Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 29/2010. Úrskurður kærunefndar útboðsmála

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 14. febrúar 2011

í máli nr. 29/2010:

Sólvellir ses.

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Með bréfi, dags. 23. nóvember 2010, kæra Sólvellir ses. þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að telja Umönnun ses. hæfan aðila til að taka þátt í útboði um hjúkrunarheimili á Völlum 7. Í kæru eru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Þess er krafist að sú ákvörðun varnaraðila að telja tilboð Umönnunar ses. fullnægjandi í forvalinu Hjúkrunarheimili á Völlum 7 sem opnað var á fundi þann 7. september 2010 verði felld úr gildi og úrskurðað að tilboð Umönnunar ses. hafi verið ólögmætt.

Þá er þess krafist að nefndin geri varnaraðila að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.“

      Kærði, Hafnarfjarðarbær, skilaði athugasemdum vegna kröfu kæranda, dags. 8. desember 2010, þar sem hann krefst þess að umþrætt ákvörðun verði staðfest og hafnað verði kröfu kæranda um greiðslu kostnaðar við að hafa kæruna uppi. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust kærunefnd útboðsmála 14. janúar 2011.

       Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða eru dagsettar 13. desember 2010 og síðari athugasemdir 4. febrúar 2011.

       Athugasemdir Umönnunar ses. vegna kærunnar eru dagsettar 16. desember 2010 og síðari athugasemdir 3. febrúar 2011.

 

I.

Kærði óskaði 12. júlí 2010 eftir umsóknum sjálfseignarstofnunar eða félags með staðfesta skipulagsskrá til að sjá um hönnun, byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis á Völlum 7. Skilafrestur til að skila inn gögnum var til 24. ágúst 2010, sem síðar var framlengdur til 7. september sama ár. Fjórir aðilar skiluðu inn umsóknum og á fundi starfshóps um hjúkrunarheimili á Völlum var farið yfir umsóknirnar og var niðurstaðan að tveir aðilar teldust uppfylla kröfur forvalsins, það er kærandi og Umönnun ses. Þar sem einvörðungu tveir umsækjendur uppfylltu lágmarkskröfur forvalsins var ekki farið í sérstakt hæfnismat á þeim umsækjendum samkvæmt 6. lið í forvalsgögnum.

       Þremur fyrirtækjum var boðið að bjóða í vinnu við gerð útboðsgagna vegna verkefnisins og voru tilboð opnuð 22. júlí 2010. Verkþjónusta Kristjáns ehf. hlaut verkið og hófu starfsmenn félagsins vinnu við gerð útboðsgagna í ágúst sama ár.

       Kærða barst 18. október 2010 tölvupóstur frá starfsmanni Verkíss hf., samstarfsaðila Umönnunar ses. í útboðinu, þar sem gerð var grein fyrir tengslum Verkíss hf. og Verkþjónustu Kristjáns ehf. Voru fyrirsvarsmenn kærða og Umönnunar ses. í framhaldinu boðaðir á fund, þar sem skýrt var frá því að einn eigenda Verkþjónustu Kristjáns ehf. væri Verkís hf. Á fundinum kom ennfremur fram að gerð útboðsgagna væri því sem næst lokið og að verkfræðiþátturinn væri tilbúinn. Fulltrúar kærða greindu frá því að ekki væri vilji til þess að halda málinu áfram nema tryggt yrði að aðilar gerðu ekki athugasemdir við þessa stöðu. Nefnt var að aðilar þyrftu þá að undirrita yfirlýsingu þar um, þó ekki væri farið fram á að slík yfirlýsing yrði undirrituð á þessum fundi.

           

II.

Kærandi byggir á því að tengsl Umönnunar ses. við aðalhönnuð útboðsgagna séu með slíkum hætti að ekki sé löglegt að telja félagið hæfan aðila til að taka þátt í útboði vegna verksins. Byggt sé á því að aðkoma Verkíss hf. að boði Umönnunar ses. leiði til þess að setja verði Umönnun ses. undir sömu mælistiku og gilda myndi um Verkís hf. sem bjóðanda. Verkís hf. sé eigandi 95% hlutafjár í Verkþjónustu Kristjáns ehf. sem annist hönnun útboðsgagna fyrir kærða. Augljóst sé að Verkís hf. og þar með Umönnun ses. geti hvenær sem er í krafti eignarhalds Verkíss hf. á Verkþjónustu Kristjáns ehf. fengið þær upplýsingar sem þeir vilja frá Verkþjónustu Kristjáns ehf. Kærandi telur því ekki annað hægt en að líta á Verkís hf. og Verkþjónustu Kristjáns ehf. sem einn og sama aðilann.

       Kærandi telur að engu skipti hvort sömu starfsmenn þessara tveggja félaga hafi komið að verkefnunum. Um slík tengsl sé að ræða að við blasi að jafnræði kæranda og Umönnunar ses. sé ekkert. Engu breyti þó nýr aðili verði fenginn til að hanna gögnin því Verkís hf. hafi starfað það náið með kærða að það samstarf verði ekki afmáð eða lagað eftir á. Kærandi leggur áherslu á að eina leiðin til að tryggja að ekki sé brotið á rétti kæranda sé að meina Verkís hf. og þar með Umönnun ses. aðild að útboði þessu. Ekki nægi að Umönnun ses. fái annan samstarfsaðila, þar sem vinna hafi nú verið í gangi í marga mánuði undir þessu vanhæfisástandi með tilheyrandi ójafnræði gagnvart kæranda sem ekki verði lagfært. Telur kærandi að líta verði svo á að Umönnun ses. hafi gert mistök með því að velja aðaleiganda nánasta samstarfsaðila kærða við gerð hönnunargagna í sinn hóp. Þeim mistökum beri Umönnun ses. ábyrgð á og því hafi verið rangt af hálfu kærða að meta Umönnun ses. hæfa í forvalinu sem fram fór síðastliðið haust.

       Að mati kæranda er um eina ríkustu grundvallarreglu útboðsréttar að ræða, sbr. 1. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Megintilgangur laganna sé að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup. Þessi regla sé einnig áréttuð í 14. gr. laganna.

       Kærandi bendir á að á því sé byggt að samstarfsaðilar umsækjenda í forvali skuli teljast til aðila að tilboði og þannig bera sameiginlega ábyrgð á efndum samnings. Þessu til stuðnings vísar hann til þess að ekki hafi verið talið ganga af hálfu kærða að sami samstarfsaðili starfaði með fleiri en einum umsækjanda. Því beri að líta á Verkís hf. sem einn bjóðenda við mat á hæfi aðila. Er í þessum efnum vísað til ákvæða 2. mgr. 46. gr. laga nr. 84/2007, sbr. 2. ml. 1. mgr. 79. gr. laganna, en umfang útboðsins sé slíkt að það falli undir 3. þátt laganna. Af 79. gr. laganna leiði að ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB, sbr. 24. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 84/2007, eigi við í þessu tilviki. Er því vísað til 8. tl. í inngangskafla tilskipunar, þar sem fram komi að ráðgjöf við gerð útboðsskilmála geti hindrað samkeppni gæti menn ekki að sér. Telur kærandi með vísan til þessarar stöðu að tilboð Umönnunar ses. geti aldrei talist gilt tilboð í skilningi 71. gr. laganna.

       Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða er bent á að það séu ekki tæk sjónarmið, að máli skipti hve margir hæfir bjóðendur séu eftir, þegar afstaða hefur verið tekin til þess hvort Umönnun ses. hafi átt að teljast hæfur aðili eða ekki. Annað hvort hafi það verið rangt að samþykkja Umönnun ses. sem hæfan aðila eða ekki. Túlkun laganna hljóti að vera sú sama hvort sem aðrir aðilar séu einn eða fleiri.

       Kærandi leggur áherslu á að forval sé einungis aðferð til að þrengja hóp þeirra sem fengu að taka þátt í fyrirhuguðu útboði. Þannig skipti það engu máli hvort Verkþjónusta Kristjáns ehf. hafi átt aðkomu að forvali eða ekki. Málið snúist um það hvort jafnræðis hafi verið gætt í útboðinu.

       Kærandi telur ekki unnt að leggja til grundvallar upplýsingar frá Umönnun ses., Verkís hf. eða Verkþjónustu Kristjáns ehf. um það hver séu raunveruleg tengsl þessara aðila. Sönnunarstaða kæranda sé erfið ef ætlast eigi til þess að sannað verði að óeðlileg samskipti hafi átt sér stað á milli þessara aðila. Slík sönnunarkrafa myndi leiða til þess að tilgangi laganna um jafnræði yrði ekki náð. Telur kærandi að leggja verði til grundvallar þá hlutlægu stöðu sem sé uppi í þessu máli.

       Kærandi leggur áherslu á að útboðsgögn séu grundvallargögn í hverju útboði. Þau eigi að vera hlutlæg og upplýsingar aðila eigi að jafnaði að takmarkast við það sem þar komi fram. Í öllu falli eigi aðilar að hafa jafna stöðu við mat á því af hverju útboðsgögn séu eins og þau eru. Við gerð útboðsgagna hafi því ekki aðeins verið teknar ákvarðanir um af hverju gögnin séu eins og þau eru heldur hafi einnig verið teknar ákvarðanir um hvað skuli ekki vera þar inni. Hafi einn bjóðandi í útboði unnið útboðsgögn með verkkaupa halli á aðra bjóðendur. Telur kærandi slíka stöðu vera uppi í máli þessu.

       Kærandi mótmælir fullyrðingum kærða um að útilokun annars bjóðanda af tveimur í forvali sé til þess fallin að ganga gegn tilgangi laga nr. 84/2007. Telur kærandi að samþjöppun á eignarhaldi fyrirtækja eigi ekki að hafa áhrif í máli þessu. Fyrir liggi að Verkís hf. hafi verið 95% eigandi Verkþjónustu Kristjáns ehf. löngu áður en þessi ferill hafi hafist og því sé ekki um stöðu að ræða sem hafi komið upp vegna kaupa Verkíss hf. á hlutanum í Verkþjónustu Kristjáns ehf. á meðan á tilboðsferli hafi staðið.

       Í síðari athugasemdum sínum bendir kærandi á að ef lögð verði blessun yfir þá háttsemi að aðalráðgjafi sé einnig bjóðandi náist ekki tilgangur laga um útboð vegna opinberra framkvæmda. Aðilar geti þá látið dótturfélag sitt, ráðgjafa, bjóða lágt í þann hluta til að tryggja yfirburðastöðu í sjálfu útboðinu.

       Kærandi telur þarft að ítreka að útboðið snúi ekki eingöngu að byggingu fasteignar heldur rekstri til langs tíma á þjónustu. Hugmyndafræðin skipti miklu máli og við mat á henni hljóti huglægt mat að ráða. Sú staða sé komin upp að sá hópur sem standi að tilboði Umönnunar ses. hafi innan sinna raða vitneskju um það af hverju útboðsgögn séu eins og þau séu og umfram allt hvaða sjónarmið kærði hafi lagt til grundvallar mörgum smáum ákvörðunum um að hafa eitthvað inni í útboðsgögnum eða hafa ekki. Eina leiðin til að tryggja jafnræði sé að tryggja að sami aðili komi ekki að svona mikilvægum lið í ráðgjöf eins og gerð útboðsgagna sé og sé þátttakandi í útboði.

       Kærandi leggur áherslu á að skilja megi málatilbúnað Umönnunar ses. á þann veg að það sé kæranda að sanna að sú ójafna staða sem uppi sé sé líkleg til að verða eða hafi verið misnotuð af Umönnun ses. Slík sönnun sé hins vegar ómöguleg og því verði að gera ákveðnar formkröfur.

      

III.

Kærði telur að hafna beri kröfu kæranda þar sem ekki hafi verið leiddar líkur að því að Umönnun ses. hafi öðlast nokkuð slíkt forskot við meðferð máls að raskað geti jafnræði milli bjóðenda í skilningi 14. gr. laga nr. 84/2007.

       Kærði byggir á því að Verkþjónusta Kristjáns ehf. hafi enga aðkomu átt að forvali vegna útboðsins og þegar af þeirri ástæðu sé ekki unnt að verða við kröfu kæranda. Ekkert í tengslum við gerð forvalsgagna eða ákvarðanatöku í forvalinu hafi getað leitt til þess að kærða hafi borið að hafna umsókn Umönnunar ses.

       Kærði bendir á að tengsl Verkþjónustu Kristjáns ehf. við Umönnun ses., bjóðanda í verkið, séu engin. Verkþjónusta Kristjáns ehf. sé sjálfstæður lögaðili með eigin kennitölu sem tengist samstarfsaðila bjóðanda, Verkís hf., í gegnum eignarhald. Ekki hafi verið sýnt fram á að starfsmenn Verkþjónustu Kristjáns ehf. eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta að Umönnun ses. fái verk það sem um ræði. Þáttur Verkíss hf., sem ekki sé bjóðandi heldur samstarfsaðili bjóðanda, í því tilboði sem um ræði taki til verkfræðihluta verksins og gera megi ráð fyrir að aðkoma þeirra í tilboði bjóðanda taki til að hámarki 5-8% af heildarumfangi þess. Það sé því ljóst að Verkþjónusta Kristjáns ehf. sé ekki bjóðandi í það verk sem um ræði heldur sé fyrirtækið tengt félagi sem sé samstarfsaðili og eigi tiltölulega lítinn þátt í tilboði bjóðanda, Umönnunar ses.

       Þá vísar kærði til þess að vandséð sé með hvaða hætti sú vinna sem unnin hafi verið af starfsmönnum Verkþjónustu Kristjáns ehf. geti raskað jafnvægi milli bjóðenda þegar að því komi að bjóða verkið út og meta umsóknir þeirra tveggja umsækjenda sem taldir hafi verið hæfir í forvali. Kærði leggur áherslu á að þegar í ljós hafi komið að ákveðin tengsl væru milli Verkíss hf. og Verkþjónustu Kristjáns ehf. hafi verið ákveðið að hafa samband við bjóðendur og upplýsa um þau tengsl. Starfsmenn félagsins hafi unnið drög að útboðslýsingu og muni ekki koma frekar að málinu fyrir hönd verkkaupa.

       Loks telur kærði rétt að benda á að útilokun annars bjóðanda af tveimur samkvæmt forvali á svo veikum grunni, á tímum þar sem þó nokkur samþjöppun á eignarhaldi fyrirtækja sé staðreynd, meðal annars vegna efnahagsástandsins, sé í reynd til þess fallin að ganga gegn tilgangi laga nr. 84/2007. Að einn bjóðandi sitji eftir í lokuðu útboði vegna jafn viðamikils verkefnis eins og um sé að ræða sé ekki til þess fallið að stuðla að virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hjá hinu opinbera.

       Kærði mótmælir sem rangri fullyrðingu kæranda um að aðalráðgjafi kærða sé einnig bjóðandi í verkið. Verkþjónusta Kristjáns ehf. sé ekki bjóðandi í verk það sem um ræði og tengsl félagsins og bjóðanda, Umönunar ses., séu engin. Mál þetta snúist um tengsl Verkþjónustu Kristjáns ehf. við samstarfsaðila bjóðanda, Verkís hf., vegna afmarkaðs þáttar í framkvæmdinni eða nánar tiltekið verkfræðihluta verksins sem sé að algjöru hámarki 5-8% af heildarumfangi þess.

       Kærði telur nauðsynlegt að árétta að útboð hafi ekki farið fram og útboðsgögn liggi ekki fyrir vegna byggingar og reksturs hjúkrunarheimilis að Völlum 7. Verkþjónusta Kristjáns ehf. hafi unnið drög að útboðsgögnum en vegna þeirrar stöðu sem sé komin upp muni félagið ekki koma meira að þeirri vinnu. Þá sé enn sá möguleiki fyrir hendi að vinna ný útboðsgögn á nýjum grunni.

       Kærði bendir á að í athugasemdum kæranda sé sérstaklega vikið að hugmyndafræðihluta útboðsins. Í því sambandi sé rétt að vekja athygli á að í drögum útboðsgagna sé fjallað um þjónustu við heimilsmenn og hugmyndafræði í kafla 2.7. Þessi kafli hafi í samráði við félags- og tryggingamálaráðuneytið verið tekinn úr gögnum Ríkiskaupa „Rekstur hjúkrunarheimilis að Suðurlandsbraut 66, verkefni nr. 14802“ frá febrúar 2010. Ekkert úr forvalsgögnum hafi verið notað í þennan hluta útboðsgagna og það sé útilokað að þær almennu og hlutlægu upplýsingar sem þar komi fram geti veitt öðrum aðila forskot í fyrirhuguðu útboði vegna verksins. 

 

IV.

Umönnun ses. bendir á að kröfugerð kæranda virðist lúta að því að félagið sé vanhæft sökum tengsla við ráðgjafa verkkaupa til að komast í gegnum forval umrædds verkefnis. Telur Umönnun ses. að tengsl aðila skipti ekki máli nema þau leiði til forskots eins aðila. Það eitt og sér að tenging sé til staðar milli ráðgjafa verkkaupa og þátttakanda í útboðsferli sé ekki nægjanlegt til að líta svo á að jafnræði aðila hafi verið skert. Kröfugerð kæranda lúti hins vegar hvorki að því að umsókn Umönnunar ses. kunni að hafa verið annmörkum háð né að væntanlegt tilboð Umönnunar ses. í verkefninu kunni að verða annmörkum háð.

       Af hálfu Umönnunar ses. er á því byggt að mat á hæfni félagsins í forvalinu hafi verið byggt hlutlaust á staðreyndum sem lagðar hafi verið fram, t.a.m. ársreikningum o.fl. Mögulegt forskot myndi því ekki breyta nokkru um hæfismat nokkurra umsækjenda í forvalinu.

       Þar sem kærandi hafi ekki reynt að gera það líklegt að Umönnun ses. uppfylli ekki hæfniskröfur forvalsins snúist álitaefnið um það hvort félagið hafi fengið forskot í forvalinu. Telur Umönnun ses. að kærandi verði þá að gera það líklegt að hið meinta forskot Umönnunar ses. hafi haft úrslitaáhrif á það hvort Umönnun ses. hafi verið metið hæft til þátttöku, hvort sem félagið hafi haft forskot eða ekki. Er vísað til samstarfsaðila Umönnunar ses., sem allt eru reyndir aðilar á sínu sviði, því til stuðnings. Telur Umönnun ses. því að sönnunarbyrði um annað hvíli á kæranda. Niðurstaðan sé einfaldlega sú að Umönnun ses. sé hæft til að bjóða í verkefni af þeirri gerð og stærðargráðu sem umrætt verkefni sé.

Lögð er áhersla á að Verkþjónusta Kristjáns ehf. hafi ekki á nokkurn hátt komið að forvalinu, hvorki við gerð forvalsgagna né með því að gefa leiðbeiningar um það hvernig meta skuli hæfi umsækjenda. Við valið sjálft sé því ekki nokkur möguleiki á að Umönnun ses. hafi haft forskot. Fyrir liggi að Verkþjónusta Kristjáns ehf. hafi ekki og muni ekki fá gögn Umönnunar ses. í hendur, hvað þá að félaginu hafi verið eða verði falið að leggja nokkuð mat á umsókn eða tilboð Umönnunar ses., hvorki huglægt mat né hlutlægt. Því séu engin tengsl til staðar sem hafi getað haft áhrif á val umsækjenda.

Umönnun ses. bendir því á að hið meinta forskot Umönnunar ses. hefði ekki breytt nokkru um hæfnismat á félaginu. Forskot hefði heldur ekki breytt nokkru um gerð umsóknar. Þá sé ómögulegt með öllu að félagið hafi haft forskot við val umsækjenda. Umönnun ses. hafi því ekki haft neitt forskot í forvali og því hafi ekki verið brotið á jafnræði aðila. Forvalið hafi farið fram með lögmætum hætti og beri því að hafna kröfu kæranda.

Þá telur Umönnun ses. að þar sem að tilboðsgerð sé ekki komið sé ótækt að úrskurða um það á þessu stigi hvort félagið kunni að hafa forskot við tilboðsgerð, sem kæra kæranda virðist einnig snúast um. Engu að síður telur Umönnun ses. ljóst að félagið muni ekki hafa neitt forskot við tilboðsgerð.

Af hálfu Umönnunar ses. er á það bent að síðari athugasemdir kæranda gangi út á það að Umönnun ses. kunni að vita af hverju útboðsgögnin séu eins og þau séu. Í fyrsta lagi sé enginn rökstuðningur að baki því hvernig sú vitneskja geti hagnast Umönnun ses. og í öðru lagi liggi ekki fyrir að þessi útboðsgögn verði notuð í væntanlegu útboði. Skýrt skuli engu að síður tekið fram að engin samskipti hafi farið fram á milli Verkþjónustu Kristjáns ehf. og Verkíss hf. um þetta verkefni. Um leið og það hafi uppgötvast að þessi fyrirtæki hafi unnið að tengdum verkefnum hafi verkkaupanum verið tilkynnt um það. Kveður Umönnun ses. að sú tilkynning hafi komið fram áður en nokkur skaði hafi verið skeður. Verkkaupinn hafi öll tök á að leiðrétta það sem kærunefndin telji þurfa að leiðrétta svo að bjóðendum sé ekki mismunað.

 

V.

Eins og málið hefur verið lagt upp fyrir kærunefnd útboðsmála lýtur ágreiningur aðila að því hvort kærða hafi verið óheimilt að velja Umönnun ses. sem annan tveggja bjóðenda í forvali vegna byggingar og reksturs hjúkrunarheimilis á Völlum 7. Umönnun ses. sé vanhæf til frekari þátttöku vegna tengsla Verkíss hf., sem sér um verkfræðihlutann í tilboði Umönnunar ses., og Verkþjónustu Kristjáns ehf., sem hafi verið valin til þess að sjá um gerð útboðsgagna. Verkþjónusta Kristjáns ehf. hafi hafið slíka vinnu í ágúst 2010 og nú liggi fyrir drög að útboðsgögnum.

       Í 1. gr. laga nr. 84/2007 segir að tilgangur laganna sé meðal annars að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup. Nánar er kveðið á um jafnræði fyrirtækja við gerð samninga í 14. gr. laganna. Af þessum reglum má ráða að jafnræði fyrirtækja er grundvallarregla við framkvæmd opinberra innkaupa. Flestar reglur laga nr. 84/2007 eiga þannig að tryggja jafnræði þátttakenda og bjóðenda, ekki síst með ákvæðum um aðgang fyrirtækja að upplýsingum og öðrum reglum sem stuðla eiga að gagnsæi. Að baki þessum ákvæðum stendur svo hin almenna jafnræðisregla 14. gr. laga nr. 84/2007, sem getur haft sjálfstæða þýðingu við úrlausn um lögmæti ákvarðana kaupanda.

       Ljóst er að almennt getur aðili sem aðstoðað hefur við gerð útboðsgagna ekki tekið þátt í útboði án þess að með því sé um leið brotið gegn jafnræði bjóðenda. Líta verður á Verkþjónustu Kristjáns ehf. og Verkís hf. sem nátengda aðila. Síðara félagið á 95% hlut í hinu fyrra. Þá eru allir stjórnarmenn í Verkþjónustu Kristjáns ehf. starfsmenn Verkíss hf. Ekki verður því hjá því komist að telja að um náin tengsl sé að ræða. Ennfremur ber að líta til þess að þegar ákvörðun var tekin um hvaða tilboð teldust fullnægjandi í forvalinu lágu umrædd tengsl fyrir og bar kærða því að meta tilboð Umönnunar ses. ógilt.

Þótt Verkís hf. sé ekki eiginlegur bjóðandi í verkið er félaginu ætlað að sjá um allan verkfræðihluta fyrir Umönnun ses. Verður því að líta svo á að hér sé uppi sú staða að félag, sem er nátengt einum þátttakanda í útboði, hafi séð um gerð útboðsgagna í þessu sama útboði. Ljóst er að tengsl aðila eru slík að þau skapi verulega hættu á að jafnræði bjóðenda verði raskað. Verður af þeim sökum að fallast á kröfu kæranda og fella úr gildi ákvörðun kærða um að telja tilboð Umönnunar ses. fullnægjandi í forvalinu „Hjúkrunarheimili á Völlum 7“, sem opnað var á fundi 7. september 2010.

Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af úrslitum málsins verður kærða gert að greiða honum 350.000 krónur í málskostnað.

 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun kærða um að telja tilboð Umönnunar ses. fullnægjandi í forvalinu „Hjúkrunarheimili á Völlum 7“.

Kærði, Hafnarfjarðarbær, greiði kæranda, Sólvöllum ses., 350.000 krónur vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi.

 

                   Reykjavík, 14. febrúar 2011.

 

Páll Sigurðsson,

        Inga Hersteinsdóttir,

Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík,



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum