Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Samhæfingarstöð almannavarna stýrir aðgerðum vegna eldgossins

Fjallað var um eldgosið í Grímsvötnum á aukafundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra reifaði málið og Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn, Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá Almannavörnum og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, voru einnig á fundinum.

Gosið er enn öflugt og öskufall víða og eru áhrif öskufalls alvarlegust fyrir íbúa á svæðinu allt milli Kirkjubæjarklausturs og Hafnar í Hornafirði. Veðurstofan gerir ráð fyrir talsverðu öskufalli á morgun, þriðjudag, í hægri norðan- og norðvestanátt og að það verði einna mest í Öræfum.

Samhæfingar- og stjórnstöð Almannavarna stýrir aðgerðum sem hafa falist í margs konar aðstoð við íbúa en vel á annað hundrað manns starfa eftir aðgerðaáætlun Almannavarna. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra heimsótti í gær samhæfingarstöðina í Skógarhlíð og segir hann traustvekjandi að vera vitni að öguðum og faglegum vinnubrögðum þar.

Tvær fjöldahjálparstöðvar eru nú opnar á hamfarasvæðinu, á Kirkjubæjarklaustri og Hofgarði í Öræfum. Rauði krossinn vinnur nú að því að skipuleggja áfallahjálp til íbúa á svæðinu ásamt heilbrigðisþjónustunni, kirkju, sveitarfélögum og Almannavörnum. Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu hafa verið við aðstoð á vettvangi við dreifingu á grímum og öryggisgleraugum og aðstoð við bændur.

Millilandaflug hefur legið niðri frá því í gærmorgun en ráðgert er að hefja það á ný um kvöldmatarleytið. Innanlandsflug lá niðri í gær og fram eftir degi í dag en unnt var að fljúga nokkuð þegar leið á daginn. Samráðshópur fulltrúa Flugmálastjórnar, Isavia ásamt fulltrúum ráðuneytisins og flugrekenda hittist reglulega til að meta stöðuna.

Samráðshópur undir stjórn Almannavarna hóf í dag markvissa yfirferð yfir gossvæðið og mun síðar í vikunni skila stjórnvöldum skýrslu um ástandið með tillögum um viðbrögð og framkvæmdir. Ríkisstjórnin metur afleiðingar eldgossins með fjölmörgum sérfræðingum og hagsmunaaðilum og mun í framhaldi ákveða nauðsynleg viðbrögð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira