Velferðarráðuneytið

Svar til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) varðandi Íbúðalánasjóð

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður

Íbúðalánasjóður gegnir mikilvægu hlutverki á húsnæðismarkaði, hann verður áfram rekinn sem ein heild og öll starfsemin skilgreind sem þjónusta í almannaþágu. Þetta kemur fram í svari stjórnvalda við athugasemdum ESA en jafnframt að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum og reglum um sjóðinn þannig að starfsemin samræmist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. 

Í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) 18. júlí síðastliðinn, sem beint var að íslenskum stjórnvöldum, voru settar fram sex tillögur að aðgerðum og breytingum á starfsemi Íbúðalánasjóðs svo hún samræmist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (sjá fréttatilkynningu ESA frá 18. júlí 2011).

Stjórnvöld hafa fjallað um tillögur ESA og komist að þeirri niðurstöðu að fallast megi á þær í meginatriðum. Áhersla er lögð á að Íbúðalánasjóður gegni mikilvægu hlutverki á húsnæðismarkaði svo tryggja megi virkni markaðarins vegna fyrirsjáanlegs markaðsbrests. Einnig að miðað sé við að Íbúðalánasjóður verði áfram rekinn sem ein heild þannig að starfsemi sjóðsins verði ekki skipt upp heldur öll starfsemi hans skilgreind sem þjónusta í almannaþágu. Er þá vísað til þess að sjóðurinn muni ekki sinna öðrum verkefnum en þeim sem falla að því hlutverki og starfi því ekki á samkeppnismarkaði. Viðurkennt er að tryggja þurfi að starfsemi Íbúðalánasjóðs samræmist reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og því verði gerðar tilteknar breytingar á lögum og reglum sem um sjóðinn gilda.

Velferðarráðherra kynnti niðurstöðuna á fundi ríkisstjórnar síðastliðinn þriðjudag. Velferðarnefnd Alþingis hefur einnig verið kynnt svar stjórnvalda til ESA sem nú hefur verið sent stofnuninni.

Breytingar á lánveitingum Íbúðalánasjóðs til einstaklinga

Lagt er til að lán frá Íbúðalánasjóði verði áfram takmörkuð við 20 milljónir króna og fari ekki yfir 80% af hlutfalli kaupverðs eða byggingarkostnaðar. Er talið að með því falli lánveitingar sjóðsins undir skilgreiningu á þjónustu í almannaþágu. Jafnframt verði sett viðbótarskilyrði þess efnis að nemi hámarkslán 40% af fasteignamati eða minna fáist ekki lánveiting frá sjóðnum. Með þessu er komið í veg fyrir að lán fáist hjá Íbúðalánasjóði fyrir eignum að verðmæti 50 milljónir króna eða meira samkvæmt fasteignamati.

Breytingar á lánveitingum Íbúðalánasjóðs til félaga

Lánveitingum verður hætt til byggingar íbúðarhúsnæðis þegar markmið lántakenda er að selja íbúðarhúsnæðið áfram til þriðja aðila, enda falla slíkar lánveitingar ekki að hlutverki sjóðsins um þjónustu í almannaþágu.

Skilyrði um lánveitingar til almennra leigufélaga eru skýrð nánar í bréfi velferðarráðuneytisins til ESA með áherslu á að þau séu hluti af húsnæðisstefnu stjórnvalda til að auka valkosti fólks á húsnæðismarkaði og teljist þjónusta í almannaþágu. Því standi vilji til þess að Íbúðalánasjóður veiti áfram lán til leiguíbúða. 

Lögð er áhersla á að lánveitingar til leigufélaga verði áfram háðar sömu takmörkunum sem nú gilda um stærð og verð íbúða. Auknar kröfur verða gerðar til fjárhagslegrar stöðu félaganna. Skylt verður að reka leiguíbúðir til langtíma og að þinglýsa kvöð um langtímaleigu á íbúðirnar.

Tilhögun ríkisaðstoðar við Íbúðalánasjóð

Þar sem öll starfsemi Íbúðalánasjóðs er skilgreind sem þjónusta í almannaþágu er lögð áhersla á að hann muni áfram njóta ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar, vaxtaniðurgreiðslu og undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts. Hins vegar verði sett viðmið sem mælt verður fyrir um í lögum svo unnt verði að reikna út hversu mikillar ríkisaðstoðar Íbúðalánasjóður njóti. Komi upp aðstæður þar sem aðstoðin reynist of mikil eða ef ríkisaðstoðin er notuð í annað en þjónustu í almannaþágu mun sjóðurinn þurfa að endurgreiða hana til ríkisins. Er gert ráð fyrir að viðmiðin verði tilbúin eigi síðar en 1. maí 2012.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn