Hoppa yfir valmynd
15. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 15. mars 2011

Fundargerð 47. fundar, haldinn hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Borgatúni 30, Rvk.
þriðjudaginn 15. mars 2011, kl. 14.00–16.00.

Mætt: Einar Jón Ólafsson tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Eiríkur Jónsson tiln. af KÍ, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln af Samtökum atvinnulífsins, Gyða Hjartardóttir varamaður Gunnars Rafns Sigurbjörnssonar tiln af Sambandi ísl. sveitarfélaga,  Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ,  Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln af menntamálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir tiln. af ASÍ,  Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, tiln. af félags- og tryggingamálaráðherra, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir, sem stýrði fundi í fjarveru formanns.

Fundinn sat einnig  Hjalti Halldórsson lögfræðingur hjá Umboðsmanni skuldara.

Nýr fulltrúi innanríkisráðuneytis Alexandra Þórlindsdóttir var boðin velkomin í hópinn

1. Fundargerðir
Fundargerð 46. fundar var samþykkt

2. Starfsemi smálánafyrirtækja
Í efnahags- og viðskiptaráðuneyti er í undirbúningi löggjöf um starfsemi smálánafyrirtækja, en  starfsemin hefur verið gagnrýnd m.a. vegna þess að  þar saman fari ágeng markaðssetning og óhófleg ávinningsvon lánveitanda. Ráðuneytið hefur óskað eftir sjónarmiðum velferðarvaktarinnar í þessu máli.  Hjalti Halldórsson (HH) flutti inngangsorð um smálánafyrirtækin:  Þessi lán eru afar aðgengileg og fljótafgreidd.  Hámark lánanna eru 40 þús. á einstakling og gæti par verið með 80 þúsund króna skuld, eða 160 þúsund ef lán eru tekin hjá báðum fyrirtækjunum. Vegna hárra vaxta (allt að 600%) verður lág fjárhæð fljótt að hárri skuld en talað sé um kostnað en ekki þóknun. Í dag sé ekkert í íslenskri löggjöf sem bannar þetta. HH telur að sömu sjónarmið um neytendavernd eigi að ríkja gagnvart þessum lánum og öðrum lánum, það er að vernda skuldara fyrir svindli. Hann telur að ef Neytendastofa myndi rýna í starfsemi smálánafyrirtækjanna þá „stæði ekki steinn yfir steini".

Í umræðum í framhaldi kom fram einhugur um að koma þyrfti í veg fyrir þessa starfsemi og var hugtakið okur nefnt í því sambandi. Þeir sem leita til smálánafyrirtækjanna eru að öllum líkindum fjölbreyttur og voru dæmi nefnd um ungt fólk sem losar sig út úr þessum viðjum en lendir strax aftur í höndum fyrirtækjanna. Hjá Hjálparstarfi kirkjunnar eru dæmi um fólk sem ekki hefur átt fyrir nauðsynjum svo sem lyfjum, mat og skólaferðum barna sem hafa tekið þessi lán. Félagsþjónustan í Reykjavík hefur orðið vör við að notendur þjónustunnar taki smálán. Fólkið er í miklum vanda svo sem vegna geðrænna erfiðleika og fíkniefnaneyslu. Einnig eru dæmi um að erlendir ríkisborgarar hafi tekið þessi lán; hugsanlega vegna vanþekkingar á skilmálunum. Almenna reglan í viðskiptum um að kalla eftir greiðslugetu/greiðslumati er brotin á þessum vettvangi og spurt var hvort skilmálarnir væru nógu skýrir til að viðkomandi geti tekið upplýsta ákvörðun um að taka lánin. 
IB óskaði eftir því við Félagsþjónustuna í Reykjavík (SKV), Hjálparstarf kirkjunnar (VO) og Öryrkjabandalagið (GÓ) að þau kanni sitt bakland og sendi upplýsingar um einstök dæmi þar sem fólk hafi tekið smálán og hafi lent í erfiðleikum með greiðslur. Síðan yrði efnahags- og viðskiptaráðuneytinu svarað

3.  Áfangaskýrslur vinnuhópanna
Minnt var á að skilafrestur áfangaskýrslna vinnuhópanna væri runninn upp.

3. Önnur mál
a)
Greint var frá  bréfum sem velferðarvaktin sendi með fyrirspurn um hagi og velferð þeirra barna sem áttu í erfiðleikum fyrir kreppu. Þrenns konar bréf voru send, til barnaverndarnefnda, til allra grunnskólanna og til allra  heilsugæslustöðvanna. Spurt var um eftirfarandi: Eru börn eða hópar barna sem bjuggu við alvarlegan vanda fyrir kreppu og standa enn verr í dag? Hver er vandinn og hvernig birtist hann? Til hvaða aðgerða ætti að grípa  til að bæta hag þessara barna?
b) Framundan er samstarfsfundur þar sem barnahópurinn mun býður stýrihópnum til umræðu og fræðslu um stöðu barna í dag.

Fundagerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum