Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2011 Dómsmálaráðuneytið

Mælti fyrir frumvarpi um nálgunarbann og brottvísun af heimili

Innanríkisráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili en brottvísun af heimili er úrræði sem fram til þessa hefur einungis verið að finna í barnaverndarlögum. Þetta er hliðstætt því sem gerist í nágrannalöndum og hefur verið nefnt austurríska leiðin.

<P>Innanríkisráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili en brottvísun af heimili er úrræði sem fram til þessa hefur einungis verið að finna í barnaverndarlögum. Þetta er hliðstætt því sem gerist í nágrannalöndum og hefur verið nefnt austurríska leiðin.</P>

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru þau að lagt er til að bráðabirgðaákvörðun um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili verði í höndum lögreglustjóra eða löglærðs fulltrúa hans. Lögreglustjóra er gert skylt, hvort sem um er að ræða ákvörðun um nálgunarbann eða brottvísun, að bera hana undir héraðsdóm innan þriggja sólarhringa frá birtingu ákvörðunarinnar en dómaranum er þannig falið að taka endanlega ákvörðun um það hvort nálgunarbanni og/eða brottvísun verði beitt. Er lagt til að heimilt verði að beita nálgunarbanni ef rökstudd ástæða er til að ætla að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða hætta er á að viðkomandi muni koma til með að gera slíkt.

Þá verði heimilt að beita brottvísun af heimili ef rökstudd ástæða er til að ætla að sakborningur hafi framið eða hætta er á að hann fremji refsivert brot gegn tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga (til dæmis ákvæðum laganna um kynferðisbrot, líkamsmeiðingar, brot gegn frjálsræði manna, hótanir, eignaspjöll og fleira), enda hafi verknaðurinn beinst að einhverjum sem er honum nákominn og að tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins. Ennfremur er það gert að skilyrði fyrir brottvísun af heimili að brotið varði fangelsi allt að sex mánuðum.

Nýmæli um samskipti lögreglu og sveitarfélaga

Af öðrum efnisatriðum frumvarpsins má nefna að nálgunarbanni verður ekki afmarkaður lengri tími en eitt ár í senn, líkt og nú gildir samkvæmt lögum um nálgunarbann, en ekki verður heimilt að beita brottvísun lengur en fjórar vikur í senn. Í frumvarpinu er jafnframt að finna sérreglur sem gilda skulu við meðferð mála hjá lögreglu og fyrir dómi. Loks er í frumvarpinu að finna sérstakan kafla sem fjallar um samskipti lögreglu og sveitarfélaga í málum sem varða nálgunarbann og brottvísun af heimili og er þar um nýmæli að ræða.

Frumvarpið var samið af starfshópi sem skipaður var af innanríkisráðherra til þess að gera tillögur að lagaákvæðum til innleiðingar á hinni svokölluðu austurrísku leið og er gerð frumvarpsins þannig í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Var það mat starfshópsins að vel færi á því að ákvæði um nálgunarbann og brottvísun af heimili væri að finna í einum og sama lagabálki enda búa sambærileg sjónarmið að baki beitingu þeirra, sömu málsmeðferðarreglur geta þar átt við og er það jafnframt í samræmi við norræna löggjöf á þessu sviði. Að auki er fyrirséð að úrræðum þessum verði beitt samhliða í nokkrum fjölda tilvika.

Við gerð frumvarpsins átti starfshópurinn fundi með fulltrúum Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Jafnréttisstofu, Samtaka kvenna af erlendum uppruna, Dómarafélags Íslands og ríkislögreglustjóra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum