Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 23/2010

Ár 2011, miðvikudaginn 12. janúar, var af yfirfasteignamatsnefnd í málinu nr. 23/2010, kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi dags. 19. október 2010 kærði Arnór Halldórsson hdl. f.h. Rósu ehf., kt. 581007-0350, álagningu og innheimtu Sveitarfélagsins Árborgar á fasteignagjöldum fyrir fasteignina Vallartröð 9, fnr. 224-3473, Selfossi og gerði kröfu um að álagningu og innheimtu vegna áranna 2007 – 2010 væri hnekkt.

Hinn 28. október 2010 óskaði yfirfast­eigna­matsnefnd eftir umsögn frá Sveitarfélaginu Árborg. Umsögn sveitarfélagsins, dagsett 6. desember 2010, barst nefndinni 7. desember 2010. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna umsagnar sveitarfélagsins en athugasemdir hafa ekki borist.

Yfir­fasteignamatsnefnd skoðaði eignina 20. nóvember 2010. Málið var tekið til úrskurðar 22. desember 2010.

Sjónarmið kæranda.

Kröfur kæranda eru að álagning og innheimta Sveitarfélagsins Árborgar á fasteignagjöldum fyrir fasteignina að Vallartröð 9 á Selfossi verði hnekkt. Ekki er kærð álagning fráveitugjalds eða vatnsgjalds. Tekið er fram að kærandi hafi keypt fasteignina 31. október 2007 og kæra taki til álagningar vegna nóvember og desember þess árs.

Í kæru er rakið að álögð gjöld vegna fasteignarinnar hafi á umræddum árum verið sem hér segir:

Ár

Álagningarprósenta

Gjaldstofn

Álagning

2007

1,600%

27.670.000 kr.

442.720 kr.

2008

1,472%

30.810.000 kr.

453.523 kr.1)

2009

1,472%

15.569.000

229.176 kr.

2010

1,650%

14.819.000

244.514 kr.1) Kærandi segir endanlega innheimtu hafa verið 218.401 kr. og telur lækkunina hafa orðið í tengslum við lækkun fasteignamats á árinu.

Kærandi segir skattprósentu vegna fasteignaskatta af hesthúsum í sveitarfélaginu lengi hafa verið þá sömu og af íbúðarhúsnæði. Þetta hafi breyst 2005 og fasteignagjöld hest­húsa í þétt­býli hafi verið færð í þann flokk sem þau nú eru í. Kærandi kveður álagningu á hesthús sitt fara eftir c. lið 3. mgr. 4. gr. [1] laga nr. 4/1995. Álagningarprósenta á hesthús á bújörðum í sveitar­félaginu sé hins vegar lægri, eða sú sama og af íbúðarhúsnæði á bújörðum og fari eftir a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Kærandi telur gjaldtöku af hesthúsi sínu ólögmæta að því marki sem hún er umfram a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Kærandi telur gjaldtökuna ekki eiga næga stoð í lögum. Miða beri við a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 þar sem um útihús sé að ræða og í vafatilvikum beri að túlka heimildir stjórnvalda til skattheimtu þröngt og skattþegnum í hag.

Þá er vísað til þess að ekki hafi verið skýrt fyrir kæranda hvernig fari saman skattlagningin og veitt þjónusta, en því haldið fram að álagning fasteignaskatta sé til að standa sveitarfélagi straum af kostnaði sem af fasteignum leiði. Varðandi það er vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 85/2006 og 112/2004.

Því er haldið fram að eigendur hesthúsa búi við mismunandi skattumhverfi eftir því hvort hest­hús þeirra eru í þéttbýli eða á svo kölluðum bújörðum, jafnvel þótt viðkomandi byggingar standi nánast hlið við hlið. Kærendur segja þetta fela í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar auk þess sem slík mismunun feli í sér brot á markmiðum sam­keppnis­laga, sbr. 1. gr. laga nr. 44/2005. Vísað er til álits samkeppnisráðs nr. 8/1998. Þá er vísað til þess að kærandi hafi stundað atvinnustarfsemi í húsnæðinu þar til haustið 2009.

Sjónarmið Sveitarfélagsins Árborgar.

Sveitarfélagið Árborg gerir kröfu um að kröfum kæranda verði hafnað og hin kærða álagning verði staðfest.

Rakið er að um árabil hafi fasteignagjöld verið lögð á hesthús í þéttbýli í sveitarfélaginu sam­kvæmt c. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Því er hafnað að túlka beri orðalag c. liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 þannig að það eigi við um útihús hvar sem þau standi heldur er haldið fram að með orðalaginu sé vísað til útihúsa á bújörðum, en ekki í þéttbýli. Sveitarfélagið heldur því fram að upptalning þeirra eigna sem taldar eru upp í hverjum lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sé tæmandi og húsnæði til hús­dýra­halds eigi undir c. lið 3. mgr. 3. gr. Vísað er til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 8/2007 um að upptalning í b. lið 3. mgr. 3. gr. sé tæmandi og ákvæðið beri að skýra þröngt og það talið rökstyðja þrönga skýringu a. liðar sömu greinar. Um skattlagningarheimild og skatthlutfall er vísað til 3. gr. laga nr. 4/1995. 

Því er hafnað að brotin sé jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og vísað til þess að meginmarkmið þeirrar reglu sé að koma í veg fyrir mismunun þeirra sem eru í sömu aðstöðu og engar málefnalegar ástæður réttlæti mismunun. Því er haldið fram að eðlileg, hlutlæg og málefnaleg rök séu fyrir mismunandi álagningarreglum fasteignaskatts vegna hesthúsa á bújörðum annars vegar og vegna hesthúsa í þéttbýli hins vegar og vísað er til mismunandi stað­setningar umræddra húsa, sem feli í sér mismunandi þjónustu sveitarfélagsins við eigendur. Fullyrt er að eigendur hesthúsa í þéttbýli njóti þjónustu sem ekki sé veitt í dreif­býli. Á sama hátt verði ekki séð að brotin séu ákvæði samkeppnislaga.

Niðurstaða.

Í kæru er gerð krafa um að álagning og innheimta Sveitarfélagsins Árborgar á fast­eigna­gjöldum fyrir fasteignina að Vallartröð 9 á Selfossi verði hnekkt. Hugtakið fasteignagjöld getur falið í sér ýmis gjöld sem lögð eru á fasteignir og eigendum þeirra gert að greiða til sveitar­félags. Yfirfasteigna­mats­nefnd er bær til að fjalla um gjaldskyldu vegna fast­eigna­skatts, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995. Hér verður því aðeins fjallað um álagningu fast­eigna­skatts en umfjöllun um álagningu annarra gjalda er vísað frá nefndinni.

Kærandi gerir þá kröfu að fasteignin Vallartröð 9, Sveitarfélaginu Árborg, fastanúmer 224-3473, skuli skattlögð skv. a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í stað c. liðar sem ákvörðun Sveitar­félagsins Árborgar byggir á. Í kæru er einnig á því byggt að eigendur hesthúsa búi við mismunandi skattumhverfi eftir því hvort hest­hús þeirra eru í þéttbýli eða á svo kölluðum bújörðum og því haldið fram að þetta feli í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og brot á markmiðum sam­keppnis­laga, sbr. 1. gr. laga nr. 44/2005. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. lög nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts.  Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a. lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni, samkvæmt b. lið allt að 1,32% og samkvæmt c. lið allt að 1,32%. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. er sveitar­stjórnum heimilt að hækka allt að 25% það álagningarhlutfall sem tilgreint er í a. og c. lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Ákvæðið heimilar mismunandi álagningu fasteignaskatts eftir mismunandi notkun eigna. Sambærileg ákvæði hafa lengi verið í lögum um tekjustofna sveitarfélaga og hafa ekki verið talin fela í sér brot á jafnræðisreglu. 

Fasteignir sem falla undir a. lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfða­festulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru land­búnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b. lið falla sjúkra­stofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c. lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferða­þjónustu.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er Vallartröð 9, fnr. 224-3473, skráð sem 439,0 m2 hesthús á 900,0 m2 leigulóð, sem er í eigu Sveitarfélagsins Árborgar. Samkvæmt aðal­skipulagi Sveitar­félagsins Árborgar er fasteignin innan þéttbýlis, á deiliskipulögðu hesthúsa­svæði. Yfirfasteignamatsnefnd fór á vettvang og skoðaði eignina 20. nóvember 2010 og staðfesti opinbera skráningu eignarinnar.

Að mati yfirfasteignamatsnefndar fellur hesthús kæranda að Vallartröð 9, fnr. 224-3473, ekki undir upptalningu í a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Ágreiningslaust er að eignin fellur ekki undir upptalningu í b. lið sömu málsgreinar. Samkvæmt því verður að telja að fasteignin að Vallartröð 9, fnr. 224-3473, falli undir c. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, en undir þann gjaldflokk falla allar eignir sem ekki falla undir upptalningu í a. og b. lið.

Úrskurðarorð

Fasteignin Vallartröð 9, fnr. 224-3473,  Sveitarfélaginu Árborg, skal skattlögð samkvæmt c. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Reykjavík, 12. janúar 2011,

 

______________________________

Jón Haukur Hauksson

Ásta Þórarinsdóttir                                                    Sveinn Agnarsson[1] Ritað svo en er væntanlega innsláttarvilla og á að vera 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn