Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Reglugerðardrög um flugvernd til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu reglugerðardrög um flugvernd. Reglugerðina má sjá hér að neðan ásamt nokkrum fylgiskjölum. Óskað er eftir að umsagnir berist ráðuneytinu á netfangið [email protected] eigi síðar en mánudaginn 12. september.

Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að auknu öryggi í flugi með bættri flugvernd meðal annars með því að innleiða og hrinda í framkvæmd viðeigandi ráðstöfunum til að koma í veg fyrir ólöglegar aðgerðir sem beinast gegn almenningsflugi.

Með reglugerðinni eru innleiddar eftirtaldar reglugerðir Evrópusambandsins: 

1.   Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008 frá 11. mars 2008 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 2320/2002 (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 69/2009 frá 29. maí 2009).

2.   Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 272/2009 frá 2. apríl 2009 um viðbót við sameiginlegar grunnkröfur um flugvernd í almenningsflugi sem mælt er fyrir um í viðaukanum við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008 (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2009 frá 25. september 2009).

3.   Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 720/2011 frá 22. júlí 2011 um breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 272/2009 um viðbót við sameiginlegar grunnkröfur um flugvernd í almenningsflugi sem varðar fresti til innleiðingar skimunar á vökvum, úðaefnum og gelum á flugvöllum Bandalagsins, óbirt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB.

4.   Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 18/2010 frá 8. janúar 2010 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008 að því er varðar forskriftir fyrir innlenda áætlun um gæðaeftirlit á sviði flugverndar í almenningsflugi (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 74/2010 frá 11. júní 2010).

5.   Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 185/2010 frá 4. mars 2010 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 138/2010 frá 10. desember 2010).+

6.   Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 297/2010 frá 9. apríl 2010 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 272/2009 um viðbætur við sameiginlegar grunnkröfur um flugvernd í almenningsflugi (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2010 frá 10. desember 2010).

7.   Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 357/2010 frá 23. apríl 2010 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 185/2010 frá 4. mars 2010 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 139/2010 frá 10. desember 2010).

8.   Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 358/2010 frá 23. apríl 2010 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 185/2010 frá 4. mars 2010 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 138/2010 frá 10. desember 2010).

9.   Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 72/2010 frá 26. janúar 2010 um verklagsreglur við framkvæmd skoðana á vegum framkvæmdastjórnarinnar á sviði flugverndar (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2010 frá 11. júní 2010).

10. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1254/2009 frá 18. desember 2009 um að setja viðmiðanir sem gera aðildarríkjunum kleift að veita undanþágur frá sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd í almenningsflugi og að samþykkja annars konar verndarráðstafanir (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2010 frá 1. október 2010).

11.  Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 573/2010 frá 30. júní 2010 um breytingu á reglugerð nr. 185/2010 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2011 frá 20. maí 2011).

Jafnframt innleiðir reglugerðin flugverndaráætlun Íslands auk nokkurra leynilegra ákvarðana framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þ.e.

I.                     Ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. C(2010)774 lokaútgáfa frá 13.4.2010 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd sem innihalda upplýsingar sem um getur í a-lið 18. gr. reglugerðar (EB) nr. 300/2008, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 5/2011 frá 11. febrúar 2011;

II.                  Ákvörðunar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. C(2010)2604 lokaútgáfa frá 23.4.2010 um breytingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/774/EB frá 13. apríl 2010 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd sem innihalda upplýsingar sem um getur í a-lið 18. gr. reglugerðar nr. 300/2008, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 5/2011 frá 11. febrúar 2011.

Reglugerðardrögin mæla fyrir um talsverðar breytingar á gildandi reglum um flugvernd. Tvær fyrstu reglugerðirnar, þ.e. grunnreglugerðin nr. 300/2008 og gr. (EB) nr. 272/2009 um breytingar á henni, hafa nú þegar verið innleiddar sbr. núgildandi reglugerð um flugvernd. Það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir samkvæmt þeim er því óbreytt í þeim drögum sem hér eru lögð til, sbr. þó síðari breytingar sem útlistaðar eru hér að neðan.  

Reglugerð (EB) nr. 297/2010 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 272/2009 sem þegar hefur verið innleidd, fjallar um skimun vökva, úðaefna og gela á flugvöllum. Kveðið er á um að rekstraraðilar flugvalla skuli hafa komið sér upp skimunarbúnaði fyrir umrædd efni fyrir 29. apríl 2011.  Sá frestur hefur verið framlengdur til 29. apríl 2013 með reglugerð (EB) nr. 720/2011. Frá og með þeim tíma ættu því flugfarþegar að geta haft slík efni með sér í handfarangri gegn því að þau verði skimuð í samræmi við ákvæði reglugerðar (EB) nr. 185/2010. Jafnframt er gert ráð fyrir að unnt verði að bæta við tækjabúnaði sem má nota við skimun á farmi. Rekstraraðilar flugvalla geta valið hvaða aðferðir þeir nota eftir því hvað telst best til þess fallið að greina bannaða hluti í farmi sem verið er að skima.

Reglugerð (EB) nr. 18/2010 felur í sér breytingar á grunnreglugerðinni (300/2008) og fjallar um forskriftir fyrir innlend gæðaeftirlitskerfi í flugvernd. Skylt er að innleiða forskriftirnar og nota til að fylgjast með framkvæmd flugverndar á flugvöllum, hjá flugrekendum og hverjum þeim sem gegnir flugverndarlegu hlutverki. Reglugerðin gerir töluvert ítarlegri kröfur en gerðar eru í gildandi reglugerð um flugvernd.     

Reglugerð (EB) nr. 185/2010 er sú (EB) reglugerð sem felur í sér hvað mestar breytingar á flugverndinni eins og hún er samkvæmt gildandi reglum. Reglugerðin er nánari útfærsla á þeim flugverndarráðstöfunum sem tilgreindar eru í grunnreglugerðinni. Sérstaklega er fjallað um ráðstafanir sem snúa að farþegum, öðrum notendum eða veitendum þjónustu sem hafa flugverndarlegu hlutverki að gegna. Reglugerðin mælir fyrir um nákvæmar kröfur við framkvæmd sameiginlegra grunnkrafna um flugvernd til að vernda flug gegn ólögmætum afskiptum sem stofnað geta flugöryggi í hættu. Gerðar eru strangari kröfur til aðgangs að flugvallasvæðum en samkvæmt gildandi reglugerð. Gera þarf fleiri bakgrunnsathuganir en gerðar eru samkvæmt gildandi reglum þar sem áhöfnum flugvéla verður jafnframt gert að ganga í gegnum slíkar athuganir. Gert er ráð fyrir sérstökum reglum um skimun og skimunaraðferðir farþega og farangurs sem eru umtalsvert ítarlegri en samkvæmt gildandi reglum.  Sérstaklega er tekið á skimun vökva, úðaefnis og gels sem ekki hefur verið fjallað um áður í reglum af þessu tagi. Felldar hafa verið niður reglur um ræstingu og ræstivörur innan haftasvæðis flugverndar sem fjallað er um í gildandi reglugerð. Nýmæli er í reglugerðinni þar sem fjallað er um viðurkennda umboðsaðila og þekkta sendendur og flugverndareftirlit sem þeim ber að viðhafa, sem og skráða sendendur. Markmiðið er að auka skilvirkni og flýta fyrir afgreiðslu varnings til flugvalla og/eða um borð í flugvélar með því að viðurkenna ákveðna aðila sem ,,örugga aðila" til að afhenda vörur á tiltekna staði í ferlinum. Að lokum er fjallað sérstaklega um vörn farms og pósts sem ekki er gert í gildandi reglugerð um flugvernd. Í viðauka við reglugerðina er fjallað um þjálfun starfsmanna, leiðbeinendur og samþykki fyrrgreindra aðila.       

Reglugerðir (EB) nr. 357/2010 og 358/2010 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 300/2008 (grunnreglugerðinni) kveða á um strangari kröfur varðandi sölu á vökvum, úðaefnum og gelum í sérstökum innsigluðum pokum (STEBs) á flugvöllum og í flugvélum. Reglugerðirnar leggja einnig kröfur á rekstraraðila flugvalla um að tryggja að farið sé eftir þeim kröfum og að sérstaklega sé tekið á þeim í flugverndaráætlunum rekstraraðilans. Þá er fjallað um heimildir til undanþágu frá skimun á vökvum, úðaefnum og gelum. Taldir eru upp þeir flugvellir sem teknir hafa verið út og viðurkenndir af hálfu Evrópusambandsins til að meðhöndla vökva, úðaefni og gel á sambærilegan hátt og gert er innan Evrópusambandsins. Gera má ráð fyrir að reglugerðirnar verði felldar úr gildi þegar rekstraraðilar flugvalla hafa komið sér upp skimunarbúnaði fyrir umrædd efni, þ.e. fyrir 29. apríl 2013.

Reglugerð (EB) nr. 72/2010 fjallar um eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA vegna flugverndar.  Reglugerðin er í samræmi við þá framkvæmd sem viðhöfð hefur verið samkvæmt gildandi reglugerð um flugvernd. 

Reglugerð (EB) nr. 1254/2009 veitir íslenskum stjórnvöldum heimild til að veita undanþágur frá sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd sem um getur í grunnreglugerðinni (300/2008). Þetta er unnt að gera með því að samþykkja annars konar verndarráðstafanir sem veita fullnægjandi vörn á grundvelli staðbundins áhættumats á flugvöllum eða afmörkuðum svæðum flugvalla þar sem umferð takmarkast við ákveðin skilyrði. 

Reglugerð (EB) nr. 573/2010 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 185/2010 kveður á um heimild til að nota sprengjuleitarhunda við flugverndareftirlit á flugvöllum.  Reglugerðin kveður á um kröfur til leitarhunda og þjálfunar þeirra. 

Ljóst er að innleiðing framangreindra reglugerða kemur til með að fela í sér kostnaðarauka fyrir ýmsa aðila, einkum rekstraraðila flugvalla, sem þurfa að koma sér upp tækjabúnaði til skimunar vökva, úðaefna og gela fyrir 29. apríl 2013. Jafnframt munu kröfur um skimunarbúnað fyrir farm, koma til með að hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir þá rekstraraðila sem þurfa að koma sér upp slíkum búnaði. Aukinn kostnaður mun leggjast á rekstraraðila flugvalla þar sem þeir þurfa að koma sér upp kerfi / verkferli sem tryggir rekjanleika innsiglaðra poka sem notaðir verða til að afhenda vörur í flugstöð eða flugvél, vernd þeirra og skimun inn á haftasvæði flugverndar. Rekstraraðilar flugvalla þurfa því að uppfæra eða skrifa nýjar flugverndaráætlanir eftir atvikum.  Ætla má að aukinn kostnaður leggist á þá rekstraraðila flugvalla sem nýta sér heimild reglugerðrinnar til að koma sér upp sprengileitarhundum við framkvæmd flugverndareftirlits. Gera má ráð fyrir að kostnaður Flugmálastjórnar af því að yfirfara og samþykkja uppfærðar og/eða nýjar flugverndaráætlanir rekstraraðila vegna þessa verði nokkur. Auk þessa má ætla að þjálfa þurfi upp starfsmenn til að sinna því eftirliti sem hér um ræðir. Gera má ráð fyrir kostnaðarauka fyrir Flugmálastjórn, rekstraraðila flugvalla og flugrekendur vegna endurskoðunar og uppfærslu flugverndaráætlana. Einnig er líklegt að aukinn kostnaður leggist á sendendur vara vegna aukinna flugverndarráðstafana. 

Ráðuneytið óskar umsagnar í síðasta lagi 12. september n.k.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn