Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á kynningarfundi Rannsóknastofu um háskóla, 2. september 2010

Háskólar og æðri menntun gegna æ mikilvægara hlutverki í samfélagi nútímamannsins.

Katrín Jakobsdóttir,mennta--og-menningarmálaráðherra
Katrin-Jakobsdottir,-mennta--og-menningarmalaradherra

Kynningarfundur og málstofa Rannsóknastofu um háskóla


Ágæta samkunda
Háskólar og æðri menntun gegna æ mikilvægara hlutverki í samfélagi nútímamannsins. Háskólar eru ekki lengur áfangastaður útvaldra heldur mikilvægur máttarstólpi hins félagslega og efnahagslega raunveruleika.

Flestir eru því sammála um mikilvægi háskóla en í hugum fólks virðist hlutverk þeirra óljósara. Í nýrri bók sinni um háskólastigið rökstyður Jón Torfi Jónasson ágætlega að meginhlutverk háskóla séu margþætt. Að í stuttu máli felist þau í að:

  • efla vísindi og fræði
  • leggja grunn að sérhæfðri fagmennsku
  • sinna atvinnulífi eða þjóðfélaginu almennt og vera grundvöllur framþróunar og nýsköpunar
  • vera gagnrýnið afl sem byggir á akademísku frelsi

Ýmsir hafa spurt sig hvort þessum markmiðum hafi verið nægilega vel sinnt og hvernig megi gera betur. Hér mætti nefna í framhjáhlaupi að sænskum háskólum er lögð sú skylda á herðar að stuðla að hagrænni og félagslegri velferð þjóðfélagsþegna og að unnið sé að sjálfbærni samfélagsins. Viljum við að íslenskir háskólar geri hið sama eða eru þeir ef til vill þegar að því? Hér mætti ef til vill einnig nefna að tveir þriðjungar þeirra sem leggja stund á háskólanám eru konur á meðan rúm 76% allra háskólaprófessora eru karlar! Hvers vegna eru háskólar stofnanir þar sem karlar kenna konum? Hvers vegna er ofvöxtur í þeim greinum sem tengjast viðskiptalífinu og fjármálakerfinu. En samdráttur í ýmsum þeim greinum sem hlúa að öðrum kerfum og máttarstólpum samfélagsins?

Hvaða áhrif mun slík þróun hafa á þjóðfélag framtíðarinnar? Þetta eru verðugar spurningar fyrir þá fræðimenn sem ætla að takast það erfiða verkefni á hendur að fjalla um sinn eiginn starfsvettvang.

Páll Skúlason (2007) telur að skoða beri háskóla út frá þremur sjónarhornum, þ.e. sem fyrirtæki, stofnun og samfélag. Háskóli sem fyrirtæki: Meginafurðir eru prófgráður stúdenta og hins vegar verkin sem verða til við miðlun, leit og varðveislu þekkingar. Frammistaða háskólans lögð á tæknilegan mælikvarða: skilvirkni, hagkvæmni, samkeppnishæfni.

Háskóli sem stofnun:  vinnur í þágu allrar þjóðarinnar og er ætlað að leysa af hendi þau verk sem skyldur hans segja til um. Þessar skyldur eru fyrst og fremst kennsla og rannsóknir í þágu samfélagsins í heild. Starfsemi hennar er lögð á mælikvarða sem miðast einvörðungu við almannaheill, þ.e.a.s. við þarfir þess hóps sérfræðinga og embættismanna sem starfa og stjórna í þágu þjóðarinnar.

Háskóli sem samfélag: Formleg samtök kennara og nemenda sem þurfa að eiga í persónulegum og félagslegum samskiptum sín á milli til að ná markmiðum sínum. Líta má á þetta samfélag sem afmarkaða skor eða heild allra háskólamanna hvarvetna í heiminum.

Í grein sinni frá 2007 lýsir Páll því að erfiðleikarnir sem háskólar eiga við að etja um þessar mundir stafi líklega af því að samfélagseðli þeirra hafi verið vanrækt. Þetta samfélagseðli er látið víkja fyrir fyrirtækissjónarmiðinu þegar háskólinn tekur upp á því að laga sig að rökvísi fyrirtækisins, hvort sem þá er átt við framleiðslu eða sölu, og látið í veðri vaka að skyldur hans felist í að skila hagnaði. Á sama hátt lætur líka stofnunarsjónarmiðið sem ráðið hafði ríkjum frá því á 19. öld hægt og bítandi undan síga fyrir líkaninu um gróðafyrirtækið. Að hans mati ógnar þessi þróun eiginlegu háskólastarfi vegna þess að það lýtur öðrum lögmálum en þeim sem gilda um framleiðslu og dreifingu veraldargæða þar sem gróðavonin situr í öndvegi (Páll Skúlason, 2007:123).

Í lok síðasta árs efndi ég til formlegrar samræðu um háskóla, hlutverk þeirra, skipulag, fjármögnun, inntak og áherslur með fundaröð á vegum menntamálaráðuneytisins. Slíkt hafði ekki verið gert áður en var einmitt ein af þeim tillögum sem settar voru fram í skilagrein rýnihóps um háskólastigið. Á þessum fundum var m.a. rætt um aukna þörf fyrir gagnaöflun og rannsóknir á háskólum sem nota mætti sem grunn að upplýstri samræðu og ákvarðantöku í málefnum háskólastigsins. Margvíslegar upplýsingar liggja að sjálfsögðu fyrir en þarflegt er að bæta í sarpinn. Með útkomu rannsóknarskýrslu Alþingis vöknuðu enn fleiri spurningar sem þá vörðuðu hlutlægni vísinda á Íslandi og akademískt frelsi íslenskra fræðimanna. Rannsóknir á þessu sviði eru því nauðsynlegar til að auka skilning okkar á þróun og stöðu íslenskra háskóla.

Að þessu samanlögðu taldi ég gríðarlega mikilvægt að rannsóknarstofnun um háskóla myndi takast á við þessi verkefni og opinberaði þann pólitíska vilja með táknrænum styrk sem ég veitti stofnuninni á dögunum.

Ágæta samkoma, það gleður mig að þessi málfundur skuli eiga sér stað um málefni háskóla hér á landi og umræðunni sé þar með haldið lifandi og að stofnun sem þessi skuli taka til starfa á þessum áleitnu en spennandi tímum sem við nú lifum.

Takk fyrir og góða skemmtun

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira