Hoppa yfir valmynd
7. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 7. júní 2011

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Alexandra Þórlindsdóttir, tiln. af innanríkisráðuneyti, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Gyða Hjartardóttir, varamaður Gunnars Rafns Sigurbjörnssonar, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af velferðarráðherra, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir, tiln. Reykjavíkurborg, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Hugrún Hjaltadóttir, varamaður Þórhildar Þorleifsdóttur, tiln. velferðarráðherra, Hrafnhildur Tómasdóttir, varamaður Gissurar Péturssonar, Védís Grönvold, varamaður Ragnheiðar Bóasdóttur, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Lovísa Lilliendahl, verkefnastjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, Ingibjörg Broddadóttir og Þorbjörn Guðmundsson starfsmenn.

1. Fundargerð
Fundargerð 50. fundar var samþykkt.

2. Nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja – frumvarp
Einar Magnússon lyfjamálastjóri kynnti nýtt frumvarp til laga um greiðsluþátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði. Í nýju kerfi er gert ráð fyrir að notandi greiði fast hlutfall af lyfjaverði sem fari stighækkandi uns ákveðnu þaki er náð á tólf mánaða tímabili. Þegar þaki er náð er möguleiki að sækja um lyfjaskírteini sem veitir 100% greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Þetta þýðir að þeir sem greiða mest í lyfjakostnað í núgildandi kerfi munu lækka verulega. Á móti kemur að allur þorri sjúklinga mun koma til með að greiða meira, sérstaklega þeir sem nú greiða tiltölulega lítið. Miðað verður við að kostnaður sjúkratrygginga verði svipaður og áður. Í umræðum í framhaldi af kynningu var meðal annars rætt almennt um kostnað heimila vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu.

Kynning Einars er hér: http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/32822

3. Kostnaður heimilanna vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu
Gyða Hjartardóttir og Stella K. Víðisdóttir greindu frá  umfjöllun um kostnað heimilanna vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu sem fram fór á fundi félagsþjónustunefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga 23. maí 2011. Margir félagsmálastjórar hafa áhyggjur af því hvaða áhrif niðurskurður í heilbrigðismálum, breytingar á niðurgreiðslum á lyfjum og annar niðurskurður hjá ríki hefur á þá sem fá fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum. Fram kom meðal annars í máli Guðrúnar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar og nefndarmanns í félagsþjónustunefndinni, að þeir sem fá fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi eigi erfiðara en áður með að láta ná enda saman, meðal annars vegna aukinna útgjalda í heilbrigðisþjónustunni og virðist þetta eiga við um allt land. Töluverð aukning hefur verið í umsóknum um styrki til að greiða læknis- og/eða lyfjakostnað, en misjafnt er hvort félagsþjónusta veitir slíka styrki.

Lára lagði til að stýrihópurinn tæki upp viðræður við HÍ varðandi hvaða upplýsingar væru til innan háskólasamfélagsins um kostnað heimilanna vegna lyfja og heilsugæslu og að lítill vinnuhópur að vegum vaktarinnar yrði myndaður um það verk. Var það samþykkt.

4. Áfangaskýrsla samstarfshóps á Suðurnesjum
Lovísa Lilliendahl og Ingibjörg Broddadóttir kynntu lokadrög að skýrslu hópsins. Í framhaldi af því var rætt um mikilvægi þess að draga fram styrkleika Suðurnesjanna jafnt sem veikleika svæðisins.

Næsti fundur velferðarvaktarinnar verður haldinn 28. júní næstkomandi í velferðarráðuneytinu.

Fundagerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum