Hoppa yfir valmynd
13. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Niðurstöður starfsdags velferðarvaktarinnar 21. sept. 2010

Hvað hefur áunnist með starfi velferðarvaktarinnar?

Í velferðarvaktinni hefur skapast gott og traust tengslanet milli fjölmarga aðila og er hún samráðsvettvangur fólks með breiða þekkingu og víðtæka reynslu. Skipst er á upplýsingum og skilaboðum komið á framfæri út á við og inn á við.Vaktin hefur vakið athygli á mikilvægum málum með skýrslum, ályktunum og ábendingum, ekki síst málefnum barna, skapað stjórnvöldum aðhald og haft áhrif á almenna umræðu í samfélaginu. Starf vaktarinnar er lýðræðislegt, skoðanaskipti eru opin og vinnuhópar hafa verið öllum opnir sem eru reiðubúnir að leggja málefnum vaktarinnar lið. Velferðarvaktin er vel kynnt og á auðvelt með að afla upplýsinga, sem annars væri erfitt að afla. Upplýsingar um störf vaktarinnar og öll gögn hennar er að finna aðgengileg á vefsvæði vaktarinnar. Endurnýja þarf skipunarbréf vaktarinnar.

Hver eiga að vera meginverkefni vetrarstarfsins ?

Vaktin sendi frá sér áfangaskýrslu fyrir jólin 2011.  Hún leggi áfram sérstaka áherslu á stöðu barna og barnafjölskyldna og hún þarf að fylgja fleiri málum eftir sem hún hefur vakið athygli á. Tryggja þarf að jafnréttissjónarmiðin komi fram í tölfræði sem vaktin óskar eftir og horft sé til kynjasjónarmiða í öllu starfi vaktarinnar.  Þá þarf félagsvísahópurinn að ljúka sínu verkefni. Velferðarvaktin beini sjónum sínum að:

  • Börnum og ungum barnafjölskyldum
  • Fátækt og félagslegri útskúfun (staða innflytjenda og annarra sem standa höllum fæti)
  • Skuldum heimilanna,
  • Vinnumarkaðnum, stöðu atvinnulausra, ekki síst langtímaatvinnulausra, verkefni
  • Vinnumálastofnunar og menntunarúrræðum. Svo og stöðu þeirra sem eru án atvinnu án þess að vera skráðir atvinnulausir, þar á meðal konur og einyrkjar, en þessir hópar eiga ekki rétt á aðgangi að virkniúrræðum.
  • Lýðheilsu (m.a.tannvernd barna).
  • Forgangsröðun í velferðarkerfinu.
  • Því að tveir hópar ljúki verkefnum sínum: Félagsvísahópur og grunnþjónustuhópur.
  • Því að vaktin geri sér starfsáætlun.

Framtíð og hlutverk vinnuhópa velferðarvaktarinnar og skipulag starfs þeirra.
Hópar starfi áfram skv. framangreindum áherslum. Þörf er á að endurskilgreina hópastarfið, afmarka verkefnin, tímasetja og hafa meiri sveigjanleika.

Velferð, fjölskyldulíf  og vinnumarkaðurinn

Aðilar vinnumarkaðarins gegna  mikilvægu hlutverki við að efla og verja velferðakerfið. Horfa ber sérstaklega á  stöðu barna og fjölskyldna, samþættingu atvinnuþátttöku og fjölskyldulífs og stöðu eldra fólks á vinnumarkaði.

Sýnileiki velferðarvaktarinnar

Sýnileiki vaktarinnar þarf að vera meiri gagnvart ráðherra og ríkisstjórn.Velferðarvaktin efni áfram til opinnar umræðu um mikilvæg málefni og haldi áfram að senda frá sér ábendingar og tilmæli eftir því sem efni standa til.

Staða velferðar- og skólamála hjá sveitarfélögunum

Sveitarfélögin tengjast á einn eða annan hátt öllum málaflokkunum sem velferðarvaktin hefur látið til sín taka.  Koma verður í  veg fyrir að afleiðingar langtímaatvinnuleysis flytjist yfir á sveitarfélögin, standa verður vörð um lögbundna þjónustu í leik- og grunnskólum, tímabært er að taka út stoðþjónustu í grunnskólunum og þörf er á að hlúa að starfsfólki skólanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum