Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 18. janúar 2011

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Einar Jón Ólafsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Gissur Péturssonn án tilnefningar, Gyða Hjartardóttir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tilnefningar, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

1. Matarúthlutanir, könnun á samsetningu hópsins sem fær matargjafir frá hjálparstofnunum.
Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti, kynnti helstu niðurstöður könnunar sem Félagsvísindastofnun HÍ vann fyrir velferðarráðuneytið. Könnunin var gerð 24. nóvember sl. þegar matarúthlutun stóð yfir. Tilgangur könnunarinnar var að afla upplýsinga um hópinn sem þiggur matarúthlutanir á vegum Fjölskylduhjálpar Íslands, Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Einungis tvö fyrrnefndu samtökin voru reiðubúin til samstarfs en Mæðrastyrksnefnd vildi ekki að þeirra skjólstæðingar yrðu spurðir meðan þeir biðu eftir úthlutun. Könnunin fór þannig fram að farið var í biðraðirnar sem myndast eftir matargjöfunum og lagðir fyrir spurningalistar. Spurt var um eftirfarandi: Kyn, aldur, ríkisfang, búsetu, hjúskaparstöðu, barnafjölda, fjölda í heimili, búsetuform, menntun, stöðu á vinnumarkaði, tekjur, bætur, lífeyri, helstu ástæðu komu og hvort leitað var til fleiri hjálparsamtaka þennan sama dag. Lagðir voru spurningalistar fyrir fólk í biðröðum hjá Fjölskylduhjálp Íslands og Hjálparstarfi kirkjunnar en fólk var einungis talið og flokkað eftir kyni hjá Mæðrastyrksnefnd.

Helstu niðurstöður:

  • Fjöldinn í biðröðunum skipt eftir hjálparsamtökum:
     - Mæðrastyrksnefnd  564
     - Fjölskylduhjálp Íslands 325
     - Hjálparstarf kirkjunnar 129
  • Svarhlutfall var á bilinu 72–73%.
  • Úthlutanir í heild voru rúmlega 1.000.
  • 730 einstaklingar/heimili fengu úthlutun þar sem ákveðinn hluti fór á fleiri en einn stað, sbr. svör fólksins.
  • 57% voru konur og 43% voru karlar.
  • 68% voru með íslenskt ríkisfang, 32% með erlent, þar af 24% með pólskt ríkisfang.
  • Fjölmennustu aldurshóparnir voru 30–39 ára og 40–49 ára, 2% voru undir tvítugu og 8% yfir 60 ára.
  • Einhleypir voru 67% hópsins og giftir 36%.
  • 74% búa í leiguhúsnæði og 19% í eigin húsnæði.
  • 85% þeirra sem eru foreldrar (80% heildarhópsins) eiga barn eða börn yngri en 18 ára, en tæpur helmingur hefur grunnskólapróf/gagnfræðapróf eða minni formlega menntun, 41% hefur lokið framhaldsskóla og 9% háskólaprófi.
  • 44% eru án atvinnu, 38% eru öryrkjar og 7% í launaðri vinnu.
  • 44% hafa 150.000 krónur í tekjur eða minna, 34% hafa á bilinu 150–199.000 krónur og 22% hafa 200.000 krónur eða meira í tekjur á mánuði.

Umræður:

  • Athygli vekur hve barnafjöldinn er mikill og hve lágar tekjur fólkið hefur.
  • Neysluviðmið verða kynnt innan skamms og munu þau án efa hafa áhrif á framhald umræðna og ákvarðanir stjórnvalda og hagsmunasamtaka á næstu misserum og mun velferðarvaktin fara vel yfir þau. Velferðarvaktin ætti að beita sér fyrir hækkun lægstu launa.
  • Mikilvægt er að efla alla endurhæfingu og auka tækifæri fólks til að bæta lífskjör sín á eigin forsendum. Aldrei hafa jafnmiklir fjármunir verið settir í verkefni sem lúta að endurhæfingu, en þrátt fyrir það sækir fólk námskeiðin ekki nógu vel og þarf að finna réttar aðferðir til að ná til fólks með áherslu á að styrkja almenna kerfið.
  • Er þörf á sérstökum húsnæðisbótum?
  • Hvar standa áform stjórnvalda um sérstakar barnatryggingar?
  • Ekki má framlengja neyðaraðstoðina sem hjálparsamtökin veita og gera hana að varanlegum þætti í framfærslu heimilanna.
  • Geta hjálparsamtökin breytt vinnulagi sínu; er hugsanlegt að leggja matargjafirnar niður og taka upp kort? Ljóst er að ýmsir þeirra sem gefa mat eru ekki reiðubúnir til að styrkja fátæka með öðrum hætti. Þörf er á samræmingu hjá hjálparsamtökunum og horfa verður til einstaklingsmiðaðrar vinnu og hugsanlegrar verkaskiptingar milli samtakanna.
  • Dæmi um aðgerðir sem skila sér vel er að 87% grunnskólabarna fá mat í skólunum og langflestir standa í skilum (100 fjölskyldur í Reykjavík eru í vanskilum vegna matarkorta barnanna).
  • Lýst var yfir áhyggjum af tannheilsu barna og greint frá 150 milljóna króna sjóði á vegum velferðarráðuneytisins sem er ætlaður til að styrkja fátækar og félagslega illa staddar fjölskyldur við að greiða fyrir tannviðgerðir barna.

2. Neysluviðmið.
Sigríður Jónsdóttir kynnti vinnu sem fram fer á vegum velferðarráðuneytisins við setningu neysluviðmiða, en sérfræðingar frá Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands vinna að þessu verkefni sem verður kynnt í heild sinni um næstu mánaðamót. Stuðst er við rannsóknir Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna í þeim flokkum þar sem útgjöld eru strjál en einnig er stuðst við önnur gögn. Notaðir eru 15 undirflokkar, meðal annars matur og aðrar dagvörur heimila, föt, heimilisbúnaður, lyf og heilbrigðisþjónusta. Fyrir hvern útgjaldalið er prófað hver séu áhrif fjölskyldustærðar á miðgildi útgjaldanna og hvort stærðarhagkvæmni sé til staðar. Einnig er kannað hvort búseta hafi marktæk áhrif á útgjöld. Gert er ráð fyrir þrenns konar viðmiðum: Hóflegu neysluviðmiði, skammtímaviðmiði og langtímaviðmiði.

Fulltrúi ASÍ í velferðarvaktinni minnti á að gert hafi verið ráð fyrir að neysluviðmiðin lægju fyrir um miðjan desember og brýnt væri að þau yrðu birt sem allra fyrst þar sem kjarasamningsviðræður eru framundan.

Sjá má nánar um gerð neysluviðmiðanna í frétt á heimasíðu velferðarráðuneytisins.**

Fundagerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

* http://www.velferdarraduneyti.is/rit-og-skyrslur-vel/nr/32519
** http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/32557

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum