Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til fyrirkomulags skólaaksturs.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst hinn 17. febrúar sl. erindi frá A (hér eftir nefndur málshefjandi) sem lýtur að fyrirkomulagi skólaaksturs í X, þar sem til stendur að seinka heimakstri nemenda. Fram kemur að tvö atriði komi einkum til skoðunar í þessu sambandi, annars vegar hvernig eigi að skýra viðmið um daglegan heildartíma skólaaksturs samkvæmt 4. gr. reglna um skólaakstur í grunnskóla, nr. 656/2009, og hins vegar hvernig eigi að fara með tíma í lok skóladags sem í tilvikum yngri barnanna er óvirkur.

Í 1. mgr. 3. gr. framangreindra reglna um skólaakstur í grunnskóla, sem settar eru með stoð í 22. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, kemur fram að sveitarstjórn setji að fenginni umsögn skólanefndar reglur um fyrirkomulag skólaaksturs er taki m.a. mið af kennsluskipan, fjölda nemenda, aldri þeirra, samsetningu nemendahóps og umhverfisaðstæðum. Þá er sveitarstjórn heimilt að skipuleggja akstursleiðir skólabifreiða með tilliti til staðsetningar skóla í sveitarfélaginu. Í 4. gr. er fjallað um skipulag skólaaksturs. Í 1. mgr. 4. gr. kemur fram að sveitarfélag geti í reglum sínum sett almenn viðmið um skipulag skólaaksturs.  Í 3. mgr. er kveðið á um að daglegum skólaakstri beri að haga með þeim hætti að nemendum sé ekið heim sem fyrst eftir að lögbundnum skóladegi lýkur. Miða skuli við að daglegur heildartími skólaaksturs, að meðtöldum biðtíma, sé að jafnaði ekki lengri en 120 mínútur.  Samkvæmt 1. gr. reglnanna taka þær einnig til aksturs nemenda í sérgreinakennslu sem fram fer utan skólalóðar eftir því sem við á. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. er við það miðað að daglegur heildartími skólaaksturs sé að jafnaði ekki lengri en 120 mínútur, að meðtöldum biðtíma, sem er sá tími sem líður frá því lögbundnum skóladegi lýkur og þar til skólaakstur hefst. Vísað er til þess í bréfi málshefjanda að sá sveigjanleiki sem innbyggður er í 120 mínútna viðmiðinu sé teygjanlegur með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins. Málshefjandi spyr í bréfinu hvort telja megi að það taki m.a. til þess ef íþróttaakstur veldur því að farið sé umfram viðmiðið einn til þrjá daga í viku.  Eins og orðalag 3. mgr. 4. gr. ber með sér, þá hafa sveitarfélög ákveðinn sveigjanleika við framkvæmd þessa ákvæðis, m.a. af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í bréfi málshefjanda. Þótti nauðsynlegt við setningu reglnanna að tryggja sveitarfélögum ákveðið svigrúm að þessu leyti þar sem m.a. aðstæður og fjarlægðir milli staða geta verið nokkuð mismunandi milli sveitarfélaga. Sveitarfélög skulu þó leitast við eftir fremsta megni að halda lengd daglegs skólaaksturs innan þeirra tímamarka sem reglurnar tilgreina. Leiði málefnaleg tilvik til óhjákvæmilegra frávika frá tilgreindu tímamarki, s.s. akstur í sérgreinakennslu, fjarlægðir eða aðrar óviðráðanlegar aðstæður, skal þess gætt að fjöldi og tímalengd frávika verði takmörkuð eins og frekast er unnt. Í slíkum tilvikum verður hvert og eitt sveitarfélag að leggja mat á aðstæður og haga skipulagi skóladags og daglegs skólaaksturs eins og best verður á kosið að teknu tilliti til allra aðstæðna hverju sinni og innan marka 3. mgr. 4. gr. eins og frekast er unnt. Þá skal bent á þá heimild 2. mgr. 4. gr. að skólabifreið aki samkvæmt áætlun og stöðvi á tilgreindum biðstöðvum eða nýti almenningssamgöngur til skólaaksturs þar sem það á við, svo framarlega að umhverfisaðstæður séu ekki með þeim hætti að óttast megi um öryggi og velferð nemenda.

Hvað varðar það álitaefni hvernig fara eigi með tíma í lok skóladags, sem í tilvikum yngri barnanna er óvirkur (gæsla), þá hafa sveitarfélög vissulega þau úrræði við þessar aðstæður að bjóða til dæmis upp á gæslu, tómstundastarf eða aðstoð við heimanám þegar svo háttar til. Hins vegar er það mat ráðuneytisins að ef foreldrar skólabarna í dreifbýli, sem nýta skólaakstur á vegum sveitarfélagsins, vilja ekki nýta sér lengda skóladagvist þá beri viðkomandi sveitarfélagi að skipuleggja skólaakstur með þeim hætti að börnunum sé ekið heim að afloknum lögbundnum skóladegi eða semja við foreldra um að börn þeirra njóti lengdrar skóladagvistar þeim að kostnaðarlausu. Þá er jafnframt vakin athygli á heimild sveitarstjórnar til að semja við foreldra um þátttöku þeirra í skólaakstri, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglna um skólaakstur í grunnskóla. Ráðuneytið vill einnig af þessu tilefni vekja athygli á því að skv. lögum um grunnskóla ber að leggja fyrir skólaráð allar áætlanir um meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun er um þær tekin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum