Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Vísbendingar um að alþjóðlegir glæpahringir séu að skjóta rótum á Íslandi

Vísbendingar eru um að alþjóðlegir glæpahringir séu að skjóta rótum hérlendis, lögreglan telur að íslenskt vélhjólagengi fái brátt stöðu fullgildrar deildar innan Hells Angels samtakanna og innanríkisráðherra undirbýr frumvarp til að rýmka heimildir lögreglunnar til að til að hefja rannsókn að undangengnum dómsúrskurði á grundvelli gruns um glæpsamlega starfsemi.

Innanríkisráðherra á blaðamannafundi um skipulagða glæpastarfsemi
Innanríkisráðherra á blaðamannafundi um skipulagða glæpastarfsemi

Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi innanríkisráðherra með ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum í Suðurnesjum, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og tollstjóra sem ráðherra boðaði til síðdegis í dag. Til fundarins er boðað í framhaldi af umræðu utan dagskrár á Alþingi í gær og til að greina frá því að hert verður barátta yfirvalda til að sporna við því að skipulögð glæpastarfsemi nái að skjóta rótum hér á landi.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hóf fundinn á því að segja að vísbendingar væru um að alvarleg og skipulögð glæpastarfsemi væri að færast í vöxt hér á landi og að við því yrði brugðist af fullri alvöru. Það yrði ekki liðið að slík starfsemi næði að festa hér rætur. Ráðherra sagði að meðal aðgerða yfirvalda væri að styrkja heimildir lögreglu til að hefja á grundvelli dómsúrskurðar rannsóknir á einstökum hópum strax og grunur kæmi upp um glæpsamlega starfsemi. Hann sagði brýnt að efla getu samfélagsins til að sporna við slíkri starfsemi og að ráðist yrði í tímabundið átak við rannsóknir lögreglu á skipulagðri brotastarfsemi sem unnin yrði í nánu samstarfi við erlend löggæsluyfirvöld.

Innanríkisráðherra á blaðamannafundi um skipulagða glæpastarfsemi

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði stuðning ráðherra og ríkisstjórnarinnar mikilvægan til að styrkja starfsumhverfi lögreglunnar. Hann minnti á að lögreglan hefði ekki setið aðgerðalaus og hún ætti víðtækt samstarf við fjölmarga aðila bæði innan lands og utan í því skyni að afla upplýsinga og vísbendinga um hvar skipulögð glæpastarfsemi gæti verið að skjóta niður rótum. Undir það tók Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, og sagði lögregluna hafa sett fram aðgerðaáætlun sem unnið væri eftir. Nefndi hún að á síðustu árum hefði 77 manns verið vísað frá landinu vegna gruns um aðild að glæpsamlegri starfsemi. Einnig greindi hún frá því að skotvopn hefðu í tveimur tilvikum fundist við húsleitir hér á landi við rannsókn á afbrotamálum.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, minnti einnig á að lögreglan hefði árum saman unnið víðtækt starf til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi og sagði hann samvinnu við almenning mikilvæga á því sviði. Baráttan væri ekki einkamál lögreglunnar, þetta væri samfélagslegt vandamál sem allir yrðu að sameinast um að spyrna á móti.

Snorri Olsen tollstjóri sagði nauðsynlegt að taka skipulega glæpastarfsemi föstum tökum til að sporna gegn því að slíkir hópar næðu hér fótfestu. Ýmislegt benti til að slíkt væri að gerast og þjóðin yrði að sameinast í þeirri baráttu.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira