Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra leggur fram þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra  lagði í dag fram á Alþingi þingsálykunartillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.  Tillagan felur í sér að skipuð verði nefnd tíu þingmanna sem fjalli um og geri tillögur um stefnu sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli herleysis. Við mótun stefnunnar taki nefndin mið af áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá árinu 2009, stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Nefndin skilgreini meginforsendur stefnunnar og setji fram tillögur um markmið og leiðir til að ná þeim.
    Þingmannanefndin um mótun þjóðaröryggisstefnu skili tillögu til utanríkisráðherra eigi síðar en í júní 2012. Ráðherra leggi að því búnu tillögu að þjóðaröryggisstefnu Íslands fyrir Alþingi.

Samkvæmt tillögunni yrði nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu m.a. falið:
    –      Að fjalla um mál er varða þjóðaröryggi og hafa verið til umræðu í samfélaginu um áratugaskeið, svo sem herleysi Íslands, aðild að varnarsamstarfi, afstöðuna til einstakra framkvæmdaþátta í öryggismálum, samvinnu við nágrannaríki og samninga við önnur ríki og ríkjasambönd um öryggi og varnir. Undir þetta fellur einnig framlag og vinna Íslands að mannréttindamálum og mannúðarstörfum, afvopnunarmálum, friðargæslu og uppbyggingu friðar, m.a. á grundvelli jafnréttissjónarmiða.
    –      Að byggja á skilgreiningu áhættumatsnefndar á öryggishugtakinu sem tekur tillit til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuflokka og lítur einnig til samþættingar ytri og innri öryggisþátta.
    –      Að afmarka hvernig þjóðaröryggisstefna tengist fyrirliggjandi stefnumörkun á sviði almannavarna og hvernig alþjóðasamstarf og þá einkum á sviði þjóðaröryggismála getur stutt hlutaðeigandi stjórnvöld við gæslu almannaöryggis. Þannig er rétt að nefndin horfi sérstaklega til tengsla þjóðaröryggisstefnu við almannavarna- og öryggisstefnu sem mótuð er af almannavarna- og öryggisráði á grundvelli almannavarnalaga frá árinu 2008.
    –      Að taka til skoðunar hvort koma eigi á sérstöku þjóðaröryggisráði eins og getið er í skýrslu áhættumatsnefndar, og meta, ef af yrði, hver tengsl þess yrðu við almannavarna- og öryggisráð. Nefndin skal fjalla um sambærilegar spurningar um mögulega aðgerðastjórn á sviði þjóðaröryggismála.
    –      Að fjalla um hvernig tryggt verði að nægjanleg þekking sé til staðar hjá borgaralegum stofnunum um þjóðaröryggismál og hvort koma eigi á laggirnar samstarfsvettvangi fulltrúa stjórnmálaflokkanna til að fjalla um öryggi Íslands á breiðum grundvelli.

Þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um þjóðaröryggi í heild má lesa hér.

Umfjöllun Alþingis um tillöguna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum