Hoppa yfir valmynd
13. október 2011 Forsætisráðuneytið

Gott samstarf ríkis og sveitarfélaga skilar miklum árangri

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir flutti ávarp við upphaf fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún þakkaði mikilvægt framlag sveitarstjórnanna til að milda afleiðingar hrunsins og fagnaði því góða samstarfi sem verið hefði milli ríkis og sveitarfélaga í tíð þessarar ríkisstjórnar.

„Fjöldi mála sem hafa verið óleyst og í hnút um langt árabil hafa verið tekin upp og afgreidd og góður gangur er í flestum ef ekki öllum helstu samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga um þessar mundir. Fyrir þetta vil ég þakka fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, enda þarf tvo til ef skapa á traust og gott samstarf um þau mikilvægu mál sem hér um ræðir.“

Forsætisráðherra ítrekaði þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að færa ætti aukin verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Vel hefði tekist til við yfirfærslu þjónustunnar við fatlað fólk á þessu ári og hraða þyrfti vinnu við yfirfærslu málefna aldraðra og tiltekinna þátta heilsugæslunnar í samræmi við samstarfyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. En áfram þyrfti að halda.

„Þrátt fyrir umfangsmikinn flutning verkefna til sveitarfélaga á síðustu árum er hlutur sveitarfélaga á Íslandi í opinberri þjónustu mun minni en annars staðar á Norðurlöndum. Við eigum ekki að láta staðar numið hér varðandi yfirfærslu verkefna.
Marka þarf skýrar línur um verkaskiptinguna og horfa með opnum huga á hvaða opinber þjónusta er nærþjónusta og hvaða verkefni falla að öðrum verkefnum sveitarfélaga. Margir staldra eflaust við framhaldsskólana  með samfellu í skólastarfi í huga. Ég bendi einnig á tækifæri sem kunna að leynast í því að ríki og sveitarfélög, eitt, fleiri eða öll, geri með sér þjónustusamninga.“

Í ræðu sinni fjallaði forsætisráðherra auk þess um ýmis sameiginleg verkefni og hagsmunamál ríkis og sveitarfélaga, m.a. opinber fjármál og leiðir út úr skuldavandanum, atvinnumál og mikilvægi aukins hagvaxtar og nauðsyn þess að ríki og sveitarfélög leggist á eitt við uppbyggingu húsnæðismarkaðar á breyttum forsendum.

„Sá eignabruni og sú ofurskuldsetning sem hrunið leiddi til kallar á nýja hugsun og nýja stefnu í húsnæðismálum. Stjórnvöld hafa nú mótað nýja húsnæðisstefnu í víðtæku samráði við fjölmargra aðila, ekki síst sveitarfélögin, og náð um það þverpólitískri samstöðu.

Markmiðið er að fjölga raunhæfum valkostum á  húsnæðismarkaðnum, m.a. með því að stórefla opinberan leigumarkað sem raunverulegan og öruggan valkost við séreignastefnuna og er þegar unnið að stofnun opinberra leigufélaga.

Fyrir liggja tillögur um að húsnæðisbætur leysi núverandi vaxta- og húsaleigubætur af hólmi í því skyni að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera milli ólíkra búsetuforma. Meginreglan á að vera sú að ríkið greiði almennan húsnæðisstuðning en sveitarfélögin veiti sérstakan húsnæðisstuðning vegna félagslegra aðstæðna.

Um útfærslu þessara hugmynda þurfum við að eiga gott samstarf á komandi mánuðum og strax á næsta ári þurfum við að sjá móta fyrir raunverulegum breytingum í þessa átt. Ég fagna í þessu sambandi nýsamþykktri húsnæðisstefnu Reykjavíkurborg til ársins 2020 þar sem meðal annars eru uppi áform um uppbygginu leigumarkaðar og átak í byggingu 500 nýrra íbúða fyrir ungt fólk.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum