Hoppa yfir valmynd
17. október 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mennta- og menningarmálaráðuneytið : valáfangar í grunnskólum : apríl - júní 2011

Síðastliðin skólaár gerði mennta- og menningarmálaráðuneytið könnun á fyrirkomulagi og umfangi valgreina í 8.-10. bekk í grunnskólum

Könnun á fyrirkomulagi og umfangi  valgreina í grunnskólum skólaárið 2010-2011

Forsendur könnunar
Samkvæmt þriggja ára áætlun mennta- og menningarmálaráðuneytisins um mat á skólastarfi var gerð könnun á fyrirkomulagi og umfangi valgreina á unglingastigi vorið 2011. Capacent Gallup var falin framkvæmd könnunarinnar sem send var til allra grunnskóla með 8. - 10. bekk, samtals 146 skóla og gilti um skólaárið 2010-2011.

Markmið með valgreinum
Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla frá 2006 er markmiðið að námið sé lagað sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra og forráðamenn, kennara og námsráðgjafa. Skólar skulu gera grein fyrir tilhögun valgreina í skólanámskrá að fengnu samþykki sveitarstjórnar og kynna nemendum og foreldrum og forráðamönnum. Þar skal skilgreina og skýra markmið valgreina sem boðnar eru fram, leggja fram kennsluáætlanir, yfirlit yfir námsefni og ákvarðanir um námsmat.
Umfang valgreina
Skólastjórar voru m.a. beðnir að gefa upp hvaða aðrar valgreinar skólarnir hefðu boðið upp á skólaárið 2010-2011. Mjög margar námsgreinar, námssviðog áhugasvið voru nefnd í svörunum. Sem dæmi má nefna þýsku, grafíska hönnun, útivist og hreyfingu, spænsku, stuttmyndagerð, fatahönnun, silfursmíði, frönsku, kvikmyndir, skrautskrift og ljósmyndun. Að sögn skólastjóranna voru um 70 valgreinar í boði í grunnskólum landsins sl. skólaár. Þegar svör 2. og 3. spurningar eru skoðuð saman kemur í ljós að flestir skólar eða 131 bjóða heimilisfræði sem valgrein en nemendafjöldi í þeim skólum er 10.511. Í öðru sæti er hönnun og smíði sem kennd er í 129 skólum. Strax á eftir er myndmennt og íþróttir og sund sem 128 skólar kenna. Ekki var spurt um fjölda nemenda sem leggja stund á einstakar valgreinar í skólunum.

Tíu vinsælustu valgreinarnar í grunnskólum skólaárið 2010-2011 eru:

  • Heimilisfræði: 131 skóli.
  • Hönnun og smíði:129 skóli.
  • Myndmennt: 128 skólar.
  • Íþróttir og sund: 128 skólar.
  • Textílmennt: 112 skólar.
  • Leikræn tjáning: 91 skóli.
  • Upplýsinga- og tæknimennt: 97 skólar.
  • Enska: 89 skólar.
  • Náttúrufræði: 69 skólar.
  • Íslenska: 68 skólar.

Níu vinsælustu valgreinarnar í grunnskólum skólaárið 1991-1992 eru:
Ráðuneytið gerði könnun í grunnskólum skólaárið 1991-1992 um valgreinar og þá voru níu vinsælustu valgreinarnar:

  • Vélritun
  • Tölvufræðsla
  • Bókfærsla
  • Þýska,
  • Heimilisfræði,
  • Smíði
  • Myndmennt
  • Hannyrðir
  • Samfélagsfræði.

Vinsældalistinn hefur því breyst ótrúlega lítið á þessu tímabili.

Helstu niðurstöður

  • Skólar voru beðnir að gefa upp heildarfjölda mínútna á viku sem nemandi fær í valgreinum, skipt eftir árgangi en skv. lögum sem í gildi voru umrætt skólaár, áttu nemendur í 8. í 10. bekk að fá 493 mín á viku í valgreinar. Enginn skóli náði þessu viðmiði laganna enda skiljanlegt í ljósi þess að ekki var búið að útfæra viðmiðunarstundaskrána í aðalnámskrá grunnskóla að þessum lögum. Í 8. bekk var mínútufjöldi oftast á bilinu 61 til 240 mínútur, í 9. bekk voru 121 til 360 mín. oftast nefndar og í 10. bekk var bilið 121 til 420 mín. Í 10. bekk var val nemenda 301 til 320 mín. í 25 skólum og 361 til 420 mín. í 16 skólum. Svo virðist sem grunnskólar hafi almennt ekki verið tilbúnir fyrir þessa miklu lögbundnu aukningu á vali.
  • Í þessu sambandi má nefna að í lögum  um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum, er sú breyting gerð að framvegis skulu nemendur í 8. til 10. bekk velja námsgreinar og námssvið í allt að fimmtungi námstímans samkvæmt viðmiðum sem sett eru í aðalnámskrá grunnskóla. Í nýútgefinni aðalnámskrá er heildarfjöldi mínútna til ráðstöfunar/vals í 8. til 10. bekk 870 eða 290 mín. Vikulega á hvern árgang að meðaltali, samkvæmt viðmiðunarstundaskrá. Um 33% skóla með 10. bekk hefðu náð þessi viðmiði eða rúmlega sl. skólaár, 26% með 9. bekk og 13% með 8.bekk.
  • Aflað var upplýsinga um hverjir kæmu að ákvörðunum um framboð valgreina. Í 142 skólum eða 97,9% af skólunum eru það skólastjórar, 137 eða 94,5% segja kennara koma að ákvörðun um framboð valgreina og 83 skólar eða 57,2% nefna nemendur. Skólaráð er nefnt af 34 skólum eða 23,4%, sveitarfélag/skólanefnd í 17,2% og foreldrar í 12,4% tilvika.
  • Spurt var um samstarf við aðra skóla um framboð og kennslu valgreina. 65 skólar eða 44,5% segja samstarf vera við framhaldsskóla og 33 eða 22,6% við aðra grunnskóla. Einnig er nefnt samstarf við tónlistarskóla og listnámsskóla. 64 skólar eða 43,% segja að ekki sé um samstarf við aðra að ræða.
  • Spurt var hvort nám á framhaldsskólastigi sem nemendur stunda utan skóla sé metin sem valgrein. 51,4% svara spurningunni játandi. Spurningunni er fylgt eftir í 8 spurningu og skólar beðnir að nefna dæmi um nám sem sé metið í hvaða ágangi grunnskólans. Langalgengast er að nemendur í 10. bekk stundi nám í framhaldsskóla og eru enska og stærðfræði þær námsgreinar sem hvað flestir nefna. Þetta hátt hlutfall, 51,4%, er nokkuð athyglisvert í ljósi þess að sl. skólaári fengu framhaldsskólar tímabundið ekki lengur greitt sérstaklega frá rikinu fyrir að kenna grunnskólanemendum þessar einingar.
  • Aflað var upplýsinga um hvaða móðurmál nemenda önnur en enska og Norðurlandamál væru metin sem valgreinar sl. skólaár. Níu skólar svöruðu spurningunni og nefndu frönsku, pólsku, spænsku og þýsku.
  • Spurt var hvort eitthvað annað nám sem nemendur stundi utan skólans væri metið sem valgrein og ef svo væri hvaða námsgreinar það væru og hversu margir nemendur hefðu fengið námið metið með vísan til 15. og 26. gr. laga um grunnskóla. Í 26. gr. laganna segir að heimilt sé að meta tímabundna þátttöku, t.d. í atvinnulífi, félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi sem nám enda sé það skipulagt í samráði við skóla. Einnig sé heimilt að meta skipulagt nám, sem stundað er utan grunnskóla, til valgreina, t.d. við tónlistarskóla og málaskóla enda njóti námið viðurkenningar.  67,1% skóla svöruðu spurningu 10 játandi. Þau svið sem nefnd eru í svörum við 11. spurningu eru m.a. starfsnám/atvinnutengd störf, áfangar á framhaldsskólastigi, björgunarsveitarstarf, félagsstörf, danska og sænska.
  • Sex skólar meta launaða vinnu sem valgrein eða 4,1% og fengu 20 nemendur launaða umrættskólaár. Dæmi um launaða vinnu voru gefin í 14. spurningu og er nefnt m.a. aðstoð á leikskóla, aðstoð á verkstæði, bílaumboð, pizzustaðir og atvinnutengt nám.

Áhrif lagabreytinga á valgreinar
Reynt var að komast að því hvort lagaákvæði um aukið val nemenda á unglingastigi hefði haft áhrif á skólastarf almennt. Spurt var hvort framboð valgreina á unglingastigi hefði aukist, haldist óbreytt eða minnkað eftir gildistöku grunnskólalaga nr. 91/2008.

15 skólar eða 10,3% sögðu framboð hafa aukist umtalsvert, 46 eða 31,7% sögðu framboð hafa aukist nokkuð, 70 skólar eða 48,3% sögðu framboð vera óbreytt og 14 skólar eða 9,75 sögðu að það hefði minnkað nokkuð eða umtalsvert.

Einnig var grennslast fyrir um afstöðu skólastjóra til þess að auka val nemenda á unglingastigi í allt að þriðjungi námstímans. Spurningin var opin og eru svörin að finna á bls. 22-26 í skýrslunni. Skólastjórar virðast skiptast nokkuð í tvo hópa, með og á móti aukningunni. Áberandi er hversu margir benda á að erfitt og illmögulegt sé fyrir fámenna skóla að uppfylla lagaákvæðið. Þá nefna margir að ekki sé til fjármagn til auka framboðið og skort á kennurum.
Niðurstöður þessarar könnunar er hægt að sjá í heild á vefsíðu ráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum