Hoppa yfir valmynd
15. september 2011 Matvælaráðuneytið

TIL HAMINGJU ... og takk!

Inspired by Iceland
Inspired by Iceland

Ég óska öllum aðstandendum Inspired by Iceland átaksins til hamingju með gullverðlaun og Grand Prix verðlaun í samkeppni um evrópsku Effie verðlaunin. Íslandsstofa og Íslenska auglýsingastofan tóku á móti verðlaununum í Brussel í gær fyrir árangursríkustu auglýsingaherferð ársins 2010 og áhrifamestu notkun á samfélagsmiðlum. Breska almanntengsla- og auglýsingastofan Brooklyn Brothers, sem var samstarfsaðili í verkefninu, var valin besta auglýsingastofa Evrópu fyrir þátt sinn í Inspired by Iceland.

Þetta er mikil viðurkenning til fjölmargra samstarfsaðila, sem áttu hlut að Inspired by Iceland, til iðnaðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Icelandair, Iceland Express og yfir 90 fyrirtækja og markaðsstofa í ferðaþjónustu sem tóku þátt í því. Einnig á auglýsingastofan Fíton sérstakar þakkir skildar fyrir vinsælt myndband og mörg önnur miðlunarfyrirtæki fyrir framúrskarandi fagmennsku.

Þá vil ég færa almenningi á Íslandi sérstakar þakkir fyrir sinn virka þátt í átakinu. Niðurstaðan er ekki eingöngu sú að það tókst með eftirminnilegum hætti að bjarga ferðasumrinu 2010 eftir truflun á flugsamgöngum í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli.  Átakið hefur einnig átt stóran þátt í gríðarlegri fjölgun ferðamanna á árinu 2011 – Íslandsmetið verður örugglega slegið! Við munum síðan byggja á grunni Inspired by Iceland þegar við hefjum nýja markaðssókn sem beinist að því að fjölga ferðamönnum utan hins hefðbundna sumartíma.

Það eru spennandi og „inspired“ tímar framundan!

Katrín Júlíusdóttir
ferðamálaráðherra

Katrín Júlíusdóttir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum