Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til möguleika til sparnaðar í rekstri Grunnskólans X

Vísað er til erindis, dags. 8. mars 2011 um möguleika til sparnaðar í rekstri Grunnskólans X, næstu tvö skólaár.

Í nýlegum lögum um grunnskóla nr. 91/2008 sem tóku gildi 2008 voru gerðar ýmsar breytingar og hvað varðar starfstíma grunnskóla var lagaramminn sniðinn að þróun undanfarinna ára og breytingum á starfstíma grunnskóla sem tilkomnar voru m.a. vegna kjarasamninga Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Áfram var gert ráð fyrir sveigjanleika í skipulagi skólastarfs milli fullra kennsludaga nemenda annars vegar og annarra skóladaga nemenda hins vegar. Þar er m.a. átt við skólasetningar- og skólaslitadaga, foreldraviðtalsdaga, jólaskemmtanir, íþrótta- og útivistardaga og annað sem skólastjóri ákveður í hverjum skóla. Skipting milli kennsludaga og annarra skóladaga nemenda er skv. lögum á ábyrgð skólastjóra að höfðu samráði við skólaráð og að fenginni staðfestingu skólanefndar, enda samræmist skiptingin ákvæðum kjarasamninga á hverjum tíma. Breytingin var því einkum fólgin í að sníða lögin að almennri þróun en ekki var gert ráð fyrir að kennsludagar nemenda yrðu færri en í eldri lögum, þ.e. 170 og skóladagar nemenda ekki færri en 180. Því var ekki um raunverulega lengingu skólaársins að ræða með nýjum grunnskólalögum, en breytingin var gerð í fullri sátt við alla hagsmunaaðila til að lögbinda breytingar á starfstíma skóla sem þegar hafði komist til framkvæmda. Þessi lenging skólaársins sem fyrst var staðfest í kjarasamningum árið 2001 og síðar lögfest 2008 er m.a. tilkomin til að skólar geti betur unnið að því að ná markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og haft meira svigrúm til fjölbreyttrar kennslu. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur sitji í skólastofum alla þessa 180 skóladaga, það eru fjölmörg markmið grunnskólans þess eðlis að hægt er að vera úti við, bæði á skólalóðinni, í vettvangsferðum og í verkefnum sem tengjast nánasta samfélagi og náttúru.  

Samkvæmt 28. gr. laganna hefur ráðuneytið ekki lengur heimild til að veita sveitarfélögum eða skólum undanþágu frá starfstíma skóla, hvorki árlegum né vikulegum. Með lögunum var fellt út ákvæði eldri laga þess efnis að menntamálaráðherra geti veitt tímabundna undanþágu frá árlegum starfstíma skóla með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum sveitarfélögum, en slíkar undanþágubeiðnir heyrðu orðið til algerra undantekninga. Í greinargerð með grunnskólafrumvarpinu kemur fram að áfram skuli miðað við sama vikulegan kennslutíma hvers nemanda að lágmarki í mínútum talið og í eldri lögum. Í greinargerðinni segir enn fremur: Nýtt ákvæði er þess efnis að heimilt sé að víkja tímabundið frá lágmarks vikulegum kennslutíma en tryggja nemendum viðbótarkennslu sem nemur frávikinu innan sama skólaárs. Þetta er hugsað til að auka möguleika á sveigjanlegu skólastarfi miðað við aðstæður á hverjum stað. Einstakir skólar gætu t.d. tekið þá ákvörðun að hafa styttri vikulegan skólatíma í svartasta skammdeginu en lengja skóladaginn á móti að hausti og vori. Vikulegur kennslutími getur því orðið breytilegur náist um það samkomulag innan skólans, skólaráðs og skólanefndar."

Fram kemur í erindi skólanna að verið sé að skoða þann möguleika að stytta næstu tvö skólaár um eina viku að hausti og eina viku að vori. Fram kemur einnig að nemendum verði bætt þessi stytting upp með því að lengja vikulegan tíma nemenda um tvær klukkustundir að jafnaði.

Með hliðsjón af framangreindu þarf ekki að koma til samþykki ráðuneytisins fyrir þeim breytingum sem áform eru um að hrinda í framkvæmd næstu tvö skólaár. Ráðuneytið lítur svo á að þær rúmist innan þess sveigjanleika sem skilgreindur er í 28. gr. laganna og að sátt sé innan sveitarfélagsins um þessa leið. Ráðuneytið vill hins vegar árétta mikilvægi þess að fyrirkomulagið fái umræður innan skólaráðs og skólanefndar og viðhorf hagsmunaaðila í skólasamfélaginu séu könnuð áður en endanleg útfærsla verður valin og að þess sé gætt að daglegt vinnuálag á nemendur verði ekki óhóflegt.

Ráðuneytið óskar eftir því að fá upplýsingar um þá ákvörðun sem tekin verður um breytingar á starfstíma skólanna.


Fyrir hönd ráðherra

Arnór Guðmundsson                                                                        Guðni Olgeirsson
            

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn