Hoppa yfir valmynd
16. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ákvörðun um byggingu hjúkrunarheimila á Ísafirði og í Reykjanesbæ

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að heimila velferðarráðherra og fjármálaráðherra að ganga til samninga við Reykjanesbæ um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis og við Ísafjarðarkaupstað um byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis. Framkvæmdir verða fjármagnaðar með svokallaðri leiguleið. 

Haustið 2009 samþykkti ríkisstjórnin áætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila í níu sveitarfélögum, samtals 361 hjúkrunarrými og að velferðarráðuneytið (þá félags- og tryggingamálaráðuneytið) og fjármálaráðuneytið myndu leita eftir samstarfi við sveitarfélögin um framkvæmdirnar. Samþykkt ríkisstjórnarinnar byggðist á framkvæmdaáætlun félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá árinu 2008 þar sem mat var lagt á þörf fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma um allt land.

Reykjanesbær

Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að byggt yrði nýtt 30 rýma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ en að hjúkrunarheimilið Hlévangur yrði notað áfram og fjölbýlum þar breytt í einbýli. Fyrr í sumar lagði bæjarstjórn Reykjanesbæjar fram tillögu við velferðarráðherra um að byggja nýtt 60 rýma heimili og leggja niður Hlévang. Á þetta var fallist og verður gengið til samninga við bæjarfélagið á þeim forsendum.

Ísafjörður

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur fjárheimildir fyrir rekstri 20 hjúkrunarrýma en á svæðinu er talin þörf fyrir 30 hjúkrunarrými. Þau rými sem eru fyrir hendi á Ísafirði eru inni á sjúkrahúsinu sjálfu og samræmast því ekki áherslum samtímans um umhverfi og aðbúnað fólks á hjúkrunarheimilum. Með byggingu nýs 30 rýma heimilis gjörbreytast aðstæður íbúa en byggt verður samkvæmt viðmiðum ráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila.

Fjármögnun framkvæmda

Heimamenn munu annast hönnun og byggingu hjúkrunarheimilanna í samræmi við viðmið ráðuneytisins, fjármögnunin verður tryggð með láni frá Íbúðalánasjóði en Framkvæmdasjóður aldraðra stendur undir húsaleigu til viðkomandi sveitarfélags og reiknast hún sem ígildi stofnkostnaðar.

Árlegar leigugreiðslur Framkvæmdasjóðs aldraðra vegna heimilanna tveggja á Ísafirði og í Reykjanesbæ verða um 180 milljónir króna. Árlegur rekstrarkostnaður til viðbótar þeim heimildum sem fyrir eru nemur um 160 milljónum króna.

Uppbygging hjúkrunarheimila víða um land

Framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimila í samræmi við áætlun stjórnvalda eru þegar hafnar í fjórum sveitarfélögum; á Akureyri (45 rými) í Borgarbyggð (32 rými), Garðabæ (60 rými) og Mosfellsbæ (30 rými). Alls eru þetta 167 hjúkrunarrými.

Í öðrum sveitarfélögum; Hafnarfirði, Seltjarnarnesi, Fljótsdalshéraði og Kópavogi, er unnið að undirbúningi framkvæmda. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum