Hoppa yfir valmynd
31. mars 2011 Innviðaráðuneytið

Samgönguþing ráðgert í maí

Stefnt er að því að tillaga að stefnumótandi tólf ára samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022 liggi fyrir í sumar. Samgönguráð hefur umsjón með gerð tillögunnar og leggur hana fyrir innanríkisráðherra til samþykktar að loknu athugasemdaferli umhverfismats.

Í framhaldinu er stefnt að því að ráðherra leggi fram á Alþingi í haust tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011-2022 og tilheyrandi framkvæmdaáætlun 2011-2014.

Á samgönguþingi fimmtudaginn 19. maí verður tillaga samgönguráðs að stefnu og áherslum í samgöngumálum 2011-2022 til umræðu. Nánari dagskrá verður auglýst síðar en ráðgert er að halda þingið í Reykjavík.

Við undirbúning tólf ára samgönguáætlunar hefur samgönguráð staðið fyrir samráðsfundum meðal annars með fulltrúum sveitarfélaga og atvinnulífs í öllum landshlutum. Meginmarkmið fundanna hefur verið að fá fram þær hugmyndir, áherslur og markmið sem þessir aðilar vilja að höfð verði til hliðsjónar við mótun langtímaáætlunar í samgöngumálum. Starfshópar, sem samgönguráð skipaði til að vinna afmörkuð verkefni sem snúa að stefnumótun í samgöngum, hafa nú allir lokið störfum.

Niðurstöður samráðsfunda og starfshópa samgönguráðs er að finna á heimasíðu ráðsins.

Samhliða áætlanagerðinni hefur verið unnið að mati á umhverfisáhrifum samgönguáætlunar 2011-2022 í samræmi við lög nr. 105/2006. Í skýrslu um matið verður gerð grein fyrir heildarmati á afleiðingum áætlunarinnar á umhverfi og samfélag.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum