Hoppa yfir valmynd
3. maí 2011 Dómsmálaráðuneytið

Starfshópur kirkjunnar og ráðuneytis meti áhrif niðurskurðar á fjárhag kirkjunnar

Setja á starfshóp kirkjunnar og innanríkisráðuneytisins á laggirnar sem meta á hvaða áhrif niðurskurður hefur haft á starfsemi kirkjunnar og hverjar afleiðingarnar yrðu ef haldið verður áfram á þeirri braut. Þetta kom fram í ávarpi innanríkisráðherra við setningu prestastefnu í kvöld.

Prestastefna 2011
Prestastefna 2011

Ögmundur Jónasson sagði í ávarpi sínu að því miður sæi ekki enn fram úr þeim þrengingum sem við væri að stríða og enn væri boðað aðhald á komandi ári. Með því að skipa starfshóp til að meta þessi áhrif væri hann að bregðast við ákalli biskups sem lýst hafi þungum áhyggjum af fjárhagsstöðunni í formlegu erindi til ráðuneytisins. Ráðherra kvaðst vera meðvitaður um ábyrgð sína sem hluti framkvæmda- og fjárveitingavalds. ,,Mitt hlutverk er meðal annars að halda til haga hagsmunum skattreiðenda og ríkissjóðs en við sem höfum þetta verkefni með höndum þurfum jafnframt að vera meðvituð um afleiðingar gerða okkar,” sagði ráðherra.

Prestastefna 2011

Þá sagði ráðherra kirkjuna og stjórnmálin eiga margt sameiginlegt og kvað hann stjórnmálalífið ekki síður standa á krossgötum en kirkjan teldi sig gera. Margt benti til þess að stofnanakerfið, stjórnmálaflokkarnir myndu meira og minna riðlast á nýrri lýðræðisöld. Hann sagði þá samstöðu sem fólk vildi sjá snúa að markmiðum og boðskap en ekki stofnunum, fólk myndi spyrja hver eru markmiðin og boðskapurinn en ekki í hvaða flokki ertu eða hvaða stofnun heyrir þú til. Það verði siðbótarkrafan í íslensku stjórnmálalífi á nýrri öld og í samfélaginu almennt og muni hún án efa einnig taka til kirkjunnar sem stofnunar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum