Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2011 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 12. ágúst 2011

Mál nr. 36/2011                  Eiginnafn:     Jovina

 

Mál 36/2011 barst mannanafnanefnd hinn 12. maí og var tekið fyrir á fundum 7. júní og 1. júlí. Hinn 12. ágúst 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð:

Eiginnafnið Jovina (kvk.) hefur áður komið til umfjöllunar mannanafnanefndar. Vísast hér m.a. til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 12/2006 er upp var kveðinn 4. mars 2006 og úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 42/2006 er upp var kveðinn 25. maí sama ár. Í báðum þessum úrskurðum var eiginnafninu Jovina hafnað með vísan til þess að ritháttur nafnsins væri ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996. Í síðarnefnda úrskurðinum var þessi niðurstaða rökstudd með svofelldum hætti:

„Ástæður þess að mannanafnanefnd telur eiginnafnið Jovina ekki samræmast íslenskum rithætti eru þessar:

Nafnið Jovina er samsett úr tveimur liðum, Jo- og -vina. Síðari liðurinn er notaður sem síðari liður bæði kvenmannsnafna, t.d.  Kristvina og Sigurvina, og karlmannsnafna, t.d. Kristvin og Sigurvin. Fyrri liðurinn Jo- kemur hins vegar ekki fyrir í nöfnum á mannanafnaskrá, hvorki meðal karlmannsnafna né kvenmannsnafna, og hans er heldur ekki getið í bókinni Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson. Í íslenskum nöfnum er hins vegar alsiða að nota forliðinn - í þessari stöðu. Á mannanafnaskrá er karlmannsnafnið Jóvin og meðal kvenmannsnafna má finna nöfnin JódísJófríður og Jóhanna.

Eiginnafnið Jovina telst ekki hafa áunnið sér hefð í málinu.“

Mannanafnanefnd hefur í tilefni af nýju erindi um eiginnafnið Jovina (kvk.) farið ítarlega yfir þau lagaskilyrði sem eiginnöfn þurfa að fullnægja samkvæmt 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Nefndin telur að á grundvelli mannanafnalaga sé henni ekki heimilt að leggja bann við því að búnir séu til nýir nafnliðir eins og t.d. Jo- þrátt fyrir að í íslensku sé venja að orð og orðliðir endi á ó (t.d. Jó-) en ekki o. Í þessu felst breytt afstaða frá fyrri úrskurði árið 2006. Mannanafnanefnd telur því að eiginnafnið Jovina uppfylli ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Nafnið tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Jovinu.

Nefndin bendir á að í ákveðnum tilvikum kynni notkun á þessum lið í upphafi nafns að fela í sér afbökun rótgróins íslensks nafns, sem hefðbundið er að rita með Jó-. Í slíkum tilvikum má ætla að notkun liðarins Jo- væri ekki í samræmi við íslenskt málkerfi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn. Það getur hins vegar ekki átt við um nafnið Jovina.

Mannanafnanefnd hefur enn fremur aflað sér upplýsinga um uppruna færeyska nafnsins Jovina. Samkvæmt upplýsingum frá Fróðskaparsetri Færeyja á nafnið Jovina rætur að rekja til nafnsins Josefina. Uppruni fyrri liðarins í Jovina er því ekki sá sami og t.d. fyrri liðarins í Jódís og Jófríður.

Úrskurðarorð

Beiðni um eiginnafnið Jovina (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

Mál nr. 55/2011                    Millinafn: Einars

 Hinn 12. ágúst 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 55/2011 en erindið barst nefndinni 13. júlí 2011:

 

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn segir að millinafn skuli dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.

 

Nafnið Einars uppfyllir ekki þau skilyrði í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 þar sem segir að ekki sé heimilt að bera sem millinafn nafn sem unnið hefur sér hefð sem eiginnafn. Nafnið Einars er eignarfallsmynd af eiginnafninu Einar.

 

Í 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. kemur fram að þrátt fyrir framangreint þá sé eiginnafn foreldris í eignarfalli heimilt sem millinafn. Þessu skilyrði er ekki fullnægt í máli þessu.

 

Þar sem úrskurðarbeiðandi og það nafn er óskað eftir að samþykkt verði sem millinafn fellur ekki undir tilgreind skilyrði er beiðni um nafnið Einars sem millinafn hafnað.

 Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Einars er hafnað.

 

 

Mál nr. 61/2011                    Eiginnafn:     Elly

 Hinn 12. ágúst 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 61/2011 en erindið barst nefndinni 10. ágúst:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan þar sem einhljóðið y er ekki ritað í enda orðs í íslensku. Ritháttur nafnsins Elly (kvk.) getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Á nafnið er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár eru átta konur skráðar með eiginnafnið Elly sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna og er sú elsta fædd árið 1943. Því telst vera hefð fyrir rithættinum Elly.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Elly (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

Mál nr. 62/2011                    Eiginnafn:     Vagnfríður

 Hinn 12. ágúst 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 62/2011 en erindið barst nefndinni 10. ágúst:

Eiginnafnið Vagnfríður (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Vagnfríðar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Vagnfríður (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

Mál nr. 63/2011                    Eiginnafn:     Laugi

 Hinn 12. ágúst 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 63/2011 en erindið barst nefndinni 11. ágúst:

Eiginnafnið Laugi (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Lauga, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Laugi (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

Mál nr. 64/2011                    Eiginnafn:     Dúnn

 

Hinn 12. ágúst 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 64/2011 en erindið barst nefndinni 11. ágúst:

Eiginnafnið Dúnn (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Dúns, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Dúnn (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

Mál nr. 65/2011                    Eiginnafn:     Þinur

 

Hinn 12. ágúst 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 65/2011 en erindið barst nefndinni sama dag:

Eiginnafnið Þinur (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Þins, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Þinur (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum