Hoppa yfir valmynd
5. september 2011 Innviðaráðuneytið

Íbúðalánasjóði verði heimilað að veita óverðtryggð lán

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður

Íbúðalánasjóði verður veitt heimild til að veita óverðtryggð lán samkvæmt frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi og mælt var fyrir síðastliðið haust. Félags- og tryggingamálanefnd þingsins hefur fjallað um málið og mælir með því að sjóðnum verði veitt þessi heimild.

Guðbjartur Hannesson félags- og tryggingamálaráðherra (nú velferðarráðherra) mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi 20. október 2010. Málið hefur verið til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd og skilaði meiri hluti hennar áliti sínu 2. september síðastliðinn. Í álitinu kemur fram að meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að veita Íbúðalánasjóði heimild til að gefa út óverðtryggða skuldabréfaflokka og þar með að veita óverðtryggð lán, enda geti það aukið valmöguleika lántakenda.

Nefndarmenn segja að með þessu sé einungis stigið fyrsta skref í átt að óverðtryggðum útlánum sjóðsins þar sem eftir sé að útfæra hvernig Íbúðalánasjóður hagi útgáfu og fjármögnun slíkra lána. Það muni koma í ljós síðar hvaða kjör bjóðist á markaði og þar með hvort þessi leið sé raunhæf fyrir fólk til að fjármagna íbúðakaup sín.

Í álitinu er lögð til sú breyting á frumvarpinu að vextir óverðtryggðra útlána geti verið breytilegir. Er þá miðað við að Íbúðalánasjóður setji reglur um vexti af óverðtryggðum lánum sínum, þar sem vaxtastefna hans hljóti af fara eftir fjármögnun sjóðsins á þessum skuldabréfaflokkum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum