Hoppa yfir valmynd
18. mars 2011 Dómsmálaráðuneytið

Lýðræðinu verði sýnd sú virðing sem því ber

Dómstólar og ákæruvaldið vilja að stjórnmálin sýni þeim tilhlýðilega virðingu. En á móti hljótum við, lýðræðislega kjörnir fulltrúar almannasjónarmiða, að ætlast til þess að á okkur sé einnig hlustað, að réttarkerfið sýni lýðræðinu þá  virðingu sem því ber, sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra meðal annars í ávarpi á fundi með ríkissaksóknara og Ákærendafélagi Íslands í dag.

Á fundinum var rætt um ákæruvaldið í nútíð og framtíð. Erindi fluttu Eiríkur Tómasson lagaprófessor, Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur vararíkissaksóknari, Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður og Símon Sigvaldason héraðsdómari. Meðferð efnahagsbrota þegar til framtíðar er litið var umfjöllunarefni þeirra Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, og Helga Magnúsar Gunnarssonar saksóknara.

Í ávarpi sínu ræddi innanríkisráðherra í upphafi um þau fordæmalausu verkefni sem ákæruvaldið hafi þurft að takast á við undanfarin misseri, einkum á sviði efnahagsbrota en ekki síður ofbeldisbrota. Gripið hefði verið til ákveðinna skipulags- og kerfisbreytinga og fleiri væru í farvatninu. Ákveðið hefði verið að sameina efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans og embætti sérstaks saksóknara og að bent hafi verið á að innan þriggja ára yrði búið að koma á fót nýrri rannsóknastofnun sem annist alla rannsókn og saksókn í alvarlegum, flóknum og umfangsmiklum fjármuna- og efnahagsbrotum.

Ein sterk stofnun

Ögmundur Jónasson kvaðst vera á þeirri skoðun að koma ætti á laggirnar einni sterkri stofnun sem taki yfir allar rannsóknir efnahagsbrota á víðtækum grundvelli. Rannsókna- og ákærumeðferð væri í dag sinnt hjá mörgum stofnunum og skipan mála í dag væri óhagkvæm og ógegnsæ. Sagði hann eindregin rök hníga að því að kerfið yrði tekið til gagngerrar endurskoðunar.

Þá gerði ráðherra kynferðisbrot að umtalsefni sem hann sagði að reyndu einna mest á allt réttarkerfið. Sagði hann ekki ríkja nægjanlegt traust til réttarkerfisins af hálfu fjölda brotaþola og samtaka sem mynduð hafi verið þeim til skjóls. Brýnt væri að taka á þeim vanda með réttsýni og sanngirni að leiðarljósi.

Um ákæruvaldið sagði ráðherra að það væri hluti af framkvæmdavaldinu en einnig á landamærunum við dómsvaldið og það ætti að vera sem mest óháð hinu pólitíska framkvæmdavaldi. Síðan sagði ráðherra: ,,Þarna verður þó aldrei skorið á öll tengsl á milli enda á samfélagið – og þá væntanlega í gegnum kjörna fulltrúa sína - að geta haft áhrif á áherslur. Réttarkerfið hlýtur að eiga að endurspegla í einhverjum mæli réttarvitundina í samfélaginu. En hvernig tryggjum við landamærin þarna á milli? Hvernig tryggjum við landamærin á milli réttarkefisns og stjórnmálanna.

Það gerum við með gagnkvæmri virðingu og hreinskiptinni, opinni umræðu. Sjálfstæði er ekki fengið með því að þagga niður gagnrýnisraddir, heldur miklu fremur með því að leyfa þeim að blómstra. Sé gagnkvæm virðing og sjálfstraust fyrir hendi – trú á þau grunngildi sem við reisum stjórnskipan okkar á – þá þola einstök verk umræðu og gagnrýni ef því er að skipta,” sagði ráðherra og kvað sjálfstæði ekki varið með afneitun heldur samtali. Aðeins þannig geti almenningur skilið mikilvægi kerfisins og fengið þá tilfinningu að það vinni fyrir fólk.

Opin og hreinskiptin umræða nauðsynleg

Í lokin spurði ráðherra hvort hvort verið geti að sú tortryggni sem ríkt hefur af hálfu kvennahreyfinga og margra fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis í garð löggæslu, ákæruvalds og dómsvalds sé vegna þess að aðilar hafi ekki átt opna og hreinskiptna samræðu; hafi ekki nálgast með það að markmiði að efla skilning og traust. ,,Ef svo er þá er það sameiginlegt verkefni að fá úr þessu bætt og höfum við í innanríkisráðuneytinu, ráðuneyti mannrétttinda, stigið skref í þá átt með viðamiklu samráði og langar mig til þess að nota tækifærið til þess að þakka öllum þeim sem lagt hafa gott til málanna í þessu samhengi.

Dómstólar og einnig ákæruvaldið vilja að stjórnmálin sýni sér tilhlýðilega virðingu. En á móti hljótum við lýðræðislega kjörnir fulltrúar – fulltrúar almannasjónarmiða -  að ætlast til þess að á okkur sé einnig hlustað, að lýðræðinu sé sýnd sú virðing sem því ber.

Réttarkefið á að vera sjálfstætt og á engan hátt háð pólitísku duttlungavaldi. Það á að verja minnihlutasjónarmið engu síður en meirhlutasjónarmið. En svo sterkt þarf það að vera, búa yfir slíkum innri styrk og sjálfstrausti, að það sé ævinlega galopið fyrir gagnrýni; opið fyrir lýðræðisstraumum samtíðarinnar.”

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum