Hoppa yfir valmynd
16. desember 2010 Dómsmálaráðuneytið

Vinnuhópi falið að skoða hvort setja skuli á fót millidómstig sem tekur bæði til sakamála og einkamála

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur skipað vinnuhóp sem taka á til skoðunar hvort setja skuli á fót hér á landi millidómstig sem taki bæði til sakamála og einkamála, fara yfir kosti þess og galla og meta hvernig slíku millidómstigi væri best fyrir komið. Skal vinnuhópurinn skila niðurstöðum sínum til ráðuneytisins fyrir 1. apríl nk.

Vinnuhópurinn lauk störfum og skilaði niðurstöðum sínum 24. júní 2011.


Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur skipað vinnuhóp sem taka á til skoðunar hvort setja skuli á fót hér á landi millidómstig sem taki bæði til sakamála og einkamála, fara yfir kosti þess og galla og meta hvernig slíku millidómstigi væri best fyrir komið. Skal vinnuhópurinn skila niðurstöðum sínum til ráðuneytisins fyrir 1. apríl nk.

Skipan vinnuhópsins er ákveðin með hliðsjón af áskorun Dómarafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands, Lögfræðingafélags Íslands og Ákærendafélags Íslands til dómsmálaráðherra um að hann beiti sér fyrir því að sett verði á fót millidómstig í sakamálum og einkamálum fyrir 1. júlí 2011. Félögin settu fram þá hugmynd að millidómstigið gæti verið skipað sex dómurum, þannig að unnt væri að skipa í tvær þriggja manna deildir. Hliðstæð skilyrði myndu gilda um áfrýjun héraðsdóms til millidómstigs og nú gilda um áfrýjun héraðsdóma til Hæstaréttar. Dómum millidómstigs yrði einungis unnt að skjóta til Hæstaréttar til endurskoðunar á lagaatriðum og ákvörðunum viðurlaga. Sönnun kæmi því ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Áfrýjun mála yrði takmörkuð við mikilsverða hagsmuni. Allir rannsóknarúrskurðir, þar með talið úrskurðir um gæsluvarðhald, kæmu til endanlegrar úrlausnar á millidómstigi. 

Vinnuhópnum var einnig falið að hafa hliðsjón af áliti nefndar um milliliðalausa sönnunarfærslu í meðferð sakamála frá október 2008. Þar var lagt til að komið yrði á fót millidómstigi í sakamálum. Til dómstólsins yrði áfrýjað þeim sakamálum sem nú sæta áfrýjun til Hæstaréttar. Málum yrði skotið þaðan til Hæstaréttar á grundvelli áfrýjunarleyfis og þar yrði fjallað um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Mat á sönnun og sönnunargildi munnlegs framburðar yrði ekki endurskoðað á því stigi. Öllum ágreiningsmálum varðandi réttarfar og rannsóknaraðgerðir í héraðsdómi yrði skotið til millidómstigs með kæru. Við millidómstigið myndu starfa að lágmarki sex dómarar.

Í vinnuhópnum eiga sæti Sigurður Tómas Magnússon, prófessor, sem er formaður vinnuhópsins, Ása Ólafsdóttir, hrl. og lektor við HÍ, Símon Sigvaldason, héraðsdómari og formaður dómstólaráðs, og Benedikt Bogason, héraðsdómari og ritari réttarfarsnefndar. Skal vinnuhópurinn hafa samráð við fulltrúa framangreindra félaga við vinnu sína og hefur þeim verið boðið að tilnefna tengilið af sinni hálfu við vinnuhópinn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum