Hoppa yfir valmynd
5. október 2011 Matvælaráðuneytið

Stjórnvöld svara ESA vegna Icesave málsins

Stjórnvöld hafa svarað Eftirlitsstofnun EFTA vegna rökstudds álits sem stofnunin sendi íslenskum stjórnvöldum 6. júní sl.  

  • Í bréfi stjórnvalda er vísað almennt til fyrri sjónarmiða stjórnvalda og því mótmælt að rökstutt álit ESA hnekki fyrri röksemdum.
  • Rakin er ítarlega staðan við slitameðferð Landsbankans og rökstutt að raunverulega hafi innstæðueigendur í Hollandi og Bretlandi ekki borið skarðan hlut frá borði ef áætlanir um eignavirði búsins standast. Sérstakt fylgiskjal fylgir bréfinu með útreikningum.
  • Þá er því mótmælt að viljayfirlýsing íslenskra og hollenskra stjórnvalda frá 8. október 2008 sem ESA byggir á sýni hug íslenskra stjórnvalda til ábyrgðar á innstæðutryggingakerfinu.
  • Gerð er grein fyrir þýðingarmiklum upplýsingum sem komið hafa fram í undirbúningi Evrópusambandsins að nýrri innstæðutilskipun.
  • Harðlega er mótmælt rökum ESA um að ekki geti komið til álita neinar réttlætingarástæður fyrir mismunandi meðferð á innstæðum í innlendum og erlendum útibúum bankanna.
  • Bent er á að allir viðurkenni að til verndar innstæðukerfinu grípi ríki til mjög mismunandi aðgerða. Hvorki vandræði innlendra né erlendra innstæðueigenda Landsbankans voru leyst í gegnum innstæðutryggingakerfið heldur með annars konar aðgerðum (bank resolution) sem eru fullheimilar og áhersla lögð á að ríki hafi frjálsræði sem hentar alvarleika ástands og efnahagslegum veruleika.
  • Þá voru að lokum ítrekaðar kröfur um að stofnunin láti málið niður falla.
Bréf stjórnvalda á pdf-formi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum