Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 21. september 2011

Mál nr. 67/2011                    Eiginnafn:     Vinsý

 

Hinn 21. september 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 67/2011 en erindið barst nefndinni 16. september:

Eiginnafnið Vinsý (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Vinsýjar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Vinsý (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 68/2011                    Eiginnafn:     Jamil

 

Hinn 21. september 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 68/2011 en erindið barst nefndinni 5. september.

Eiginnafnið Jamil (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Jamils, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Jamil (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

Mál nr. 69/2011                    Eiginnafn:     Hannadís

 

Hinn 21. september 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 69/2011 en erindið barst nefndinni 5. september:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er meðal annars vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.)

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. tvö og þrjú hér að ofan. Eiginnafnið Hannadís (kvk.) fer gegn hefðbundnum nafnmyndunarreglum í íslensku. Fyrri liður þess er nafnið Hanna, í aukaföllum Hönnu. Ekki er hefð fyrir því að fyrri liður samsetts nafns fallbeygist, það gerir aðeins sá síðari. Nafnið Hannadís (í eignarfalli Hönnudísar) brýtur þannig í bág við íslenskt málkerfi. Annar möguleiki væri að fyrri liður væri óbreyttur í beygingu (sbr. eignarfallsmyndina Hannadísar). Sá möguleiki bryti einnig í bág við íslenskt málkerfi þar sem nefnifallsmyndir veikra kvenkynsorða (s.s. gata, lilja) mynda ekki fyrri lið í samsettum orðum; þar er notað eignarfall (s.s. götuljós, liljuvöndur). Þá getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Hanna og Dís sem eitt orð. Rithátturinn Hannadís er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og uppfyllir þ.a.l. ekki tilvitnað ákvæði laga nr. 45/1996.

Til samanburðar vísast til úrskurðar mannanafnanefndar frá 27. júní 2005 í máli nr. 59/2005, vegna umsóknar um eiginnafnið Annalísa, og jafnframt til úrskurðar frá 4. febrúar 2010 í máli nr. 69/2009, vegna umsóknar um eiginnafnið Liljarós.

 Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Hannadís (kvk.) er hafnað.

 

Mál nr. 70/2011                    Millinafn:       Arndal

 

Hinn 21. september 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 70/2011 en erindið barst nefndinni 16. september:

Í máli þessu reynir á það hvort fallast beri á millinafnið Arndal en nafnið er þegar til sem ættarnafn. Af 7. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996 leiðir að það er meginregla að ættarnafn er óheimilt að nota sem millinafn. Aðeins þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. 1.-4. mgr. 7. gr. laga um mannanöfn, mega nota ættarnöfn sem millinöfn:

·         Hver maður sem ber ættarnafn í þjóðskrá má breyta því í millinafn.

·         Hver maður sem ekki ber ættarnafn en á rétt til þess má bera það sem millinafn.

·         Maður má bera ættarnafn sem millinafn hafi eitthvert alsystkini hans, foreldri, afi eða amma borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn.

·         Maður á og rétt á að taka sér ættarnafn maka síns sem millinafn. Honum er einnig heimilt að taka sér nafnið sem millinafn beri maki hans það sem millinaf skv. 2. eða 3. mgr. 7. gr. laga um mannanöfn.

Ekki verður séð að neitt ofangreindra skilyrða eigi við í því máli sem hér um ræðir. Er því ekki heimilt að fallast á millinafnið Arndal.

Mannanafnanefnd tekur fram að ekki væri heldur heimilt að fallast á eiginnafnið Arndal. Hér á landi hafa sum ættarnöfn jafnframt tíðkast sem eiginnöfn. Þetta eru ættarnöfn, s.s. Smári, Þór, Viðar o.s.frv., sem formsins vegna geta alveg eins verið eiginnöfn. Slík notkun hefur verið látin átölulaus og kemur fram í skýringum sem fylgdu 4. mgr. 7. gr. frumvarps til laga um mannanöfn að hún hafi „því unnið sér nokkurn hefðarrétt“. Það er hins vegar ekki hefð fyrir því að seinni hluti eiginnafna sé -dal, -fjörð, -fell, -holt o.s.frv. heldur eru slíkir seinni liðir einkennandi fyrir ættarnöfn og millinöfn. Engin dæmi eru á mannanafnaskrá um -dal sem síðari lið eiginnafns. Nöfn sem enda á -dal bera svipmót ættarnafns eða millinafns sem þarf að vera nothæft fyrir bæði karla og konur og hafa því ekki karlkynsendinguna -ur sem sambærilegt samnafn hefur, þ.e. dalur. Eiginnafnið Arndal myndi því brjóta í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 5. gr. laga um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um millinafnið Arndal er hafnað.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn