Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2011 Innviðaráðuneytið

Öryggisstjórnun vegamannvirkja

Drög að reglugerð um öryggisstjórnun vegamannvirkja liggja nú fyrir. Unnt er að senda ráðuneytinu umsögn um reglugerðardrögin til og með 19. ágúst nk. á netfangið [email protected].

Drögin fela í sér innleiðingu á tilskipun ESB um sama efni nr. 2008/96/EB frá 19. nóvember 2008. Í samræmi við gildissvið tilskipunarinnar ná ákvæði reglugerðarinnar til samevrópska vegakerfisins eins og það er skilgreint í ákvörðun nr. 1692/96/EB um viðmiðunarreglur bandalagsins við uppbyggingu samevrópska flutningakerfisins.

Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að auknu umferðaröryggi, en talið er að umhverfi vega eigi þátt í um þriðjungi umferðarslysa á EES svæðinu. Með því að fylgja ákveðinni aðferðafræði sem felst í öryggisstjórnun vegamannvirkja og nánar er útfærð í reglugerðardrögunum á að vera tryggt að öryggi vegakerfisins sé ætíð haft að leiðarljósi, hvort sem um er að ræða á hönnunarstigi vegna nýs vegamannvirkis, við framkvæmdir eða við vegamannvirki sem þegar er í notkun.

Eftirfarandi aðgerðir skulu framkvæmdar við hönnun vegamannvirkja, við framkvæmdir og á vegum í notkun:

I. Umferðaröryggismat, þ.e. skipuleg samanburðargreining á áhrifum nýs vegar, eða verulegrar breytingar á núverandi vegakerfi, á öryggi vegakerfisins.

II. Umferðaröryggisrýni, þ.e. sjálfstæð, ítarleg, kerfisbundin og tæknileg öryggisskoðun í tengslum við hönnunarþætti vegamannvirkja sem tekur til allra stiga, frá forhönnun þar til þau hafa verið tekin í notkun.

III. Röðun vegarkafla þar sem slys eru mörg eða slysastíðni er há, en í því felst aðferð til að finna, greina og raða köflum vegakerfisins sem hafa verið í notkun í meira en þrjú ár og þar sem orðið hafa mörg banaslys og alvarleg slys miðað við umferðarmagn. Jafnframt eru greindir möguleikar á að auka öryggi og draga úr slysakostnaði.

IV. Umferðaröryggisúttekt, þ.e. reglubundin skoðun á eiginleikum vegamannvirkja í notkun í þeim tilgangi að finna ágalla sem krefjast lagfæringa.

Til fyllingar reglugerðardrögunum er gert ráð fyrir að settar verði verklagsreglur um eftirfarandi verkþætti:

I. Umferðaröryggismat á verkefnum á sviði vegamannvirkja

II. Umferðaröryggisrýni á verkefnum á sviði vegamannvirkja

III. Röðun og lagfæring vegarkafla þar sem slys eru mörg eða slysatíðni er há

IV. Umferðaröryggisúttektir

V.  Úrvinnslu slysaupplýsinga sem er að finna í slysaskýrslum

Reglugerðardrögin eiga stoð í 2. mgr. 46. gr. vegalaga nr. 80/2007. Lagt er til að þau gangi í gildi þann 1. október 2011.

Eins og áður sagði er umsagnarfrestur um drögin til 19. ágúst nk.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum