess sem rakið hefur verið telur kærði að hann hafi hvorki brotið gegn ákvæðum laga nr. 84/2007 né öðrum lögum eða reglum við útboðið. Því beri kærunefnd að hafna öllum kröfum kæranda.

 

IV.

Einrúm ehf. bendir á að til að unnt sé að fallast á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar verði skilyrði 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 að vera uppfyllt. Þar komi fram að til að nefndin geti stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þurfi verulegar líkur að vera á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup. Hafi samkvæmt þessu verið talið að mjög sterkar líkur þurfi að vera á því að brotið hafi verið gegn lögunum til þess að nefndin beiti heimild sinni til að stöðva samningsgerð.

       Einrúm ehf. telur augljóst að ekki séu uppfyllt skilyrði til að fallast á stöðvunarkröfu kæranda í máli þessu, enda séu fjarri því verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007 svo sem kærandi haldi fram. Krafa kæranda byggi á því að Einrúm ehf. hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að vekja athygli á hugsanlegu vanhæfi sínu eða dómnefndarfulltrúans og að fyrirtækið hafi ekki átt þátttökurétt í keppninni. Er sérstaklega vísað til þess að dómnefndarmaðurinn Einar Ólafsson og Einrúm ehf. hafi unnið sameiginlega að tillögu um leikskóla að Línakri í Garðabæ og „unnið töluvert saman að undanförnu og átt í samstarfi“.

       Einrúm ehf. leggur áherslu á að í þeirri hönnunarsamkeppni sem hér um ræði sé áskilin nafnleynd og séu ríkar kröfur gerðar að því leyti. Það leiði til þess að dómnefndarmenn viti ekki hverjir séu aðilar að málinu og geti þannig ekki sjálfir gætt að hinu sérstaka hæfi sínu. Með hliðsjón af þessu sé lögð sú skylda á þátttakendur að meta þátttökurétt sinn, sbr. grein 2.1 í samkeppnislýsingu.

       Einrúm ehf. leggur áherslu á að fimm aðilar hafi staðið að gerð vinningstillögunnar í hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimilið en samstarfið vegna leikskólans að Línakri í Garðabæ hafi einungis verið við tvo af þessum fimm aðilum og því ekki tengst með neinu móti þremur arkitektunum sem unnu að vinningstillögunni í hönnunarsamkeppninni. Einrúm ehf. bendir á að þeim hafi verið ljós tengsl sín við Einar og því sent trúnaðarmanni keppninnar bréf, þar sem þessum tegnslum var lýst. Telur fyrirtækið að svar trúnaðarmannsins hafi falið í sér túlkun á grein 2.1 í samkeppnislýsingunni og því hafi Einrúmi ehf. verið rétt að treysta þessari túlkun. Vegna þessa svars trúnaðarmanns hafi fyrirsvarsmenn Einrúms ehf. litið svo á að samvinna um að reyna að afla frekari verkefna sem tengjast hönnun mannvirkja væri almennt heimil svo lengi sem hún tengdist með engum hætti yfirstandandi samkeppni og gæti ekki haft áhrif á árangur þeirra í henni. Því er harðlega mótmælt að sú skylda hafi hvílt á þeim að spyrja sérstaklega um þátttökurétt sinn með hliðsjón af útboðinu vegna leikskólans í Garðabæ eða almennt vegna samstarfs í gegnum tíðina. Hafa verði í huga að birt hafi verið hvaða aðilar það hafi verið sem tilheyrðu hverju teymi sem kom með tillögu og hafi Einrúm ehf. með engum hætti reynt að dylja samstarfið.

       Þá telur Einrúm ehf. ljóst að reglur keppninnar geri ekki ráð fyrir að það eitt að vinna að verkefni með dómnefndarmanni valdi því að viðkomandi missi keppnisrétt. Nauðsynlegt skilyrði sé að verkefnið geti talist hafa áhrif á árangur viðkomandi í keppninni. Í ljósi þagnarskyldunnar myndu enda svo strangar reglur, það er reglur sem bönnuðu allt samstarf, vart standast kröfur um meðalhóf í stjórnsýslunni.

       Einrúm ehf. leggur áherslu á að um viðskiptatengsl sé að ræða, það er einn dómnefndarmanna sé í viðskiptasambandi við aðila máls án þess þó að viðskiptasambandið snerti beint úrlausnarefni málsins, það er hönnunarsamkeppnina. Telur fyrirtækið einsýnt að það viðskiptasamband sem sé milli þess og dómnefndarmannsins sé ekki slíks eðlis að það leiði til vanhæfis, enda hafi það verið viðtekin skoðun að slík tengsl leiði ekki til vanhæfis nema þau birtist í ótta við að viðskiptasambandinu verði slitið eða að því fylgi sérstakar trúnaðar- eða hollustuskyldur. Hafa verði ennfremur í huga að reglan um nafnleynd sé sett til að tryggja að ómálefnaleg sjónarmið hafi ekki áhrif við töku ákvörðunar í málinu.

       Einrúm ehf. telur að það skipti umtalsverðu máli að niðurstaða útboðsins vegna leikskólans í Garðabæ hafi legið fyrir áður en tillögur í hönnunarsamkeppninni hafi verið komnar til dómnefndar. Verkefnið í Garðabæ hafi því verið í höfn áður en dómnefnd hafi svo mikið sem getað litið á tillögurnar í samkeppninni um hjúkrunarheimilið.

       Þá er á það bent að nauðsynlegt sé að halda því til haga að dómnefndin sé fjölskipað stjórnvald og að sá dómnefndarmaður sem um ræði sé aðeins einn af fimm slíkum. Þá sé ljóst að dómnefndin starfi eftir nákvæmum reglum og mat hennar sé fjarri því að vera algerlega frjálst, sbr. grein 3.2.4 í drögum að leiðbeiningum um hönnunarsamkeppni sem vísað er til í grein 1.4 í samkeppnislýsingunni. Dómnefndin hafi þannig verið bundin af þeim reglum sem settar hafi verið um markmið samkeppninnar og áherslur hennar í starfi. Ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til að ætla annað en að nefndin hafi lagt faglegt og málefnalegt mat á þær tillögur sem bárust í keppnina. Jafnframt megi benda á að dómnefndin hafi verið þverfagleg. Af fimm dómnefndarmönnum hafi verið tveir arkitektar.

       Einrúm ehf. telur því ótvíræða niðurstöðu þess sem að framan greini að fyrirtækið hafi án vafa haft þátttökurétt í hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimilið þó að samstarf hafi verið um annað verkefni með tveimur þeirra og einum dómnefndarmanni á sama tíma og keppnin hafi staðið yfir.

       Loks er vakin athygli á því að viðskiptatengsl, líkt og þau sem hér um ræðir, sé einnig að finna milli einstakra dómnefndarmanna og annarra þátttakenda í hönnunarsamkeppninni, enda verði vart hjá því komist í því umhverfi sem arkitektar vinna í um þessar mundir.

       Samkvæmt framansögðu krefst Einrúm ehf. þess að kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar verði hafnað, enda séu ekki uppfyllt skilyrði 96. gr. laga nr. 84/2007 til að verða við henni.

      

V.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum.

       Í grein 2.1 í samkeppnislýsingu um hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð kemur meðal annars fram að þátttaka sé óheimil þeim sem vinnur að verkefnum með þeim sem talist gætu hafa áhrif á árangur viðkomandi í samkeppninni. Í ljósi þessa ákvæðis og miðað við gögn málsins er ýmislegt sem bendir til tengsla dómnefndarmannsins, Einars Ólafssonar, við Einrúm ehf., höfunda þeirrar tillögu sem hlaut fyrstu verðlaun í  hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð, sbr. útboð nr. 14838, sem kunna að hamla því að fyrirtækið hafi haft rétt til þátttöku í samkeppninni. Telur kærunefnd útboðsmála því  að verulegur vafi sé hvort þátttökuréttur Einrúms ehf. hafi verið til staðar og því séu nægileg efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun samningsferlis til bráðabirgða. Í úrskurði mun síðar verða leyst úr efnisatriðum málsins.

      

Ákvörðunarorð:

Samningsferli á grundvelli hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð, sbr. útboð nr. 14838, er stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

                   Reykjavík, 24. ágúst 2010.

 

  Páll Sigurðsson,

   Auður Finnsdóttir

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík,  24. ágúst 2010.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn