Hoppa yfir valmynd
1. október 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisbúskapurinn 2012-2015

Fréttatilkynning nr. 8/2011

Samhliða fjárlagafrumvarpi 2012 gefur ráðuneytið út skýrslu um áætlun í ríkisfjármálum 2012-2015.

  • Alger viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs frá 2009-2012
  • Dregið úr aðhaldskröfu í ríkisfjármálum
  • Ný markmiðssetning um skuldastöðu ríkissjóðs

Í júní árið 2009 lagði fjármálaráðherra fram fyrir Alþingi skýrslu um stefnumörkun í ríkisfjármálum, ríkisfjármálaáætlun,fyrir árin 2009-2013. Áætlunin fól í sér viðbrögð við þeim mikla vanda í opinberum fjármálum sem blasti við eftir hrun bankakerfisins haustið 2008 og vegna efnahagskreppunnar sem fylgdi í kjölfarið. Markmið áætlunarinnar var að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs, draga úr vaxtakostnaði og treysta forsendur velferðarsamfélagsins til framtíðar litið. Samhliða fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 leggur fjármálaráðherra fram nú skýrslu um áætlun í ríkifjármálum 2012-2015 sem er heildarendurskoðun á fyrrgreindri áætlun, þar sem markmið um afkomu ríkisins hafa verið endurskoðuð með hliðsjón af framgangi ríkisfjármálanna sl. tvö ár og breyttum efnahagshorfum.

Við framsetningu fjárlagafrumvarps og frágang fjárlaga 2011 voru markmið um jákvæðan frumjöfnuð á árinu 2011 uppfyllt og allt bendir til að það takmark náist, þ.e.a.s. á rekstrargrunni. Markmið um jákvæðan frumjöfnuð er stór áfangi í að ná fyrrgreindum markmiðum.

Mynd 1. Frumjöfnuður ríkissjóðs með og án óreglulegra liða 2009-2012

Frumjöfnuður ríkissjóðs með og án óreglulegra liða 2009-2012

Árangurinn í ríkisfjármálum til þessa og hagstæðari skuldastaða ríkissjóðs en áætlað var gerir það að verkum að aðlögun ríkisfjármálanna þarf ekki að verða jafn mikil og ganga jafn hratt fram og gert var ráð fyrir þegar áætlunin var gerð sumarið 2009. Nú er miðað við að viðsnúningur í frumjöfnuði verði um 10–11% af landsframleiðslu í stað 16% í upphaflegri áætlun. Af þeim sökum verður markmiðum um afgang á heildarjöfnuði seinkað til ársins 2014, auk þess sem afgangurinn verður minni en stefnt var að áður.

Þó svo að ákvörðun liggi fyrir um að milda aðlögunina í ríkisfjármálum er ljóst, eins og ofangreindar tölur sýna, að aðlögunin er umfangsmikil og minnir á það ferli sem aðrar þjóðir á Norðurlöndum hafa farið í gegn um á krepputímum. Þessi mikla aðlögun hefur kallað á víðtækar aðgerðir á útgjaldahlið og tekjuöflun. Í þeirri vinnu hefur ríkisstjórnin reynt eftir fremsta megni að hlífa velferðaþjónustu, menntamálum og löggæslu sérstaklega við niðurskurði en ná fram hagræðingu í stjórnsýslu og rekstri ríkisins. Það markmið hefur náðst.

Mynd 2. Útgjöld vegna velferðarmála 1998-2010

Útgjöld vegna velferðarmála 1998-2010

Þá má einnig nefna að betri staða ríkissjóðs hefur gert kleift að hækka bætur almanna- og atvinnuleysistrygginga með hliðsjón af nýlegum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Þær hækkanir eru talsvert meiri en reiknað var með í fyrri áætlun.

Ríkisfjármálastefnan hefur verið endurskoðuð samhliða undirbúningi fjárlagafrumvarpsins í vor og í sumar þar sem markmið hafa verið löguð að framgangi ríkisfjármálanna sl. tvö ár og breyttum efnahagshorfum. Hin nýja áætlun tekur til áranna 2012-2015 og eru í henni sett fram markmið um skuldastöðu ríkissjóðs á næstu árum. Gert er ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs nái hámarki á árinu 2011 en komi til með að lækka eftir það. Ísland sker sig þannig frá öðrum ríkjum er glíma við erfiðleika vegna skuldakreppunnar að því leyti að þau ríki eru að taka á sig meiri skuldir á komandi árum á sama tíma og skuldir okkar taka að lækka.

Mynd 3. Heildarskuldir og hrein staða ríkissjóðs

Heildarskuldir og hrein staða ríkissjóðs

Í dag skuldar ríkið rúm 80% af VLF og sveitarfélögin í heild um 20%. Hvað ríkið varðar þá ætti að vera raunhæft að ætla út frá aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu samhliða auknum hagvexti að ríkissjóður geti minnkað skuldir sínar á næstu árum og að á árabilinu 2016-2019 verði skuldir ríkissjóðs komnar niður fyrir 45-50% af VLF. Á þeim tíma er ekki óeðlilegt að gera þá kröfu að skuldastaða sveitarfélaganna fari jafnt og þétt batnandi og verði ekki hærri en 12-15% af VLF. Þar með myndi staða á skuldum hins opinbera í heild vera í kringum 60% af VLF en það eru ásættanleg viðmið þegar kemur að skuldastöðu þess.

Reykjavík 1. október 2011

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum