Hoppa yfir valmynd
1. október 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlagafrumvarp 2012

Fréttatilkynning nr. 7/2011

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2012 markar ákveðin tímamót í ríkisfjármálum eftir efnahagshrunið sem varð á Íslandi 2008. Eftir erfið ár að baki í ríkisfjármálum stefnir í verulegan afgang á frumjöfnuði árið 2012. Einnig gerir frumvarpið ekki ráð fyrir harkalegum aðgerðum, hvorki á útgjalda - né tekjuhlið fjárlaganna, og því verður ekki ráðist í almennar skattahækkanir á árinu.

Vegna þess umtalsverða árangurs sem þegar hefur náðst er áætlun í ríkisfjármálum aðlöguð að framvindunni og dregið nokkuð úr áður fyrirhuguðu aðhaldi. Markmiðum um afgang á heildarjöfnuði er seinkað um eitt ár og mildar það aðlögunarferilinn. Við það dregur úr þörf fyrir jafnt niðurskurð sem og tekjuöflunaraðgerðir og gerir jafnframt betur kleift að mæta útgjaldaáhrifum kjarasamninga.

Eftir nær tveggja ára samdrátt í þjóðarbúskapnum í kjölfar bankahrunsins haustið 2008, sem nemur alls tæplega 11%, er hagkerfið farið að vaxa á ný. Einkaneysla eykst, fjárfesting vex, atvinnuleysi fer lækkandi og kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist. Útlit er fyrir að á næsta ári fari hagkerfið að taka vel við sér eftir djúpa lægð í kjölfar fjármálakreppunnar.

Helstu niðurstöður fjárlagafrumvarpsins 2012

  • Útgjöld ríkissjóðs verða lækkuð um 6,6 mia.kr. og fara því heildarútgjöld ríkissjóðs lækkandi og nemur lækkun á aðhaldskröfu á útgjaldahlið milli ára um 27 mia. kr.
  • Leiðarstef í ríkisfjármálum hefur verið að reyna eftir mesta megni að hlífa velferðarþjónustu, menntamálum og löggæslu, en ná fram meiri hagræðingu í almennri stjórnsýslu og rekstri ríkisins. Í fjárlagafrumvarpi 2012 eru sett fram almenn viðmið um samdrátt í útgjöldum. Þau eru 3% í almennri stjórnsýslu og þjónustu og 1,5% í velferðamálum, s.s. heilbrigðisþjónustu, skólamálum, löggæslu, bótakerfum og sjúkratryggingum.
  • Gert er ráð fyrir að halli á ríkissjóði lækki um meira en helming á árinu 2012 miðað við yfirstandandi ár. Áætlað er að heildarjöfnuður árið 2012 verði neikvæður um 17,7 mia.kr. samanborið við neikvæðan jöfnuð upp á 42,2 mia.kr. í áætlun 2011.
  • Heildarútgjöld ríkissjóðs fara lækkandi. Frumgjöld eru áætluð 460,8 mia.kr. og hækka um 3,2 mia.kr. frá áætlun 2011 m.v. verðlag hvers árs. Frumtekjur eru áætlaðar 500,3 mia.kr. og aukast um 39,1 mia.kr. frá áætlun 2011 eða 4,8% að raunvirði. Áætlað er að frumjöfnuður verði jákvæður um 39,6 mia.kr. á rekstrargrunni sem jafngildir 2,2% af landsframleiðslu.
  • Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 521,5 mia.kr. og aukast um 38,7 ma.kr. frá áætlun 2011. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 539,2 mia.kr. og aukast um 14,3 mia.kr. frá áætlun 2011. Helstu útgjaldaliðirnir eru hækkun launa vegna kjarasamninga auk hækkun almennra bóta.
  • Á tekjuhlið er gert ráð fyrir ígildi virðisaukaskatts á fjármálafyrirtæki eða svokölluðum fjársýsluskatti (fsk-skatti), veiði- og auðlindagjöldum, sölu eigna og arðgreiðslum.
  • Hækkanir vegna verðlags í frumvarpinu eru umtalsvert meiri en verið hefur undanfarin ár en þær nema samtals 26,7 mia.kr. Allir liðir eru þannig uppfærðir miðað við launahækkanir opinberra starfsmanna, hækkun bóta, veikingu krónunnar og forsendur um verðlag.
  • Frumvarpið markar einnig nokkur tímamót hvað það varðar að nú er, eftir þrjú mjög erfið ár, varið á nýjan leik auknu fjármagni til nokkurra forgangsverkefna. Ber þar fyrst að nefna átak í menntunarmálum ungs fólks og atvinnuleitenda. Einnig má nefna sérstakt átak í almenningssamgöngum, eflingu Norðurslóðaverkefna, aukin framlög til þróunarsamvinnu, átak í atvinnumálum og ferðaþjónustu, eflingu tónlistarkennslu og flutningsjöfnun á landsbyggðinni.

Vakin er athygli á því að samhliða fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 leggur fjármálaráðherra fram skýrslu um áætlun í ríkisfjármálum 2012 – 2015. Skýrslan er heildarendurskoðun á áætlun um stefnumótun í ríkisfjármálum fyrir árin 2009 -2013, þar sem markmið um afkomu ríkisins hafa verið endurskoðuð með hliðsjón af framgangi ríkisfjármálanna sl. 2 ár og breyttum efnahagshorfum.

Einnig er vakin athygli á því að allt efni fjárlagafrumvarpsins, talnayfirlit og greinargerðir, er birt á vef  fjármálaráðuneytisins um leið og frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi. Vefslóð efnisins  er www.fjarlog.is.

Nánari upplýsingar veitir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, rosa.bjork.brynjolfsdottir hjá fjr.stjr.is, s. 545-9200.

Reykjavík 1. október 2011

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum