Hoppa yfir valmynd
12. október 2011 Utanríkisráðuneytið

Framvinduskýrsla ESB segir Ísland uppfylla pólitísk og efnahagsleg skilyrði aðildar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti í dag skýrslu um framvindu samningaviðræðna Íslands og ESB um aðild að sambandinu. Megin niðurstöður framvinduskýrslunnar eru að Ísland uppfylli áfram öll pólitísk og efnahagsleg skilyrði aðildar og fjallað er með ítarlegum hætti um þróun og horfur í íslenskum efnahagsmálum.

Í framvinduskýrslunni er lagt mat á þróun efnahags- og stjórnmála á Íslandi frá útgáfu síðustu skýrslu fyrir ári, og reifuð staða í helstu málaflokkum í samningaviðræðunum.   

Fram kemur að Ísland sé stöðugt lýðræðisríki með styrkar stofnanir og taki virkan þátt í baráttu fyrir mannréttindum. Góður árangur hafi náðst í að hrinda í framkvæmd tillögum rannsóknarnefndar Alþingis auk þess sem sjálfstæði dómstóla hafi styrkst. Í skýrslunni er með jákvæðum hætti vikið að breytingum á starfsemi stjórnarráðsins og baráttu gegn spillingu.

Vikið er að góðum árangri af efnahagsáætlun AGS og þeirri staðreynd að Ísland hafi á ný komið inn á alþjóðlega fjármálamarkaði. Jafnframt er staðfest að íslenskt efnahagslíf sé að rétta úr kútnum þótt enn séu blikur á lofti og atvinnuleysi sé áframhaldandi áhyggjuefni.

Fram kemur að Ísland hafi þegar tekið upp stóran hluta regluverks ESB í gegnum EES-samninginn og því sé löggjöf á Íslandi mjög í samræmi við regluverkið. Á þeim sviðum sem falla að hluta til eða að öllu leyti utan EES þá vanti enn upp á að löggjöf Íslands falli að regluverki ESB. Á sama tíma er bent á undantekningar frá því líkt og varðandi réttarvörslu og grundvallarréttindi og utanríkismál. Að mati framkvæmdastjórnar ESB eru helstu atriðin sem ætla má fyrirfram að verði erfið í samningaferlinu málefni sem m.a. tengjast landbúnaði, umhverfismálum, fiskveiðum og matvælamálum.

Efnislegar samningaviðræður um aðild Íslands að ESB hófust 27. júní 2011 þegar fjórir samningskaflar voru opnaðir en tveimur hefur þegar verið lokað. Samningaviðræðum verður fram haldið á sérstökum ríkjaráðstefnum sem verða haldnar í Brussel 19. október og 12. desember næstkomandi.

Hlekkur á framvinduskýrsluna á ensku:
Skýrslan verður þýdd á íslensku og verður aðgengileg á vef utanríkisráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum