Hoppa yfir valmynd
8. júní 2011 Dómsmálaráðuneytið

Lagafrumvarp um rannsóknarheimildir kynnt í ríkisstjórn

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti í ríkisstjórn í gær drög að frumvarpi um breytingu á lögum um meðferð sakamála  um rannsóknarheimildir lögreglu.

Með frumvarpinu er lagt til að rannsóknarheimildir lögreglu gagnvart brotum sem eru í undirbúningi séu styrktar þegar kemur að starfsemi skipulagðra glæpasamtaka. Lögregla getur þannig hafið rannsókn ef hún fær vitneskju um eða hefur grun um að glæpasamtök séu að leggja á ráðin um brot. Heimildin er sérstaklega bundin við 175. gr. a almennra hegningarlaga en í henni segir að sá sem sammælist við annan mann um að fremja verknað er varðar að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi og sé liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum, nema brot hans varði þyngri refsingu samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Einnig segir að með skipulagðri brotastarfsemi sé átt við félagsskap þriggja eða fleiri manna sem hafi það að markmiði að fremja með skipulögðum hætti refsiverðan verknað, beint eða óbeint í ávinningsskyni.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er  styrkt heimild lögreglunnar til að hefja rannsókn á máli þegar grunur leikur á að verið sé að undirbúa brot. Þá verður lögreglu einnig heimilt að beita rannsóknarúrræðum á borð við símhleranir og eftirfararbúnað, sem kveðið er á um í XI. kafla laga um meðferð sakamála, til að upplýsa um skipulagðra brotastarfsemi, þótt brotin sem um ræðir varði ekki lágmarki átta ára fangelsi, eins og gert er ráð fyrir í almennum skilyrðum.  Með þessum úrræðum er stefnt að því að koma í veg fyrir að alvarleg brot verði framin og stemma stigu við starfsemi skipulagðra brotasamtaka.

Þeir sem senda vilja ráðuneytinu ábendingar vegna frumvarpsdraganna geta gert það á netfangið [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum