Hoppa yfir valmynd
16. mars 2011 Dómsmálaráðuneytið

Endurskoða á löggjöf um ættleiðingar

Nýtt ættleiðingarráð, ný ættleiðingarnefnd, breiðari fagþekking í innanríkisráðuneyti og endurskoðuð verkaskipting stjórnvalda og löggiltra ættleiðingarfélaga er meðal tillagna í skýrslu um ættleiðingar á Íslandi sem kynnt var á morgunverðarfundi á vegum innanríkisráðuneytisins í dag.

Ættleiðingar á Íslandi voru til umræðu á morgunverðarfundi á vegum innanríkisráðuneytisins.
Ættleiðingar á Íslandi voru til umræðu á morgunverðarfundi á vegum innanríkisráðuneytisins.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði fundinn og sagði ýmsar ábendingar skýrslunnar gagnlegar sem nýtast myndu við endurmat á skipan ættleiðingarmála. Þá sagði hann ætlunina að endurskoða löggjöf um ættleiðingar.

Hrefna Friðriksdóttir, höfundur skýrslunnar, fór yfir helstu atriði hennar sem er meðal annars úttekt á löggjöf um ættleiðingar og framkvæmd ættleiðingarmála, samanburður við löggjöf annarra Norðurlandaþjóða og samanburður við ákvæði alþjóðasamninga. Hrefna vék að sérstöðu ættleiðinga barna milli landa og sagði meðal annars þróunina vera þá að fjöldi þeirra sem óskuðu eftir að ættleiða milli landa ykist á meðan sum upprunaríki hefðu takmarkað ættleiðingu milli landa og að börn sem þurfi á ættleiðingu að halda væru eldri og glímdu við ýmsar sérþarfir. Hrefna sagði að Ísland ætti áfram að stefna að samræmingu og nánu samstarfi við önnur Norðurlönd og meðal tillagna hennar til umbóta varað setja ætti á stofn nýtt 3-5 manna ættleiðingarráð sem hefði aðsetur í innanríkisráðuneytinu og að skipa ætti ættleiðingarnefnd sem hefði það hlutverk að meta hæfi umsækjenda og veita forsamþykki til ættleiðinga. Einnig sagði hún að skerpa þyrfti á hlutverkum löggilts ættleiðingarfélags.

Ættleiðingar á Íslandi voru til umræðu á morgunverðarfundi á vegum innanríkisráðuneytisins.

Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar, flutti erindi sem hann nefndi „Í upphafi var orðið – í tilefni af skýrslu um ættleiðingarlöggjöfina og framkvæmd ættleiðingarmála á Íslandi.“ Hann sagði margt gott í skýrslunni og brýndi stjórnvöld til að taka af meiri festu á þessum málaflokki.

Snjólaug Elín Sigurðardóttir, MA nemi og kjörforeldri, fjallaði um fjölskyldur ættleiddra barna af erlendum uppruna. Kynnti hún rannsókn sína á upplifun og reynslu kjörforeldra sem hafa ættleidd erlent barn hvað varðar undirbúningsfræðslu og viðeigandi stuðning og þjónustu. Fram kom í svörum að ánægja væri með skyldunámskeið Íslenskrar ættleiðingar en óskað var eftir meiri fræðslu á biðtíma og eftir heimkomu. Þá kom fram varðandi fagaðila að lítil kennsla væri um ættleiðingartengd málefni í grunnmenntun fagaðila.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum