Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Heildarsamkomulag um tilfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga undirritað í dag

Samkomulag um tilfærslu málefna fatlaðra undirritað
Samkomulag um tilfærslu málefna fatlaðra undirritað

Samkomulag um faglegt og fjárhagslegt fyrirkomulag á tilfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna var undirritað í dag. Frumvarp til laga um tilfærsluna á grundvelli samkomulagsins verður lagt fyrir Alþingi á næstu dögum.

Þjónusta sem ríkið veitir fötluðum samkvæmt lögum um málefni fatlaðra færist til sveitarfélaganna 1. janúar 2011. Sveitarfélög og þjónustusvæði á vegum þeirra taka við ábyrgð á framkvæmd og fjármögnun þjónustunnar, óháð því hvort hún hefur verið veitt af ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum aðilum, með þeim réttindum og skyldum sem henni tengjast. Áskilið er að þjónustusvæði um rekstur þjónustu við fatlaða hafi að lágmarki 8.000 íbúa. Fámennari sveitarfélög hafa því gert með sér samkomulag og samstarfssamning um framkvæmd þjónustunnar.

Þjónustuþættir sem sveitarfélögin taka við eru sambýli, áfangastaðir, frekari liðveisla við íbúa í þjónustu- og íbúðakjörnum og í sjálfstæðri búsetu, hæfingarstöðvar og dagvistarstofnanir, verndaðir vinnustaðir og atvinna með stuðningi, heimili fyrir börn og skammtímavistanir. Starfsemi sem áfram verður á ábyrgð ríkisins er Hringsjá – náms- og starfsendurhæfing, Tölvumiðstöð fatlaðra, Múlalundur, Blindravinnustofan og vinnustaðir Öryrkjabandalags Íslands. Samningsaðilar munu vinna að framtíðarverkaskiptingu sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar á sviði atvinnumála fatlaðra á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga varðar um 2.500 einstaklinga sem þurfa þjónustu vegna fötlunar sinnar og um 1.500 starfsmenn í rúmlega 1.000 stöðugildum sem annast þjónustuna. Við yfirfærsluna skipta langflestir starfsmenn um vinnuveitanda á grundvelli aðilaskiptalaga og verða engar breytingar á kjörum þeirra eða réttindum. Störf um 60 starfsmanna á svæðisskrifstofum málefna fatlaðra verða lögð niður en sveitarfélögin munu leitast við að bjóða sem flestum þeirra störf á sínum vegum. Félagsmenn í SFR eiga þess kost að halda óbreyttri stéttarfélagsaðild en nýir starfsmenn munu ganga inn í bæjarstarfsmannafélögin eða önnur stéttarfélög sem hafa ótakmarkaðan samningsrétt við sveitarfélögin.

Framkvæmdasjóður fatlaðra og stjórnarnefnd um málefni fatlaðra verða lögð niður. Til að tryggja sem jafnasta stöðu sveitarfélaga verður komið á fót sjóði í eigu og umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem annast umsýslu fasteigna í eigu ríkisins þar sem fötluðum er veitt þjónusta. Stofnuð verður sérstök deild í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem á að tryggja að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða endurspegli kostnaðarmun vegna mismunandi fjölda fatlaðra íbúa og ólíkra þjónustuþarfa þeirra. Útsvarshlutfall sveitarfélaga verður hækkað um 1,2% gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Að auki verða veitt framlög á fjárlögum vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, biðlista eftir þjónustu og breytingakostnaðar.

Árið 2014 skal fara fram sameiginlegt mat ríkis og sveitarfélaga á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar. Mat á faglegum árangri skal byggja á markmiðum tilfærslunnar eins og þau eru skilgreind í 2. gr. samkomulagsins.

Samkomulagið undirrituðu Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fyrir hönd ríkisins og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins, fyrir hönd sveitarfélaganna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum