Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 15/2010

Ár 2010, miðvikudaginn 1. desember, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 15/2010 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi dagsettu hinn 9. mars 2010 sendi Guðlaug Kristófersdóttir, kt. 211140-4109, kæru til yfirfasteignamatsnefndar og óskaði eftir að ósamþykkt íbúð hennar að Urðarholti 4, fnr. 208-4564, mhl. 02-02-01, Mosfellsbæ, væri skattlögð samkvæmt a lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

 

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi dagsettu 22. mars 2010 eftir umsögn Mosfellsbæjar. Umbeðin umsögn barst með bréfi dagsettu 14. maí 2010 undirrituðu af Stefáni Ómari Jónssyni, framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs.

 

Í umsögn Mosfellsbæjar segir:

„Í 5. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 segir m.a. að upplýsingar skv. 4. gr. skulu skráðar og skráningu þeirra breytt þegar mannvirki er breytt eða eytt eða breyting verði á notkun eignar. Í 14. gr. sömu laga er talað um að sé óskað eftir breytingum á fyrirliggjandi upplýsingum um fasteign skuli sækja um breytingu á skráningarupplýsingum um fasteignina í fasteignaskrá hjá viðkomandi sveitarfélagi, en leiðbeiningin til kæranda tók einmitt mið af þessari lagagrein. Jafnframt segir í 19. gr. sömu laga að viðkomandi sveitarstjórn sé ábyrg fyrir því að Fasteignaskrá Íslands berist upplýsingar um m.a. breytingar á mannvirkjum.

 

Í 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um byggingarleyfi segir m.a. að óheimilt sé að breyta húsi eða notkun þess, nema með leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.

 

Í 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 segir m.a. að sveitarstjórn annist álagningu fasteigna­skatts sem skuli fara fram í fasteignaskrá og verði ágreiningur um gjaldstofn skv. 3. gr. skuli vísa honum til úrskurðar Fasteignaskrár Íslands, en þeim úrskurði megi síðan skjóta til yfirfasteignamats-nefndar.

 

Lagafyrirmæli virðast því ótvírætt standa til þess að taka beri fyrir, hjá viðkomandi sveitarfélagi, óskir um breytta skráningu fasteignar og um óskina fjallað á þeim vettvangi í fyrstu.

 

Það er því afstaða Mosfellsbæjar að kærandi eigi að láta reyna á afstöðu sveitarstjórnar Mosfellsbæjar (skipulags- og byggingarnefndar) og síðan Fasteignaskrár Íslands, áður en kemur til úrskurðar yfir­fast­eignamatsnefndar í hinu kærða máli“.

 

Umsögn Mosfellsbæjar var send kæranda með bréfi dagsettu 31. ágúst 2010 og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Yfirfasteignamatsnefnd fór í vettvangsgöngu að Urðarholti 4, miðvikudaginn 20. október 2010. Í henni tóku þátt af hálfu yfirfasteignamatsnefndar Björn Karlsson og Inga Hersteins­dóttir. Á vettvangi voru kærandi Guðlaug Kristófersdóttir, Guðbjörg Níelsdóttir Hansen, Smári Jónsson (dóttir og tengdasonur kæranda) auk leigjandans Sigurðar Ívars Sölva­sonar. Ekki var mætt af hálfu Mosfells­bæjar.

 

Um er að ræða fasteign, sem hefur verið nýtt sem íbúð. Samkvæmt kaupsamningi frá 2002 var húsnæðið selt sem ósamþykkt íbúð.

 

Fasteignin, sem er í fasteignaskrá skráð sem skrifstofa, mhl. 02-0201, er á 2. hæð, skráð 50,4 m2, byggingarár 1980. Gengið er inn af stigagangi inn í flísalagt anddyri, þar inn af er flísalagt baðherbergi með klósetti, handlaug og sturtu í góðu ástandi, einnig þvottavél. Úr anddyri er gengið inn í stofu og eldhús í opnu rými með plastparketi á gólfi. Snyrtileg eldhús­inn­rétting, vaskur, eldavél, ofn í góðu ásigkomulagi. Lofthæð u.þ.b. 3 m. Úr eldhúsi er gengið inn í rúm­gott svefnherbergi, gegnum u.þ.b. 2 m langan gang. Úr svefnherbergi er flóttaleið gegnum stóran opnanlegan glugga / björgunarop u.þ.b. 0,8 x 0,6 m, út á þak. Geymslu-aðstaða er ofan á fölsku lofti yfir anddyri u.þ.b. 2,5 m2 og 0,6 m á hæð.

 

Niðurstaða

Með bréfi dagsettu 18. ágúst 2010 fór yfirfasteignamatsnefnd fram á við dómsmála- og mann­réttinda­ráðu­neytið, með vísan til 2. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001, að veittur yrði aukinn frestur til að úrskurða í málinu. Með bréfi dags. 20. ágúst 2010 veitti dómsmála- og mannréttinda­ráðu­neytið yfirfasteigna­matsnefnd frest til 31. desember 2010 til þess að úrskurða í málinu.

 

Fasteignaskrá Íslands var með lögum nr. 77/2010 sameinuð Þjóðskrá og hin sameinaða stofnun heitir Þjóðskrá Íslands. Þar sem hinn kærði úrskurður var kveðinn upp áður en af þessari sameiningu varð verður hér notað heitið Fasteignaskrá Íslands.

 

Kærandi gerir þá kröfu að fasteign hans að Urðarholti 4, Mosfellsbæ skuli skattlögð sem íbúðar­húsnæði skv. a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

Samkvæmt 3. ml. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 sker yfirfasteignamatsnefnd úr ef ágreiningur verður um gjaldskyldu. Er málið því réttilega komið til úrlausnar fyrir nefndina. 

 

Álitaefni í kærumáli þessu er hvort húsnæði það sem kæran varðar skuli teljast íbúðarhús­næði í skilningi a liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Hvorki í lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 né í reglugerð um fasteignaskatt nr. 1160/2005 er að finna skilgreiningu á því hvaða skilyrði skuli vera uppfyllt til þess að húsnæði teljist vera íbúð í skilningi laganna.

 

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b lið og c lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mann­virki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðar­réttindum.“

 

Undir b lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heima­vistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn.

 

Undir c lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunar­húsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

 

Fasteignin sem kæran varðar er í húsinu nr. 4 við Urðarholt, mhl. 02-0201, fastanúmer 208-4564. Samkvæmt fasteignaskrá er hún skráð sem skrifstofa. Fyrir liggur að húsnæðið er notað sem íbúð. Kærandi hefur sótt um breytingu á skráningu húsnæðisins úr skrifstofu í íbúð og gert ýmsar breytingar á því í þeim tilgangi (brunahólfun, björgunarop) en byggingaryfirvöld hafa ekki samþykkt breytta skráningu þar sem enn vantar á að húsnæðið uppfylli ákveðnar kröfur byggingarreglugerðar.

 

Í eldri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar hefur verið á því byggt að það sé raunveruleg notkun húsnæðis sem ráði því undir hvaða staflið 3. mgr. 3. gr. eign flokkist en ekki skráð notkun þess eða samþykki byggingaryfirvalda. Hefur verið fallist á þann skilning í dómi Hæstaréttar hinn 5. október 2006 í máli nr. 85/2006.

 

Telur yfirfasteignamatsnefnd með hliðsjón af innréttingu fasteignar kæranda og því sem staðfest er um raunverulega notkun hennar sem íbúðarhúsnæðis að eignin skuli skattlögð samkvæmt a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

Úrskurðarorð

Greiða skal fasteignaskatt af fasteign kæranda að Urðarholti 4, Mosfellsbæ, fastanúmer 208-4564, samkvæmt a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 miðað við núverandi notkun hennar sem íbúðarhúsnæðis.

 

Reykjavík, 1. desember 2010,

 

______________________________

Jón Haukur Hauksson

 

_______________________________                    _____________________________

            Inga Hersteinsdóttir                                                  Björn Karlsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn