Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 2/2011

Ár 2011, miðvikudaginn 27. apríl, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 2/2011 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi dagsettu hinn 1. febrúar 2011 sendi Einar Sch. Thorsteinsson, kt. 080469-5519, kæru til yfirfasteignamatsnefndar og óskaði eftir að íbúð hans að Þverholti 9, fnr. 208-5008, mhl. 010103, Mosfellsbæ, væri skattlögð sem íbúðarhúsnæði samkvæmt a lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

 

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi dags. 10. febrúar 2011 eftir umsögn Mosfells­bæjar. Umbeðin umsögn barst 26. febrúar 2011.

 

Umsögn Mosfellsbæjar var send kæranda 4. mars 2011 og honum gefinn kostur á að gera athuga­semdir. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Yfirfasteignamatsnefnd skoðaði eignina 28. mars 2011. Málið var tekið til úrskurðar 13. apríl 2011.

 

Sjónarmið kæranda

Í kæru er óskað eftir leiðréttingu á fasteignagjöldum vegna eignarinnar Þverholts 9, Mosfellsbæ, fastanúmer 208-5008. Tekið er fram að eignin sé íbúð, hafi verið það í mörg ár, en sé skráð sem atvinnuhúsnæði. Kærandi hafi árangurslaust óskað þess við sveitarfélagið að fá eignina skráða sem íbúð. Sveitarfélagið vísi í Landsskrá fasteigna þar sem eignin sé skráð sem verslunarrými.

 

Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í umsögn Mosfellsbæjar er vísað til 5. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 þar sem segir m.a. að upplýsingar skv. 4. gr. skulu skráðar og skráningu þeirra breytt þegar mannvirki er breytt eða eytt eða breyting verði á notkun eignar. Vísað er til 14. gr. sömu laga þar sem talað er um að sé óskað eftir breytingum á fyrirliggjandi upplýsingum um fasteign skuli sækja um breytingu á skráningarupplýsingum um fasteignina í fasteignaskrá hjá viðkomandi sveitarfélagi. Fram kemur að sveitarfélagið hafi leiðbeint kæranda með hliðsjón af þessari lagagrein. Jafnframt er vísað til 19. gr. sömu laga um að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir því að Fasteignaskrá Íslands berist upplýsingar um m.a. breytingar á mannvirkjum. Þá er í umsögn sveitarfélagsins vísað til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem segir m.a. að óheimilt sé að breyta húsi eða notkun þess, nema með leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Í umsögn sveitarfélagsins kemur fram að sveitarfélagið telur lagafyrirmæli standa til þess að óskir um breytta skráningu fasteignar beri að taka fyrir hjá viðkomandi sveitarfélagi og kærandi eigi að láta reyna á afstöðu sveitarstjórnar og Fasteignaskrár Íslands, áður en kemur til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í hinu kærða máli.

 


 

Niðurstaða

Yfirfasteignamatsnefnd skoðaði eign kæranda að Þverholti 9 hinn 28. mars 2011. Á vettvangi voru kærandi Einar Sch. Thorsteinsson og móðir hans Erna Tryggvadóttir. Ekki var mætt af hálfu Mosfellsbæjar.

 

Um er að ræða fasteign sem hefur verið nýtt sem íbúð. Samkvæmt afsali frá 6. desember 2010 var húsnæðið selt sem ósamþykkt íbúð.

 

Fasteignin, sem er í fasteignaskrá skráð sem verslun, mhl. 01 0103, er á 1. hæð, skráð 57,7 m2, byggingarár 1990. Byggingin er steinsteypt fjölbýlishús. Gengið er beint af stétt inn í forstofu. Stofa, borðstofa, eldhús og forstofa er í einu rými. Í húsnæðinu er einnig svefn­herbergi, bað og geymsla. Flísar eru á öllum gólfum, niðurtekin loft, kerfisloft í stofu og eldhúsi en plötur á grind í baði og svefnherbergi.  

 

Kærandi gerir þá kröfu að fasteign hans í húsinu nr. 9 við Þverholt, mhl. 01-0103, fasta­númer 208-5008 í Mosfellsbæ, verði skattlögð sem íbúðar­húsnæði skv. a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteigna­skatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b lið og c lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðar­hús ásamt lóðar­réttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mann­virki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðar­réttindum. Undir b lið falla sjúkra­stofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heima­vistir, leikskólar, íþrótta­hús og bókasöfn. Undir c lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fast­eignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunar­húsnæði, fiskeldis­mannvirki, veiðihús og mann­virki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

 

Hvorki í lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 né í reglugerð um fast­eignaskatt nr. 1160/2005 er að finna skilgreiningu á því hvaða skilyrði skuli uppfyllt til þess að húsnæði teljist vera íbúð í skilningi laganna. Umrædd fasteign kæranda er skráð sem verslun í fasteignaskrá. Álitaefni í kærumáli þessu er hvort húsnæðið skuli teljast íbúðar­hús­næði í skilningi a liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitar­félaga. Í eldri úrskurðum yfirfasteigna­mats­nefndar hefur verið á því byggt að raunveruleg notkun húsnæðis ráði því undir hvaða staflið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 eign flokkist en ekki skráð notkun eða samþykki byggingar­yfirvalda. Á þann skilning hefur verið fallist í dómi Hæsta­réttar í máli nr. 85/2006. Húsnæði kæranda var notað sem íbúðarhúsnæði þegar vettvangsskoðun fór fram. Núverandi búnaður og frágangur húsnæðisins ber þess merki að það sé notað sem íbúðar­húsnæði. Telur yfirfasteignamatsnefnd með hliðsjón af innréttingu fasteignar kæranda og því sem staðfest er um raunverulega notkun hennar sem íbúðarhúsnæðis að eignin skuli skattlögð samkvæmt a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 


 

Úrskurðarorð

Greiða skal fasteignaskatt af fasteign kæranda að Þverholti 9, Mosfellsbæ, fastanúmer 208-5008, samkvæmt a lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 miðað við núverandi notkun hennar sem íbúðarhúsnæðis.

 

Reykjavík, 27. apríl 2011,

 

________________________________

Jón Haukur Hauksson

 

________________________________

Inga Hersteinsdóttir

________________________________

Ásta Þórarinsdóttir 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn