Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2011 Dómsmálaráðuneytið

Skyndihjálparmenn heiðraðir á 112-deginum

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra tók þátt í 112-deginum síðastliðinn föstudag þegar hann kynnti ásamt Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra frumniðurstöður þjóðfundar um öryggis- og neyðarþjónustu sem haldinn var í tilefni dagsins.

Margir fengu viðurkenningar á 112-deginum
Margir fengu viðurkenningar á 112-deginum

Neyðarlínan og samstarfsaðilar 112-dagsins efndu til dagskrár föstudaginn 11. febrúar en 112-dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í nokkur ár. Tilgangur dagsins er að vekja athygli á starfi neyðar- og björgunaraðila og heiðra þá sem hafa unnið gott starf á sviði björgunar og viðbragða á neyðarstundu. Ögmundur sagði starf björgunar- og viðbragðsaðila hvort sem þeir væru launaðir eða í sjálfboðastarfi afar þýðingarmikið og að það skipti iðulega sköpum þegar vá væri annars vegar. Þeir spyrðu ekki hvort væri dagur eða nótt eða gott eða vont veður, þegar útkall kæmi væru viðbrögð þeirra tafarlaus.

Ráðherrar skýra frá niðurstöðum fundar um björgunarmál á 112-deginum.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ólafur Guðnason hlaut viðurkenninguna skyndihjálparmaður Rauða krossins 2010 sem veitt var í tíunda sinn. Ólafur bjargaði lífi sonar síns, Ólafs Diðriks, þegar bíll þeirra valt á Jökuldalsheiði í fyrrasumar. Eru rétt viðbrögð Ólafs við að stöðva miklar blæðingar og hlúa að Ólafi yngra talin hafa bjargað lífi hans. Þá voru afhent verðlaun í eldvarnagetrauninni 2010 og neyðarverði 112 veitt niðurkenning en hana hlaut Ármann Gestsson, aðstoðarvarðstjóri 112.

Sex aðrir einstaklingar hljóta einnig viðurkenningar hjá deildum Rauða krossins fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt. Þeir eru Ágúst Þorbjörnsson fyrir endurlífgun á félaga sínum sem starfar í næsta húsi við vélsmiðju hans á Hvammstanga; Sæþór Þorbergsson fyrir endurlífgun á gesti sem fór í hjartastopp í líkamsræktarstöð á Stykkishólmi; Erna Björg Gylfadóttir fyrir endurlífgun á systur sinni ásamt vinnufélögum í HB Granda á Akranesi; Borghildur Sverrisdóttir í Hafnarfirði fyrir að losa aðskotahlut úr hálsi á föður síns í sumarbústaðaferð fjölskyldunnar; Alfreð Gústaf Maríusson fyrir að endurlífga samstarfsmann sinn í grunnskóla í Hafnarfirði; og Benedikt Gröndal, einnig í Hafnarfirði, fyrir að losa aðskotahlut úr hálsi sonar síns.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum